Morgunblaðið - 26.08.2009, Blaðsíða 24

Morgunblaðið - 26.08.2009, Blaðsíða 24
FRÉTT í Morg- unblaðinu 31. júlí sl. er tilefni þessara skrifa. Þar er fullyrt að 101 hótel sé yfirveðsett. Þessi fullyrðing er hæpin. Byggt er á mati Vig- gós Sigursteinssonar fasteignasala, sem slær þann varnagla, að matið sé reist á „töl- fræði um fasteignina hjá Fast- eignaskrá og aðstæðum á fast- eignamarkaði í dag“, auk þess sem um „gróft áætlað“ mat sé að ræða. Hér er gert ráð fyrir að átt sé við skráningu fasteignarinnar í Lands- skrá fasteigna, sem Fasteignaskrá Íslands annast og varðveitir. Í henni er mannvirkið talið 2.066,2 m². Miðað við mat Viggós er fermetraverð í húsinu á bilinu 315- 363 þús. kr. Ekki verður séð í fljótu bragði annað en að Viggó sé að vitna í þessa einföldu aðferð, og meti fasteignina eins og um skrif- stofuhúsnæði í betri kantinum sé að ræða. Það er einföldun og getur verið afar villandi. Hér verður ekki haldið uppi vörn- um fyrir aðila málsins, aðeins bent á að svo virðist sem ekki hafi verið faglega staðið að mati á verðmæti eignarinnar, en það getur skipt verulegu máli. Meginvillan – mat hótels án rekstrar Tekið er fram í greininni að matið eigi við fasteignina án rekstrar. Lykilástæða þessara skrifa liggur í þessari yfirlýsingu. Þar er meg- inregla við mat á hótelum, að rekst- ur og fasteign eru metin sem heild. Ástæðan er einföld. Hótelbyggingar eru afar sérhæfð hús. Það stafar m.a. af fjölda baðherbergja, veit- ingaaðstöðu, ráðstefnumöguleikum, herbergisþjónustu og fleira mætti telja. Þess vegna verður hótel ekki metið til verðs, né sem veðandlag, án þess að rekstrarreikningar liggi fyrir, sundurliðaðir eftir sölu á gist- ingu, veitingum og ráðstefnuað- stöðu auk annarrar þjónustu. Við mat á hótelum er byggt á arðsemi, en einnig er afskrifuðu kostnaðarmati beitt. Mat á hóteli er því alls ekki einföld ágiskun, heldur flókin að- ferðafræði og mat á fjölmörgum und- irþáttum áður en heildarniðurstaða ligg- ur fyrir. Undirritaður mat fyrir nokkrum árum Hilton-hótelið fyrir er- lendan banka. Þrátt fyrir að rekstraraðili hótelsins ætti ekkert í húsinu og leigði það gegn ákveðnu umsömdu leiguverði var gerð krafa um að mat færi fram eftir hefð- bundinni leið, eins og lýst hefur ver- ið hér að framan. Hvað kostar 101 hótel? Hér verður ekki farið út í að meta hótelið, enda er það ekki til- gangur þessarar greinar, heldur að vara við fljótfærnislegum vinnu- brögðum, sem eru til þess fallin að valda fjárhagslegu tjóni. Þó skal bent á, að einn af grunnþáttum í mati hótels er að skoða afkastaget- una, þ.e. fjölda herbergja og gesta sem hægt er það þjóna í veit- ingasölum og á ráðstefnum. Fer- metraverð er því kannski sísta leið- in til að komast að niðurstöðu um verðmæti hótels. Til gamans má geta þess að tilboði sem var gert í Hótel Sögu í febrúar 2006 upp á 4,3 milljarða króna var hafnað (sjá frétt í Morgunblaðinu 4. febrúar 2006). Mat á verðmæti sérhæfðra fasteigna Í framhaldi af þessu verður ekki komist hjá að minnast á matsstörf almennt og stöðu þeirra á Íslandi. Það eru einungis örfáir menn á Ís- landi, sem eru til þess hæfir að ann- ast flókin og viðamikil markaðsmöt sérhæfðra eigna. Frumkvöðull á þessi sviði var Stefán Ingólfsson verkfræðingur, en hann lést langt um aldur fram árið 2004. Mat eignum bankanna Því vaknar spurning um hvernig sé staðið að mötum á sérhæfðum fasteignum bankanna í yfirstand- andi uppgjöri. Hverjir meta? Hver er reynsla þeirra og burðir til að meta verðmæti fasteigna? Hvernig er metið? Eru mötin rökstudd? Eru mötin faglega unnin? Það væri gaman að fá svör við þessum spurn- ingum. Fyrir skömmu var viðtal við Finn Sveinbjörnsson, forstjóra nýja Kaupþings, um þá nýjung að af- skrifa eftirstöðvar lána niður í 110% af verðmæti veðsettra eigna. Þegar hann var spurður að því við hvaða verðmæti ætti að miða svaraði hann með spurningu: „Er fasteignamatið ekki nokkuð rétt?