Saga - 1953, Qupperneq 11
355
Fyrst má orða líkur til þess, að íslendingar
hafi snemma hlotið að hafa þekkt til verkunar
og notkunar skinna til áletrunar, eins og áður
var getið. Til viðbótar því má þess geta, að á
10. og 11. öld hafa íslendingar haft ríkulegt
færi á að kynnast þessu atriði. Friðrekur
biskup, sem hér boðaði kristna trú milli 980
og 990 með Þorvaldi Koðranssyni, og Þang-
brandur prestur, sem hér boðaði kristni ná-
lægt áratug síðar, hafa sjálfsagt haft meðferðis
bækur, skráðar á skinn, til notkunar við kirkju-
legar athafnir sínar. Erlendu biskuparnir, sem
hér dvöldust yfir 40 ár frá því fyrir 1030 og
til um 1070,x) hafa auðvitað einnig haft slíkar
bækur meðferðis. Einn þeirra var Bjarnharður,
sem Islendingar kölluð „inn bókvísa“, og bendir
viðurnefnið til bókaeignar og bókmenntar. Þá
hafa íslenzku kennimennirnir, sem utan fóru
til náms, eins og ísleifur biskup og Sæmundur
fróði, auðvitað kynnzt skinnbókum í utanvist
sinni.
Um notkun rúnaleturs eru nokkrar sagnir,
auk ummæla Eddukvæða, í fornritum vorum.
Einn þeirra 10. aldar manna, sem rúnafróðir
voru, hefur Egill Skallagrímsson verið. Hefur
hann lært þau fræði í æsku, en enginn veit,
hver hefur kennt honum þau. í Noregi lendir
hann í öldrykkju á konungsgarði og segir sagan
í 44. kap., að ólyfjan hafi verið látin í hornið,
sem hann skyldi drekka af. Þá risti hann rún-
ar á hornið, rauð á blóði sínu og kvað vísu:
1) Sbr. ísl. bók. Ara 8. kap. og Bps. (Bókm.fél.)
I. 64—65.