Morgunblaðið - 27.01.2009, Blaðsíða 13

Morgunblaðið - 27.01.2009, Blaðsíða 13
13 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 27. JANÚAR 2009 „ÞVÍ miður hefur það nú gerst sem ég óttaðist allan tímann frá því að bankahrunið varð í byrjun október að stjórnarkreppa mundi bætast ofan á efnahagskrepp- una,“ sagði Geir H. Haarde á Alþingi í gær og kallaði eftir ábyrgð þingmanna þannig að björgunaraðgerðirnar færu ekki út um þúfur. „Rétt er að gera þing- heimi grein fyrir því að ekki er um málefnalegan ágreining að ræða milli flokkanna heldur hefur krafa Samfylk- ingarinnar um að taka við forsætisráðu- neytinu valdið trúnaðarbresti sem ekki er yfirstíganlegur. Öllum má vera ljóst að krafa um að stjórnarforustan flytjist á milli flokka í ríkisstjórn getur ekki leitt til annars en stjórnarslita,“ sagði Geir. Geir H. Haarde „ÉG tel að Samfylk- ingin hafi sýnt mik- ið langlundargeð við þessar að- stæður. Ýmislegt sem varðar breyt- ingar í fjármálakerf- inu okkar, sem lýtur ekki síst að Seðla- bankanum og því að endurreisa traust á þessari æðstu stofnun efnahagsmála í landinu, hefur mistekist. Við viljum að á því verði breyting eigi síðar en strax,“ sagði Ingi- björg Sólrún Gísladóttir, formaður Sam- fylkingarinnar, á Alþingi og hafnaði út- skýringum Geirs á því hvers vegna ríkisstjórnin féll. Samfylkingin hefði boð- ið fram krafta Jóhönnu Sigurðardóttur í að leiða ríkisstjórnina þar sem hún hefði hvað mestan trúverðugleika. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir „ÞAÐ eru stór tíð- indi sem gerst hafa hér í dag en við framsóknarmenn fögnum því að rík- isstjórnin hafi loks- ins axlað ábyrgð. Um leið segjum við: Þótt fyrr hefði ver- ið. Í hugum okkar framsóknarmanna hefur það blasað við að hér væri ekki bara bankakreppa og efnahagskreppa heldur einnig stjórn- arkreppa. Ríkisstjórnin hefur í rauninni aldrei verið í stakk búin til þess að taka á þeim vanda sem blasir við íslensku þjóð- inni,“ sagði Höskuldur Þór Þórhallsson, þingmaður Framsóknar og áréttaði til- boð flokksins um að verja minni- hlutastjórn Samfylkingar og VG falli. Höskuldur Þór Þórhallsson „RÍKISSTJÓRN sem í raun hefur verið óstarfhæf um margra vikna ef ekki mánaða skeið hefur orðið að játa sig sigraða. Þessi stjórnarslit fara nokkuð harkalega fram,“ sagði Stein- grímur J. Sigfús- son, formaður VG, á Alþingi í gær og furðaði sig á hörðum orðum fráfarandi forystumanna. „Við er- um tilbúin til að axla ábyrgð og leggja okkar af mörkum. Við útilokum engan kost fyrir fram og við göngum ekki til slíkra viðræðna með fyrirframskilyrði, allra síst um menn eða verkaskiptingu því að það er málefnið og verkefnið sem skiptir öllu hér,“ áréttaði hann. Steingrímur J. Sigfússon HVERJIR SÖGÐU HVAÐ „RÍKISSTJÓRNINNI hefur með engum hætti tekist að höndla þau vanda- mál sem nú blasa við þjóðinni, því miður. Ekki verður undan því vikist að þingheimur allur komi að því að reyna að sigla mál- um í höfn,“ sagði Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjáls- lyndra, á Alþingi í gær og þótti dapurlegt að ríkisstjórnarsamstarfið endaði með því að menn stæðu upp og færu strax að hnýta harkalega hver í annan. Vonaðist hann til þess að það tækist að mynda starfhæfa þjóðstjórn. Guðjón A. Kristjánsson FRÉTTASKÝRING Eftir Höllu Gunnarsdóttur halla@mbl.is ALÞINGISHÚSIÐ varð enn einu sinni að miðstöð fjölmiðlamanna í gær. Þingmenn sem mættu til vinnu gátu baðað sig í skæru ljósi myndavéla og væru þeir líklegir til að hafa áhrif á framvindu mála fengu þeir fljótt upptökutæki og hljóðnema að munninum. Enginn vildi þó gerast spámaður um hver niðurstaða af þingflokksfundum stjórnarflokkanna yrði en þeir hóf- ust kl. 10. Nokkrir mótmælendur tóku sér stöðu fyrir utan Alþingi. Einn starfsmanna