“ Þetta svar lýsir ekki mikilli þekkingu eða reynslu af matsstörfum. Matsstörf eru sérhæfð og vandasöm Það er nauðsynlegt að fjalla um mat fasteigna af varkárni, því verð- mæti fasteigna er gjarnan afar stór hluti af eignasafni hvers og eins. Oft er um háar fjárhæðir að tefla og öll óþarfa ónákvæmni og frávik geta hlaupið á tugum og hundruðum milljóna. Þessi varkárni á líka við um fréttaflutning af verðmæti fast- eigna. Við mat á markaðsverði fasteigna ber ávallt að standa faglega að verki. Eitt grundvallaratriðið er að matsmaður sé sjálfstæður og óháð- ur og að engin hagsmunatengsl geti haft áhrif á niðurstöðu mats. Í alþjóðlegum reikningsskilastaðli (IAS – staðall 16) yfir varanlega rekstrarfjármuni er gert ráð fyrir mati óháðra matsmanna á þeim, með reglulegu millibili, í því skyni að tryggja trúverðugleika verðmæt- is fyrirtækja. Er hugsanlegt að fall okkar í hruninu hefði orðið minna en raun ber vitni ef matsverkefnum hefði verið sinnt sem skyldi áður en efna- hagskerfið tók að riða til falls? Eftir Magnús Axelsson »Mat á hóteli er því alls ekki einföld ágiskun, heldur flókin aðferðafræði og mat á fjölmörgum undirþátt- um áður en heildarnið- urstaða liggur fyrir. Magnús Axelsson Höfundur er fasteignasali og mats- maður sem hefur sérhæft sig í verð- mati fasteigna undanfarinn hálfan annan áratug. Yfirveðsetning 101 hótels LAUGARDAGINN 22. ágúst birtist í Morgunblaðinu grein eftir Kolbrúnu Hall- dórsdóttur sem nefn- ist „Stjórnlaus vega- gerð á hálendi Íslands“. Nánar er síðan fjallað um þetta mál í Morgunblaðinu 24. ágúst, bæði í frétt og leiðara. Í grein sinni gerir Kolbrún Halldórsdóttir alvarlegar athugasemdir við slóða sem birtist í „tölvustýrðum korta- grunni“, eins og hún kýs að nefna kort fyrir gps-tæki sem framleidd eru af Samsýn ehf. Sem ábyrgð- araðili þessarar kortaútgáfu er mér rétt og skylt að blanda mér í þessa umræðu og leiðrétta nokkur atriði í grein Kolbrúnar og umfjöllun Morgunblaðsins. Kortagerð Samsýnar fyrir gps- leiðsögutæki og aðra miðla er metnaðarfullt verkefni, sem bæði er tímafrekt og kostnaðarsamt. Ákveðið var að ráðast í þetta verk- efni fyrir nokkrum árum vegna þess að þörfin fyrir einn heild- stæðan vegagrunn af öllu Ísland var mikil. Kortin sem nú eru í notkun hjá flestum notendum Garmin gps-tækja á Íslandi eru afrakstur þessarar vinnu og hafa kortin fengið mjög góðar viðtökur og þótt vera ákveðin bylting í ferðamennsku á Ís- landi. Við gerð kort- anna var haft að leið- arljósi að afla bestu fáanlegra upplýsinga á hverju svæði fyrir sig og er t.a.m. stór hluti kortanna keyptur af Landmælingum Íslands. Aðrir hlutar kortanna koma úr gagnasafni Samsýnar, frá sveit- arfélögum og eins hefur ferða- klúbburinn 4X4 lagt inn hluta af sínu slóðasafni. Þess má geta að ferðaklúbburinn 4X4 vinnur að kortlagningu slóða á hálendi Ís- lands í samvinnu við Landmæl- ingar Íslands og umhverfisráðu- neytið. Yfirlýsing fyrrverandi umhverf- isráðherra um að „… í krafti þessa frelsis (innskot