Morgunblaðið - 30.12.2009, Blaðsíða 35
Minningar 35
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 30. DESEMBER 2009
✝ Sæmundur Sæ-mundsson var
fæddur á Syðra-Lóni
á Langanesi 12. apríl
1950. Hann lést 18.
desember sl.
Foreldrar hans
voru Sæmundur Lár-
usson, f. 12. maí 1910,
d. 31. desember 1949,
og Guðbjörg Davíðs-
dóttir, f. 31. maí 1925,
d. 14. janúar 1988.
Systir hans er Sigrún
Davíðs, f. 16. janúar
1953, maki Skírnir
Garðarsson. Börn Sigrúnar og Ey-
steins Sigurðssonar, fyrri manns
hennar, eru þau Sigríður og Vigfús.
Sæmundur kvæntist 16. desem-
ber 1972 Ernu Oddsdóttur, f. 16.
maí 1951. Synir þeirra eru Oddur,
f. 7. júlí 1972, og Jón Trausti, f. 7.
janúar 1976. Þau slitu samvistum.
Sæmundur tók saman við Sigríði
Klingenberg, f. 20. maí 1960. Börn
þeirra eru Sigrún Erla, f. 29. júlí
1982, Guðbjörn Alexander, f. 26.
mars 1986, og Pétur Ásbjörn, f. 5.
janúar 1989. Einnig átti Sæmundur
dótturina Írisi, f. 11. október 1974,
með Helgu Tómasdóttur, f. 1944.
Foreldrar Sæmundar bjuggu og
stunduðu búskap á
ættaróðali fjölskyld-
unnar á Heiði á
Langanesi þar til fað-
ir hans féll frá en
fljótlega eftir það
fluttist móðir hans til
Þórshafnar. Systkinin
Sæmundur og Sigrún
ólust upp á Þórshöfn
hjá móður sinni þar
til veikindi hennar
leiddu til þess að hann
fluttist til Arnþrúðar
ömmu sinnar í
Bræðraborg á Þórs-
höfn. Tólf ára fluttist hann til
Keflavíkur til föðursystur sinnar
Báru Lárusdóttur sem gekk honum
í móðurstað. Sæmundur lauk
skyldunámi í Keflavík og aflaði sér
starfsréttinda bæði á vinnuvélar og
bifreiðar. Sæmundur byrjaði
snemma að vinna og vann við marg-
vísleg störf um ævina. Hann stund-
aði sjómennsku á yngri árum, vann
um tíma í álverinu í Straumsvík og í
seinni tíð stundaði hann mikið bif-
reiðaakstur.
Sæmundur verður jarðsunginn
frá Digraneskirkju í dag, miðviku-
daginn 30. desember, og hefst at-
höfnin kl. 15.
Elsku pabbi, þú varst bara lítill
strákur og skildir ekki af hverju þú
gast ekki farið heim til mömmu þinn-
ar, og þó að góðir ættingjar veittu þér
alla þá ást og umhyggju sem þau áttu
til kemur þó ekkert í staðinn fyrir
hlýjan móðurfaðm, og faðir þinn
fékkstu því miður aldrei að hitta.
Ég mun alla tíð vera þakklátur fyr-
ir að fá að eiga þig að, og allur sá
stuðningur og hlýja sem þú gafst mér
og mínum mun endast okkur alla tíð.
Við munum gæta þess að afa-
stelpan þín sem þér þótti svo vænt um
og varst svo góður, fái að kynnast þér
í gegnum okkur öll sem þekktum þig
svo vel.
Þú ert farinn frá okkur allt of fljótt
og þín er sárt saknað, en við vonum að
nú sértu hjá foreldrum þínum og að
ykkur öllum líði vel.
Þú munt alltaf eiga sérstakan stað í
hjörtum okkar.
Oddur, Eydís og Erna.
