Morgunblaðið - 27.01.2009, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - 27.01.2009, Blaðsíða 15
15 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 27. JANÚAR 2009 FRÉTTASKÝRING Eftir Unu Sighvatsdóttur una@mbl.is VIKAN sem leið frá fyrsta þingfundi nýs árs til mánu- dagsins 26. janúar þegar ríkisstjórnin féll er einhver sú viðburðaríkasta í íslensku stjórnmálalífi. Búsáhaldabylt- ingin svokallaða, mótmælin sem reyndust verða þau mestu á Íslandi frá 1949, var boðuð með hógværum hætti af samtökunum Röddum fólksins og ráðgert að þing- fundur yrði truflaður í um klukkustund. Raunin varð önnur. Ellefu klukkustundum eftir að þau hófust voru enn um 2.000 manns í hópnum þegar Oslóartréð var fellt til jarðar og kveikt í því á miðjum Austurvelli. Forsætisráðherra kallaði eftir því að ríkisstjórnin fengi vinnufrið í þingsal, þar sem ræða átti m.a. sölu áfengis í matvöruverslunum og þótti mörgum umræðu- efnið til vitnis um veruleikafirringu innan veggja Alþing- is. Ljóst var að mótmælendur hugðust engan vinnufrið veita fyrr en breytingar yrðu gerðar. Daginn eftir héldu mótmælin áfram og fyrirhuguðum þingfundi var aflýst. Óumflýjanlegt að yfirvöld brygðust við Greinilegt var að mótmæli almennings, sem sumir höfðu spáð að myndu deyja drottni sínum fyrir áramót, höfðu þvert á móti tvíeflst. Samstöðumótmæli voru hald- in á Akureyri og Egilsstöðum þar sem slagorðin „vanhæf ríkisstjórn“ fengu að hljóma undir taktföstum slætti potta og panna líkt og í Reykjavík. Heyra mátti að hávær andstaða almennings var farin að hreyfa við þingmönn- um og þótti flestum ljóst að ríkisstjórninni væri ekki stætt á því að halda lengi áfram í óbreyttri mynd ef mót- mælin héldu áfram af sama krafti. Í Reykjavík færðist aukin harka í mótmælin á mið- vikudag. Um miðjan dag veittist um þúsund manna hóp- ur að ráðherrabíl Geirs H. Haarde með fúkyrðum. Um kvöldið var mótmælt við Þjóðleikhúsið þar sem fjöl- mennur fundur Samfylkingarfélagsins í Reykjavík ályktaði að fara skyldi fram á stjórnarslit og kosningar. Sama hljóð var ekki að heyra úr röðum sjálfstæð- ismanna sem vildu áframhaldandi samstarf og lýstu óánægju með „ístöðuleysi“ samfylkingarfólks. Stjórn- arsamstarfið hékk augljóslega á bláþræði. Um nóttina sauð upp úr mótmælunum og óeirðir brutust út. Lög- reglan sá sig knúna til að beita táragasi í fyrsta skipti í hálfa öld. Í kjölfarið sljákkaði nokkuð í mótmælunum en þau héldu samt áfram, þriðja daginn í röð. Kannanir sýndu að ólíkt því sem margir höfðu haldið fram var mikill meirihluti þjóðarinnar, tveir af hverjum þremur, hlynntur mótmælunum en andsnúinn ofbeldi. Niðurstöður annarrar skoðanakönnunar gáfu sterklega til kynna að landsmenn vildu sjá ný andlit: fylgi Fram- sóknarflokks hafði stokkið úr 5% í 17% eftir að Sigmund- ur Davíð Gunnlaugsson var kosinn formaður. Í sömu könnun endurspeglaðist gríðarleg óánægja þjóðarinnar, því aðeins fjórðungur sagðist styðja ríkisstjórnina. Mótmælendur hrósa sigri Þegar boðað var til blaðamannafundar í Valhöll um hádegisbil á föstudegi áttu flestir von á því að sjálfstæð- ismenn sæju sér nú ekki annað fært en að samþykkja kosningar. Það reyndist rétt, en á óvæntum forsendum því forsætisráðherra tilkynnti að hann hefði greinst með illkynja krabbamein og hygðist því hætta sem formaður. Margir bjuggust við að þar með myndi mótmælunum linna enda kröfunni um kosningar verið náð. Fregnin af veikindum Geirs snerti líka þjóðina sem brást ókvæða við harkalegum ummælum Harðar Torfasonar, þegar hann leiddi líkum að því að um „pólitískar reyksprengj- ur“ væri að ræða. En ekkert virtist hafa áhrif á staðfestu mótmælenda. Sextándi mótmælafundurinn á Austurvelli varð sá fjölmennasti frá upphafi og 6-7000 manns kröfð- ust afsagnar þeirra sem ábyrgðina bæru. Næsta dag varð fyrsti ráðherrann, Björgvin G. Sig- urðsson, við þeirri kröfu ásamt Jónasi Fr. Jónssyni, for- stjóra Fjármálaeftirlitsins. Deilt er um hvatirnar að baki ákvörðun Björgvins, en ljóst er að þar