þingsins hvíslaði að blaðamanni að hann væri orðinn dálítið þreyttur á þessum tromm- um. Kannski ekki að furða. Dag- arnir í taktinum orðnir margir. Fjölmiðlamenn voru beðnir að halda sig á neðri hæð nýbyggingar Alþingishússins. Fyrir vikið var þétt staðið fyrir utan þingflokks- herbergi Samfylkingarinnar en sjálfstæðismenn eru í gömlu bygg- ingunni og gátu því brugðið sér af fundi án þess að fá yfir sig spurn- ingaflóð. Síðasti fundur forystufólks Að þingflokksfundum loknum fór Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á fund Geirs H. Haarde. Það varð þeirra síðasti fundur sem forystumenn ríkisstjórnarinnar. Þaðan gengu þau út með þunga brún en kvödd- ust að eigin sögn með kossi, eins og þau heilsuðust þegar samstarfið hófst snemmsumars 2007. Geir H. Haarde greindi fjöl- miðlum frá því að ríkisstjórnarsam- starfinu væri slitið. Ástæðan væri sundurlyndi innan Samfylking- arinnar, sem væri í tætlum og hefði ekki haft þrek til að ljúka sam- starfinu. Annað var hins vegar upp á ten- ingnum þegar Ingibjörg Sólrún tal- aði við blaðamenn. Sagðist hún hafa gert Geir tilboð um að Jó- hanna Sigurðardóttir tæki við verk- stjórn í ríkisstjórninni en að hún sjálf og Geir myndu stíga til hliðar. Geir hefði hafnað því og þótti Ingi- björgu það hrokafull afstaða hjá Sjálfstæðisflokknum, sem bæri meginábyrgð á bankahruninu. Þó að Geir og Ingibjörg legðu bæði áherslu á að samstarf þeirra hefði alltaf verið gott voru sam- starfsslitin sannarlega ekki sárs- aukalaus. Pillur gengu á milli flokkanna tveggja, sem vísuðu ábyrgðinni hvor á annan. Þrátt fyrir það var létt yfir þing- mönnum beggja flokkanna, eins og þeir væru lausir úr vondu hjóna- bandi. Nú gátu þeir loks sagt allt sem þeir vildu. Og það gerðu þeir. Ný hlutverk í hreinu húsi Áðurboðaður þingfundur hófst kl. 15. Geir H. Haarde tilkynnti formlega um stjórnarslitin og hann og Ingibjörg Sólrún endurtóku sína útgáfu af því hvers vegna til þeirra kom. Fulltrúar annarra flokka sögðu líka sitt og síðan var þessum stutta fundi slitið. Geir hélt á Bessastaði til að segja forsetanum tíðindin og þingmenn tíndust smám saman úr húsi. Fyrir utan magnaðist trommu- slátturinn að nýju. Þar var kominn saman hópur fólks í rigningunni til að fagna og að venju kipptu margir einhverju tilfallandi úr eldhús- skápnum með. En varlega var fagnað, enda óljóst hvert fram- haldið yrði. Þegar trommuveislunni lauk var þrifum á utanverðu þinghúsinu haldið áfram. Eggin eru horfin og málningarslettur hverfa smám saman. Þingmenn mæta næst til vinnu í nýjum hlutverkum. Húsið verður hreint. Morgunblaðið/Golli Og hvað? Spurningarnar dundu á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í gær en hún og Geir H. Haarde gáfu mjög ólíkar skýringar á því hvers vegna ríkis- stjórnin liðaðist í sundur. Ingibjörg sagðist myndu draga sig í hlé en Jóhanna Sigurðardóttir er forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar. Hófst með kossi og lauk með kossi Þingmönnum beggja flokka virtist létt þegar stjórnarsamstarfinu var slitið Morgunblaðið/Kristinn 421. ræðan Geir H. Haarde flutti fyrst ræðu á Alþingi sem forsætisráð- herra 3. október 2006. Í gær steig hann í pontu í 421. skiptið síðan þá og um leið að öllum líkindum í síðasta sinn. Morgunblaðið/Golli Knús Formaður og varaformaður fjárlaganefndar, Gunnar Svavarsson og Kristján Þór Júlíusson, féllust í faðma í gær en þeir hafa starfað náið saman frá því að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks tók við völdum. Morgunblaðið/Golli Næstu skref Nú mæðir mikið á leiðtogum stjórnarandstöðunnar en allar líkur benda til þess að mynduð verði minnihlutastjórn Samfylkingar og VG með stuðningi Framsóknar og Frjálslyndra.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.