greinarhöfundar: markaðsvæðingar kortagerðar) fari sjálfskipaðir slóðagerðarmenn um landið og merki inn á sína eigin kortagrunna slóða … og selji hverj- um sem hafa vill aðgang að upplýs- ingunum“ á því ekki við um korta- gerð Samsýnar. Slóðinn, sem var kveikjan að grein fyrrverandi um- hverfisráðherra, er vissulega sýnd- ur á gps-kortum Samsýnar og er ástæðan fyrir því einföld. Slóðinn er þarna og hefur verið í áratugi. Að birta hann ekki væri fölsun á staðreyndum. Hlutverk Samsýnar er fyrst og fremst að búa til rétt kort en ekki að ákveða hvar má aka og hvar ekki. Við höfum átt ágætt samstarf við Landmælingar Íslands við gerð þessara korta og viljum halda því áfram. Afstaða forstjóra Landmæl- inga Íslands, í frétt Morgunblaðs- ins í dag, til einkarekinnar korta- gerðar kemur því mjög á óvart. Þess má síðan geta að umræddur slóði er sýndur á kortum Land- mælinga Íslands í mælikvarða 1:100.000 blað 66 Holtamanna- afréttur. Eftir Kristin Guð- mundsson » Sem ábyrgðaraðili þessarar kortaút- gáfu er mér rétt og skylt að blanda mér í þessa umræðu og leið- rétta nokkur atriði í grein Kolbrúnar og um- fjöllun Morgunblaðsins. Kristinn Guðmundsson Höfundur er framkvæmdastjóri Sam- sýnar ehf. Slóðar og kort af hálendi Íslands 24 UmræðanBRÉF TIL BLAÐSINS MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 26. ÁGÚST 2009 FYRIR réttum tveimur árum var skrifað undir samstarfssamning Akureyrarbæjar og Becromal og raforkusamning milli Landsvirkj- unar og sama fyrirtækis um orku- öflun og uppbyggingu aflþynnu- verksmiðju í Krossanesi. Eftir þann góða dag hefur verið unnið ötullega að framkvæmdinni og að baki er gríðarleg fjárfesting í hús- næði, línulögnum og tækjum upp á röska 10 milljarða króna. Hér hafa bæði verið erlendir verktakar og fjölmargir eyfirskir iðnaðarmenn að störfum við bygginguna og uppsetningu vélasamstæðna. Þessa dagana er verið að ljúka lokafrágangi við húsnæðið og setja fyrstu vélasamstæðurnar í gang. Þegar verksmiðjan verður komin í full afköst mun hún skapa um 90 störf og framleiða aflþynnur í raf- þétta sem er að finna í öllum raf- eindatækjum. Hér er verið að nýta okkar grænu orku í nær mengunarlausa framleiðslu og framleiða eftirsótta vöru sem mun skila liðlega 14 milljörðum króna í útflutningsverðmæti á ári. Hráefn- ið í aflþynnurnar er framleitt á Ítalíu en vonandi verður hægt að framleiða þynnurnar í álverum Ís- lands þegar fram líða stundir Undirbúningur að verkefninu hófst árið 2003 og var fyrst og fremst unninn hér heima í héraði af Atvinnuþróunarfélaginu og Ak- ureyrarbæ og ég vil nota tækifær- ið og þakka forsvarsmönnum AFE fyrir þrautseigj- una. Bæjaryf- irvöld fögnuðu áhuga ítalska fyrirtækisins á að taka þátt í framtíðarupp- byggingu Ak- ureyrar og að skapa hér ný störf og nýja þekkingu í hátækniiðnaði og bæj- arstjórn ákvað að styðja við upp- bygginguna með því að styrkja þjálfun starfsmanna í samvinnu við hinn öfluga Verkmenntaskóla á Akureyri. Frá upphafi ríkti einhugur inn- an bæjarstjórnar um þessa hug- mynd og henni var tekið fagnandi enda svo sannarlega mikilvægur þáttur í atvinnuuppbyggingu svæðisins og fellur vel að grunn- gerðinni. Þrátt fyrir efnahagslegar hremmingar og hrun hefur tekist að ljúka þessari miklu framkvæmd á aðeins tveimur árum og það er afrek út af fyrir sig. Nú verður sett í gang. Fyrir hönd bæj- arstjórnar Akureyrar býð ég Becromal velkomið í hóp eyfirskra fyrirtækja, þekking þeirra, reynsla og sambönd eru okkur