Saga - 1990, Blaðsíða 238
236
RITFREGNIR
Birgir Sigurðsson: SVARTUR SJÓR AF SÍLD. Forlagið.
Reykjavík 1989. 361 bls. Myndir, heimildaskrá.
í bók sinni, Guðsgjafaþulu, lætur Halldór Laxness Íslands-Bersa komast svo
að orði: „Norðurlandssíldin er aðalborin skepna bæði að fegurð og vitsmun-
um, kanski það dásamlegasta sem guð hefur skapað." (Bls. 183.)
Hver svo sem afstaða manna er til þessarar fullyrðingar er augljóst að
mikilvægi síldveiða og síldarverkunar hefur verið slíkt um einnar aldar skeið
meðal fslendinga að sá fagri fiskur á sannarlega skilið að honum sé sómi
sýndur með því að rita um hann bók. Síldin er fjölda fólks afar hugstæð.
Henni fylgdi umtalsverð rómantík, í henni fólst vonin fyrir margt ungt fólk,
draumur um bættan hag, tekjur sem nægðu til menntunar, happdrættis-
vinningurinn.
Af þessum ástæðum hefði mátt ætla að ritfærir menn hefðu þegar skrifað
það sem skrifa þyrfti um síldina. Nokkur skáld hafa fjallað um hana í verkum
sínum, ýmist sem aukagetu eins og Þórbergur eða uppistöðu eins og Halldór
Laxness, Guðmundur Steinsson og Guðlaugur Arason. Tvö leikrit, sem fjalla
um lífið á síldarplani, hafa verið sýnd og notið vinsælda og ljóðskáld hafa
mært þessa aðalbornu skepnu í ljóði.
Sagnfræðileg úttekt á síldinni hefur til þessa verið næsta rýr. Helst er um
að ræða dreifðar greinar í blöðum og tímaritum sem fjalla um einstaka
afmarkaða þætti síldarsögunnar. Auk þess skrifaði Matthías Þórðarson all-
mikið verk sem hann nefndi Síldarsögu íslauds og gaf út fyrst 1930 og síðan
aftur 1939. Bók Matthíasar er í ýmsum greinum hið merkasta rit en er öðrum
þræði talsvert gölluð. Þótt Matthías hefði afar góða yfirsýn yfir efnið og væri
vel ritfær hlaut það að koma niður á verkinu að það var skrifað á mjög
skömmum tíma og höfundur var búsettur erlendis og hafði því ekki aðgang
að nauðsynlegustu heimildum. Hér gat því naumast öðru vísi farið en að eitt
og annað væri missagt í fræðunum.
Á síðasta áratug komu út tvær bækur um síldveiðar Norðmanna við ísland
eftir Kari Shetelig Hovland. Kari, sem er búsett á eynni Bomlo í nágrenni
Haugasunds, hefur unnið verk sitt af kostgæfni og leitað víða fanga bæði á
íslandi og í Noregi en hér er atburðarásin séð norskum augum og skrifað fyr-
ir norska lesendur.
Loks má nefna að kvikmyndafélagið Lifandi myndir gerði fyrir fáum árum
heimildamynd um síldveiðar og síldarvinnslu, að hluta til með sögulegu
ívafi. Höfundar leituðu víða fanga og öfluðu sér hinna bestu heimiida. Það
væri reyndar skemmtilegt rannsóknarefni að bera saman stöðu kvikmynda-
höfundar og sagnfræðings við heimildamat og úrvinnslu.
Á síðustu jólavertíð kom svo út bókin Svartur sjór afsíld, eftir Birgi Sigurðs-
son.
Mönnum er misskipt náðargáfan og fáir eru þeir sem búa yfir hvoru
tveggja í senn, stíisnilld og nákvæmni og heimildarýni sagnfræðinnar. Hér
er átt við menn á borð við Snorra Sturluson og Sverri Kristjánsson. Þess