Tímarit lögfræðinga - 01.10.2001, Blaðsíða 39
Ef svo væri fælist hugsanleg röskun á eignarráðum og atvinnufrelsi í stórum
dráttum í þeim tíma sem mat á umhverfisáhrifum tekur og í þeim kostnaði sem
framkvæmdaraðili þarf að bera vegna matsins. Hins vegar er óvarlegt að draga
þá almennu ályktun af dóminum að niðurstaða úrskurðar um mat á um-
hverfisáhrifum bindi leyfisveitanda. Telja verður að réttaróvissa geti ríkt hvað
þetta atriði varðar nema viðkomandi lög97 sem leyfisveitendur byggja leyfi sín
á innihaldi skýr ákvæði um að leyfisveitanda beri að fara eftir niðurstöðu þeirri
sem kemur fram í úrskurði um mat á umhverfisáhrifum.98
7.3 Skilyrði í úrskurði og efni leyfis
Nú verður vikið að skilyrðum sem oft er að finna í úrskurði um mat á um-
hverfisáhrifum. Þegar úrskurðir Skipulagsstofnunar og umhverfisráðuneytis eru
skoðaðir kemur m.a. í Ijós að margir þeirra innihalda ítarleg skilyrði, t.d. US
3/96, álver á Grundartanga. í þeim úrskurði var fallist á byggingu fyrsta áfanga
álvers með 60.000 tonna ársframleiðslu og annars áfanga með stækkun í allt að
180.000 tonna ársframleiðslu, ásamt hafnarmannvirkjum og háspennulínu eins
og lýst var í matsskýrslu. ítarleg skilyrði voru sett í úrskurðinum og verður hér
nokkurra getið. í fyrsta lagi (1) var óheimilt að hefja framkvæmdir við hvorn
áfanga fyrir sig fyrr en gerð hefði verið fullnægjandi grein fyrir matsskyldum,
tengdum framkvæmdum, svo sem virkjunarframkvæmdum. í öðru lagi (2) var
sett það skilyrði að óheimilt væri að rýmka mengunarmörk í starfsleyfi fyrir
rekstur álversins og fleiri skilyrði sem tengdust efni þess (útgefandi starfsleyfis
er Hollustuvernd ríkisins). Loks var tekið fram (3) að óheimilt væri að hefja
framkvæmdir við 180.000 tonna álver ef sýnt þætti að vöktun á rekstrartíma 1.
áfanga leiddi í ljós að forsendur og áætlanir hvað varðaði mengun frá álverinu,
og kynntar voru í frummatsskýrslu, stæðust ekki. Þessum úrskurði var skotið til
umhverfisráðherra, sbr. ÚR 20/6/96. Þess var krafist að úrskurður skipulags-
stjóra yrði felldur úr gildi og að fram færi frekara mat á umhverfisáhrifum
97 Nokkur dæmi má finna í lögum sem varða leyfisveitingar fyrir framkvæmdum sem háðar eru mati
á umhverfisáhrifum og innihalda jafnframt tengingu við mat á þeim. Slík tenging er t.d. í 27. gr.
skipulags- og byggingarlaga en þar segir í 1. ml. 1. mgr.: „Meiri háttar framkvæmdir, sem áhrif hafa
á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breyting lands með jarðvegi eða efnistöku, skulu vera í
samræmi við skipulagsáætlanir og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum þar sem það á við“. Einnig
má benda á 3. mgr. 1. gr. laga nr. 60/1981 um raforkuver, sbr. lög nr. 48/1999, þar sem segir að veiting
leyfa fyrir tilteknum virkjunum sé háð niðurstöðum mats á umhverfisáhrifum og að ráðherra (iðnaðar-
ráðherra) geti sett nánari skilyrði í virkjunarleyfi. Jafnframt segir í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 73/1990 um
eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbomsins, sbr. 4. gr. laga nr. 101/2000, að við veitingu
leyfa samkvæmt lögunum skuli gæta ákvæða laga um mat á umhverfisáhrifum. Loks er bent á 34. gr.
laga nr. 44/1999 um náttúruvemd. f þeirri grein segir að meiri háttar framkvæmdir sem áhrif hafa á
umhverfið og breyti ásýnd þess, svo sem breyting lands með jarðvegi eða efnistöku, skuli vera í
samræmi við skipulagsáætlanir og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum þar sem það á við.
98 Sjá einnig sératkvæðið í Stjömugrísmálinu fyrra þar sem segir: „Hins vegar fela lögin [63/1993]
ekki í sér bein fyrirmæli þess efnis, að synja skuli um leyfi til framkvæmdanna, ef matið þykir mæla
á móti þeim fremur en með“.
187