með fór boltinn að rúlla. Afsögn hans setti aukinn þrýsting á formenn rík- isstjórnarflokkanna sem funduðu stíft í kjölfarið. Nið- urstaðan var stjórnarslitin sem tilkynnt var um í gær. Öllum má vera ljóst að beint samhengi er milli stjórn- arslitanna og mótmæla almennings undanfarna fjóra mánuði sem náðu hámarki í liðinni viku. Aukinn þrýst- ingur frá óánægðum almenningi hefur kallað fram breyt- ingar á stjórnarfari landsins en enn er óvíst hvað nú tek- ur við. Oft er sagt að byltingin éti börnin sín, ekki er útséð um það. Tíminn leiðir í ljós hvort mótmælendur búsáhaldabyltingarinnar hafa gengið til góðs. Aðdrag- andi sögu- legra slita Morgunblaðið/Ómar Þriðjudagur Kl.13 Mótmælendur lemja á Alþingi með pottum og pönnum yfir fyrsta þingfundi ársins 2009. Morgunblaðið/Júlíus Þriðjudagur kl.24 Mikill mannfjöldi kveikir elda og mótmælir fram á nótt. Oslóartréð brennur á Austurvelli Morgunblaðið/RAX Miðvikudagur kl. 14 Um þúsund mótmælendur veitast að Geir Haarde þar sem hann ekur frá stjórnarráðinu. Morgunblaðið/Júlíus Aðfaranótt fimmtudags Lögreglan beitir táragasi gegn mótmælendum í fyrsta skipti í 50 ár. Morgunblaðið/Árni Sæberg Laugardagur kl. 15 Fjölmennustu mótmælin til þessa á Austurvelli, um 6-7.000 manns láta í sér heyra. Morgunblaðið/Golli Sunnudagur kl.10:30 Björgvin G. Sigurðsson segir af sér, fimmti ráðherrann sem gerir það frá fullveldi 1918. Morgunblaðið/RAX Mánudagur kl.16 Geir H. Haarde gengur á fund for- seta á Bessastöðum til að tilkynna um stjórnarslit. Búsáhaldabyltingin ber ávöxt Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var stundum nefnd Þingvall- astjórnin þar sem þar var stefnuyfirlýsing hennar undirrituð. Ríkisstjórnin byrj- aði með gott bú, að minnsta kosti á yfirborðinu og stærri meirihluta þingheims en gerist og gengur. Á öðru ári lenti hún í meiri ólgusjó en gerist og gengur með víðtækari mótmælum almennings en nokkru sinni og í dag kom í ljós að mótlætið bar hana ofurliði. Hér á eftir verður stiklað á stóru í sögu þessarar ríkisstjórnar. 23. maí 2007 – Geir kynnti nýja ríkisstjórn fyrir forsetanum Geir H. Haarde, forsætisráðherra, gekk á fund Ólafs Ragnars Grímssonar, for- seta Íslands, í morgun og gerði honum grein fyrir myndun nýrrar ríkisstjórnar. Áformað er að kalla Alþingi saman í næstu viku. Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylking- arinnar, undirrituðu stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar á Þingvöllum í dag. 18. mars 2008 – Engar aðgerðir vegna gengisfalls krónunnar Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði eftir ríkisstjórnarfund, að ástæður gengisfalls krónunnar það sem af er vikunni mætti rekja til vandræða sem bandaríski fjárfestingarbankinn Bear Stearns lenti í um helgina. Ríkisstjórnin áformaði ekki að grípa til sérstakra aðgerða nú. Geir tók fram, að menn hefðu lengi talið að gengi krónunnar væri of hátt og búast mætti við lækkun. 26. maí 2008 – Heimild til að taka 500 milljarða kr. lán Ríkissjóður fær heimild til að taka allt að 500 milljarða króna erlent lán á þessu ári til að auka gjaldeyrisforða Seðlabankans, samkvæmt frumvarpi, sem fjármálaráðherra leggur fram á Alþingi. 29. september – Ingibjörg Sólrún gekkst undir aðgerð Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra gekkst undir aðgerð á Mount Sinai sjúkrahúsinu í New York í dag. Aðgerðin var gerð vegna veikinda sem upp komu fyrir réttri viku vegna meins í fjórða heilavökvahólfi. 30. september – Glitnir yfirtekinn Eign hluthafa Glitnis í bankanum hefur rýrnað um 88% miðað við kaupgengi ríkisins á sínum hlut í bankanum. Ríkið setur inn í bankann nýtt hlutafé að verðmæti um 85 milljarða króna og fær fyrir það 75% hlut í Glitni. Þýðir þetta að kaupgengið er 1,91, en á föstudag var gengi hlutabréfa Glitnis 15,7. 