mikilvæg og starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins óska ég allra heilla. SIGRÚN BJÖRK JAKOBSDÓTTIR, forseti bæjarstjórnar Akureyrar. Sett í gang Frá Sigrúnu Björk Jakobsdóttur: Sigrún Björk Jakobsdóttir UM HELGINA veiktist maður svo heiftarlega í fjallgöngu að þyrla Landhelgisgæslunnar var ræst til þess að sækja hann. Áður en hún hóf sig til flugs var maðurinn látinn. Þá var slökkt á vélinni. Gæslan hafði ekki efni á að sækja hann. Af þessu tilefni sendi ég þér orð, dómsmálaráðherra, því að það ert þú sem berð ábyrgð, þú sem hefur yfir Gæslunni að segja, þú sem sit- ur á stóli og segir fátt að vanda. Fyrir réttum fimm vikum spurði ég þig nokkurra spurninga í gegn- um Morgunblaðið. Ennþá hefur þú ekki séð ástæðu til þess að svara þeim svo ég viti. Það er nöturlegt að finna sig knú- inn til þess að vekja upp spurning- arnar um fjárskort Gæslunnar þeg- ar maður deyr á fjalli. Eigi að síður geri ég það svo að við sem enn drögum andann vitum hvernig farið er með peningana okkar, hver for- gangsröðin er á tímum neyðar- innar. Spurt var og spurt er: Hverjir fóru til Suður-Ameríku á vegum hins opinbera fyrr á þessu ári, allir með taldir, til þess að hleypa nýju varðskipi af stokkunum? Hvaða nauðsyn bar til að viðkomandi héldu í ferðina? Hvað kostaði ferðin og uppihaldið og hvað var hverjum og einum greitt í dagpeninga frá dómsmálaráðuneytinu, Landhelg- isgæslunni og öðrum opinber- um aðilum? Hvernig reiknast vinnutap þeirra hér heima? Ef ástæðan fyrir þögn þinni er vinnufeimni ætla ég að bæta við spurningum svo að þú getir svarað til um fleiri efni í sömu törn þegar þú hefur þig til verka. Þær snúa líka að út- gjöldum þíns ráðuneytis og eru til komnar vegna þess fáránlega frum- varps um breytingar á kosninga- lögum sem þú lagðir fram á alþingi þrátt fyrir vinsamlegar ábendingar um að gera það ekki. Spurt var og er: Vill ráðherra vera svo vænn að upplýsa hve mikið ráðuneyti, alþingi og aðrir aðilar, ef einhverjir eru, hafa greitt fyrir vinnu við gerð frumvarpsins, til hvaða einstaklinga og hversu mikið til hvers og eins. Spurt er um það sem greitt var af hálfu minnihluta- stjórnarinnar sem þú sast í og einn- ig þeirrar sem enn situr með þig á stóli. Í trausti þess að þú svarir mér skilmerkilega og undanbragðalaust sendi ég þér bestu kveðjur með von um að þér lærist að virða þá svars sem þú vinnur fyrir. ÚLFAR ÞORMÓÐSSON rithöfundur. Frá Úlfari Þormóðssyni: Úlfar Þormóðsson Mannslát á fjalli og kona í stóli MORGUNBLAÐIÐ birtir alla útgáfudaga aðsendar umræðugreinar frá lesendum. Blaðið áskilur sér rétt til að hafna greinum, stytta texta í sam- ráði við höfunda og ákveða hvort grein birtist í umræðunni, í bréfum til blaðsins eða á vefnum mbl.is. Blaðið birtir ekki greinar, sem eru skrifaðar fyrst og fremst til að kynna starfsemi einstakra stofnana, fyrirtækja eða samtaka eða til að kynna viðburði, svo sem fundi og ráðstefnur. Innsendikerfið Þeir sem þurfa að senda Morgunblaðinu greinar eru vinsamlega beðnir að nota innsendikerfi blaðsins. Formið er undir liðnum „Senda inn efni“ ofarlega á forsíðu mbl.is. Einnig er hægt að slá inn slóðina www.mbl.is/ sendagrein Ekki er lengur tekið við greinum sem sendar eru í tölvupósti. Í fyrsta skipti sem formið er notað þarf notandinn að nýskrá sig inn í kerfið, en næst þegar kerfið er notað er nóg að slá inn netfang og lykilorð. Móttaka aðsendra greina

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.