Saga - 1990, Blaðsíða 272
270
RITFREGNIR
þessum efnum hér á landi gerir þeim, sem kanna vilja íslenska sögu 20. aldar
afar erfitt fyrir og á það ekki síst við þegar meta skal rit á borð við það, sem
hér liggur fyrir. Mér kemur að sönnu ekki til hugar að bregða Lúðvík Jóseps-
syni um ósannsögli. Hann skýrir frá málum eins og þau horfa við frá hans
sjónarhóli, en skortur á aðgengilegum frumheimildum gerir það að verkum
að hvorki ég né aðrir geta kannað málin ofan í kjölinn, kynnt sér þau rök,
sem sett voru fram með og á móti ákvörðunum eða sjónarmiðum. Við vitum
t.d. ekki enn, og fáum sennilega ekki að vita fyrr en 1991, er bresk skjöl frá
1961 verða aðgengileg, hvaða nauður rak íslensk stjórnvöld til að semja við
Breta með þeim hætti sem gert var 1961. Við vitum ekki heldur með neinni
vissu hver þáttur einstakra manna, íslenskra og erlendra, var í samninga-
gerðinni og enn síður hvort afskipti ráðamanna Nató voru svo mikil og
afdrifarík sem Lúðvík Jósepsson lætur í veðri vaka. Á meðan svona er, er
hætt við því að ný rit, nýjar endurminningar, komi fram á sjónarsviðið með
stuttu millibili þar sem staðhæfing standi gegn staðhæfingu, hver túlki sitt
sjónarmið, en fræðimenn séu ófærir um að gera þá skyldu sína að kanna
málin ofan í kjölinn og leggja á þau hlutlægt mat.
Pá er þess að geta, að það er að mínu mati slæmur Ijóður á bók Lúðvíks
Jósepssonar, að henni fylgir hvorki nafnaskrá né heimildaskrá. Höfundur
getur að vísu stöku sinnum um heimildir í frásögninni, en sjaldan með þeim
hætti að lesandinn hafi gagn af og tilvísanir eru engar. Rýrir þetta notagildi
bókarinnar verulega.
Hér hefur sitthvað verið tínt til, sem finna má að bók Lúðvíks Jósepssonar
um landhelgismálið. Engu að síður er að henni verulegur fengur fyrir þá,
sem lesa bækur með gagnrýnum huga. Bókin er tvímælalaust góð heimild
um afstöðu Lúðvxks og þeirra, sem honum fylgdu að málum, en ummæli
hans um pólitíska andstæðinga hljótum við að taka sem persónulegar
skoðanir hans sjálfs, ekki sem sögulegan sannleika.
Að lokum verður ekki undan því vikist að vekja athygli á sögulegri villu,
sem lengi hefur riðið húsum í íslenskri sagnfræði og umfjöllun um landhelg-
ismál og gengur aftur á þessari bók. Á bls. 16, þar sem fjallað er um landhelg-
issamning Dana og Breta frá 1901, segir: „Landhelgissamningurinn við Breta
átti að gilda í 50 ár. Honum mátti segja upp með tveggja ára fyrirvara."
Samningurinn, sem fulltrúar danskra og breskra stjórnvalda undirrituðu í
Lundúnum 24. júní 1901 var birtur í Stjórnartíðindum, A-deild, árið 1903.139.
grein samningsins var fjallað um gildistíma hans og sagði þar: „Samningur-
inn er í gildi þangað til 2 ár eru liðin frá því, að annarhvor hinna tignu samn-
ingsaðila hefur sagt honum upp." Svo mörg voru þau orð og samkvæmt
þessu var gildistími samningsins óákveðinn, en segja varð honum upp með
tveggja ára fyrirvara. Hvenær og hvers vegna sú skoðun hefur komist á kreik
að samningurinn gilti til 50 ára veit ég ekki, en gaman væri að fá upplýsingar
um það.
Jón P. Pór