6. október – Neyðarlög sett Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði í sjónvarpsávarpi, að staða íslensku bankanna væri mjög alvarleg og hefði versnað til muna í morgun. Geir mun mæla fyrir frumvarpi á Alþingi um mjög víðtækar heimildir til Fjármálaeftirlits- ins til að grípa inn í fjármálastarfsemi og endurskipuleggja hana. 8. október – Rætt við Breta um Icesave Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði á blaðamannafundi í Iðnó í dag, að ýmis samtöl hefðu átt sér stað í dag milli breskra og íslenskra embættismanna og einnig ráðherra vegna Icesave-innlánsreikninga Landsbankans í Bretlandi 9. október 2008 – Útibú Kaupþings opin Útibú Kaupþings, þjónustuver, hraðbankar og netbankar eru opnir í dag en eins og fram hefur komið tilkynnti Fjármálaeftirlitið í nótt að það hefði tekið yfir rekstur Kaupþings. Segir í tilkynningu FME að þetta sé gert til að tryggja full- nægjandi innanlandsstarfsemi bankans og stöðugleika íslensks fjármálakerfis. 11. október 2007 – Bretar knésettu stærsta fyrirtæki Íslands Geir H. Haarde forsætisráðherra var harðorður í garð breskra stjórnvalda á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag. Sagði hann að bresk stjórnvöld hefðu með valdníðslu knésett stærsta fyrirtæki Íslendinga í vikunni og Ísland hlytu að skoða það í fullri alvöru að leita réttar síns vegna þessa. 22. október – Sátt um IMF-lán við Seðlabanka Bankastjórn Seðlabankans hefur fallist á að taka lán hjá Alþjóðagjaldeyr- issjóðnum [IMF]. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins var bankastjórn Seðlabankans klofin í afstöðu sinni til lántöku hjá IMF en er það ekki lengur. Ekki þurfti sérstakt samþykki Seðlabankans fyrir láni en ríkisstjórnin vildi vinna lántökuna í fullri sátt við bankastjórnina. 5. desember – Lánshæfi Íslands hrynur „Þetta þýðir að ríkið eða Seðlabankinn eigi mjög erfitt með að koma bönk- unum aftur til hjálpar,“ segir Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hag- fræðistofnunar. Alþjóðlega matsfyrirtækið Moody’s lækkaði lánshæfiseinkunn ríkisins fyrir inn- lendar og erlendar skuldbindingar um marga flokka í gær. 5. janúar 2009 – Taugastríð Geirs og Ingibjargar Eftir að Geir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins vakti máls á því að þjóð- in fengi að kjósa um hvort farið yrði í aðildarviðræður við Evrópusambandið sló formaður Samfylkingarinnar því fram að jafngott væri þá að efna til alþing- iskosninga í vor. Gunnar Helgi Kristinsson segir greinilegt taugastríð í gangi milli forystu flokkanna sem benti til þess að stjórnarsamstarfið gengi ekki vel. 21. janúar 2009 – Mótmælin halda áfram Í allt gærkvöld dreif fólk að Alþingishúsinu þar sem mótmælum var haldið áfram til klukkan að ganga fjögur í nótt. Allt lauslegt brann glatt á heljarmiklu báli á gangstéttinni fyrir framan aðaldyrnar og púðurkerlingar sprungu. Jóla- tréð á Austurvelli fór á bálið um miðnætti og endaði þar sína ævidaga. 21. janúar 2009 – Veist að forsætisráðherra Þunginn í mótmælunum náði hámarki um miðjan dag í gær þegar stór hópur fólks, um þúsund manns, safnaðist saman fyrir framan stjórnarráðið og eftir að Geir H. Haarde forsætisráðherra settist upp í bíl sinn gerðu mótmælendur harða hríð að ráðherra, grýttu bíl hans og hrópuðu að honum. 23. janúar 2009 – Geir greinist með krabbamein – kosið í maí Geir H. Haarde forsætisráðherra ætlar ekki að sækjast eftir endurkjöri sem formaður Sjálfstæðisflokksins en hann greindist nýverið með illkynja æxli í vél- inda. Sjálfstæðisflokkurinn vill að boðað verði til kosninga þann 9. maí næst- komandi. Landsfundi flokksins verður frestað þar til í lok mars. 26. janúar 2009 – Ríkisstjórnin fallin Geir H. Haarde forsætisráðherra mun ganga á fund Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, á Bessastöðum klukkan 16 og biðjast lausnar fyrir sig og ráðu- neyti sitt. Geir skýrði frá því í Alþingishúsinu eftir fund með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra að ákveðið hefði verið að slíta stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar. bvs@mbl.is Þingvallastjórnin í þrot BAKSVIÐ Meira: á mbl.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.