Tímarit lögfræðinga - 01.10.2001, Blaðsíða 24
Eldri lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, voru gagngert sett til þess
að uppfylla tilteknar skyldur sem íslenska ríkið tók á sig með EES-samning-
num, sjá nánar athugasemdir með frumvarpi til laga um umhverfismat,59 sbr. og
74. gr. EES-samningsins og 1. lið í XX. viðauka hans þar sem vísað er til til-
skipunar 85/337/EBE. Lögin voru jafnframt sett til að uppfylla aðrar alþjóðleg-
ar skuldbindingar sem varða skyldu til þess að láta fara fram mat á umhverfis-
áhrifum við tilteknar aðstæður, sjá t.d. a lið 1. mgr. 14. gr. samnings um líf-
fræðilega fjölbreytni. Núgildandi lög um mat á umhverfisáhrifum eru einnig
sett til þess að uppfylla skyldur EES-samningsins, þ.e. þær skuldbindingar senr
felast í tilskipun 85/337/EBE og tilskipun 97/11/EB, sem breytir þeirri fyrr-
nefndu nokkuð, svo og til að uppfylla aðrar alþjóðlegar skuldbindingar, sbr.
athugasemdir við frumvarp til laga um mat á umhverfisáhrifum.60
4.2 Nokkrar skilgreiningar
Áður en lengra er haldið er rétt að geta nokkurra skilgreininga sem koma
fram í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og reglugerð nr.
671/2000 um sama efni, en þær skipta máli fyrir eftirfarandi umfjöllun. Hér er
ekki um tæmandi greinargerð að ræða hvað varðar skilgreiningar og vísast að
öðru leyti til umræddra laga og reglugerðar.
Samkvæmt k lið 3. gr. laga nr. 106/2000 eru umhverfísáhrif „áhrif fram-
kvæmdar og starfsemi sem henni fylgir á umhverfi“ og í 1 lið 3. gr. reglugerðar
nr. 671/2000 er skilgreining 3. gr. laganna útfærð og kemur þar fram að um-
hverfisáhrif taka til beinna, óbeinna, jákvæðra, neikvæðra, sammagnaðra, var-
anlegra, tímabundinna (skammtíma og langtíma), afturkræfra og óafturkræfra
áhrifa á umhverfið.
Samkvæmt 1 lið 3. gr. laganna eru umtalsverð umhverfisáhrif „veruleg
óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að
fyrirbyggja eða bæta úr nreð mótvægisaðgerðum“.
Mótvægisaðgerðir eru „aðgerðir til að koma í veg fyrir, draga úr eða bæta
fyrir neikvæð umhverfisáhrif*, sbr. i lið 3. gr. laga nr. 106/2000, og í j lið 3. gr.
reglugerðar nr. 671/2000 er nánast sömu skilgreiningu að finna.61
I lögunum er umhverfi skilgreint og samkvæmt j lið 3. gr. er það „samheiti
fyrir menn, dýr, plöntur og annað í lífríkinu, jarðveg, jarðmyndanir, vatn, loft,
veðurfar og landslag, samfélag, heilbrigði, menningu og menningarminjar, at-
vinnu og efnisleg verðmæti".
59 Ibid., bls. 988-989.
60 Alþt. 1999-2000, A-deild, þskj. 644, bls. 3492-3496.
61 Vakin er athygli á því að ekki er fullt samræmi í skilgreiningum, sjá skilgreiningu á mótvægis-
aðgerðum þar sem miðað er við neikvæð umhverfisáhrif og skilgreiningu á umtalsverðum um-
hverfisáhrifum þar sem miðað er við óafturkræf umhverfisáhrif o.s.frv. Sjá einnig nmgr. 29.
172