Uppeldi og menntun - 01.01.2008, Qupperneq 57
57
JÓNA GUÐBJÖRG TORFADÓTTIR, hAFDÍS INGvARSDÓTTIR
við nemendur. Í hugleiðingum mínum um samskipti, sem ég skrifaði hjá mér í eft-
irmála viðtalsins, kemur eftirfarandi fram:
Eftir á að hyggja þá er ég í grunninn afar ánægð með gagnrýni bandamanns míns
því að það sem snýr að samskiptum mínum við nemendur er býsna jákvætt. Það
sem fékk neikvæðari gagnrýni er frekar kennslufræðilegs eðlis og ég hef fulla trú
á að það komi með meiri reynslu. Á móti kemur að það bar ekkert út af í þessari
kennslustund, þ.e.a.s. það reyndi í sjálfu sér ekki mikið á samskipti mín við nem-
endurna. Eins og bandamaðurinn sagði þá voru þau afskaplega stillt og róleg og
hlustuðu á mig af athygli. Slíkt ástand byggir þó á einhverju … (athugasemdir
mínar við viðtal 18. október)
Á haustdögum fannst mér ganga nokkuð vel þó að auðvitað væru dagarnir misjafnir,
bæði hjá mér og nemendum mínum. Undir lok febrúar var svo komið að ég var nánast
farin að óska eftir einhvers konar uppákomu svo að ég hefði nú eitthvað til frásagnar.
Það er þó vert að fara varlega í að óska sér því að það gæti ræst. Svo reyndist einnig
vera í mínu tilviki.
Ég kom ekki auga á að það var farið að halla undan fæti í samskiptum mínum við
nemendurna. Sú þróun átti sér vissulega aðdraganda sem ég veitti enga athygli. Þegar
ég lít til baka sýnist mér að þarna hafi verið einhver undirliggjandi alda sem ég sá ekki
við og kunni jafnvel ekki að bregðast rétt við.
Í viðleitni minni til þess að skoða þróun mála eru svör nemenda minna við spurn-
ingunum sem ég lagði fyrir þá einna hjálplegust. Spurningarnar snerust um hvað
hjálpaði nemendum í námi og hvað hindraði þá. Skömmu síðar, eða þann 25. október,
lagði ég þessar spurningar fyrir báða bekkina mína. Í flestum svörum nemenda kom
fram mat á þeim sjálfum. Þeir sögðu metnað og dugnað hjálpa sér í námi og letina
hindra sig. Að frátöldu sjálfsmati nemenda voru kennsluaðferðir þeim efst í huga.
Þeir kvörtuðu sáran undan fjölda hópvinnuverkefna og sumum fannst það einnig
hindra sig í námi ef farið var of hratt yfir námsefnið. Þá kölluðu þeir eftir hefðbundn-
ari kennsluaðferðum, eins og að skrifa niður eftir glærum og lesa upp úr kennslubók-
inni. Nú sneru spurningarnar ekkert sérstaklega að minni kennslu en ég var nokkuð
viss um að flest mætti ég taka til mín, enda gat ég sums staðar lesið það út úr svör-
um nemenda. Svörin vöktu mig mjög til umhugsunar um kennsluaðferðir mínar og
sömuleiðis um sjálfa mig sem kennara. Ég sýndi nemendum svörin og hvatti þá til
umræðu um þau. Það gekk ágætlega og mér gafst færi á að skýra út fyrir þeim hvers
vegna ég legði jafn mikla áherslu á virkni þeirra, t.d. í hópvinnu, og raun bar vitni. Ég
leitaðist einnig við að fjölga umræðutímum, þó að oft væri illt að koma þeim við þegar
nemendur reyndust ólesnir og jafnvel áhugalausir. Þá fann ég sömuleiðis fyrir eigin
kunnáttuleysi í að virkja nemendur til umræðna og halda þeim uppi. Þegar vel gekk
var hins vegar fátt ánægjulegra en að eiga samræður við nemendur og heyra skoðanir
þeirra og viðhorf. Þessu samfara fór ég einnig að nota hefðbundnar kennsluaðferðir
meira, samkvæmt vilja nemenda.
Mig þyrsti í meiri gagnrýni frá nemendum mínum og hélt því áfram að leita álits
þeirra með þessum markvissa hætti, í formi spurninga. Þann 12. janúar lagði ég spurn-