Sæmundur var góður faðir og gerði
allt sem í hans valdi stóð til að greiða
fyrir og aðstoða þegar eitthvað bját-
aði á hjá vinum og ættingjum. Hann
var ættrækinn og lagði mikla áherslu
á að halda góðu sambandi við frænd-
garðinn. Hann var frekar hlédrægur
en var með hjartað á þeim stað þar
sem börn og þeir sem minna mega sín
finna fljótt og vita hvar faðmurinn er
opinn. Sæmundur var mikill keppn-
ismaður og áhugamaður bæði um
íþróttir og spilamennsku. Þrautseigja
Sæmundar og keppnisskap hafði
áhrif á börn hans sem hefur verið
þeim gott veganesti við að ná langt
fram í hinum ýmsu íþróttagreinum.
Fótboltinn var ætíð hans íþróttagrein
og fylgdist hann af ástríðu með fram-
gangi síns liðs. Honum þótti einstak-
lega gaman að gantast við vini og
frændur varðandi framgang liða í
ensku úrvalsdeildinni og alltaf voru
haldbærar skýringar á gengi hans
manna. Það var stór partur af uppeld-
inu að spila langt fram eftir kvöldum
og það var oft kátt á Hóli þegar við
rýndum í spilastokkinn og reyndum
að klekkja á þeim gamla.
Styrkur þinn og ósérhlífni hefur
kennt okkur að standast þann ólgusjó
sem dunið getur yfir á lífsleiðinni. Það
var ekki til í orðabók þinni að gefast
upp því þrjóska og ósérhlífni var það
sem hélt þér gangandi. Þú hefðir
sómt þér vel á tímum víkinganna þeg-
ar barátta við öfl náttúrunnar voru
höfð í hávegum. Þín er sárt saknað og
mun minning þín lifa um ókomna
framtíð. Friður og ást fylgi þér.
Jón Trausti.
Ég vildi ég gæti og mætti svo margt,
sem mér finnst að þyrfti að gera,
sem gæti engan skaðað, og gott er og
þarft,
en Guð hefir samt látið vera.
Þá skyldi ég létta þau mannanna mein,
sem meiningarlaust er að bera,
og kasta af brautinni burtu þeim stein,
sem beið þar, en átti ekki að vera.
(Sigurður Jónsson.)
Elsku pabbi minn, minningarnar
streyma í gegnum hugann minn. Mig
langaði að skrifa svo margt um þig,
pabbi minn, en tárin hrynja niður
kinnar mínar. Ég á svo erfitt með að
sleppa tökunum og viðurkenna að þú
sért í raun farinn úr lífi mínu, ég sem
hlakkaði svo til að koma mér upp fjöl-
skyldu sem þú mundir vera hluti af og
sinna afahlutverkinu. Þú stóðst þig
svo vel í því hlutverki, alltaf svo barn-
góður, ég á svo erfitt með að sleppa
tökunum, alltaf boðinn og búin þegar
ég þurfti á þér að halda, sem var ansi
oft, en alltaf voru það börnin þín sem
voru í forgangi, en á þessum erfiða
tíma sem við erum að ganga í gegnum
ætla ég að standa mig og gera þig
stoltan af mér, þú átt svo sterk börn.
Og ég veit að þú horfir niður til okkar
með brosið breitt. Ég er þér ævinlega
þakklát fyrir allan tíman sem við átt-
um saman, sérstaklega rétt undir lok-
in, elsku pabbi. Orðin standa í háls-
inum en ég veit að þér líður vel núna í
bakinu, pabbi minn. Þú þjáðist svo af
verkjum eftir vinnuslysið sem þú
lentir í en Guð tók burt allan sársauka
þinn. Líf þitt var ekki alltaf dans á
rósum og þú og ég ekki alltaf sam-
mála, nema þegar kom að enska bolt-
anum því við studdum bæði besta lið-
ið. Þú veist ég mun alltaf vera litla
prinsessan þín.
Tárin renna niður kinn – í hjarta
finn ég söknuðinn – í minningunni ég
friðinn finn – þú varst eini pabbi minn.
Sigrún Erla Sæmundsdóttir.
Ég kveð þig faðir minn mæti
ég hvísla nafnið í hljóði
í hjarta mér áttu sæti
elsku faðir minn góði.
Þú lifir í okkar hjarta
alla lífsins daga
og blessun lýsir bjarta
það er þín ævisaga.
Og barnabörnin heyra
um afan sinn sterka
sem um landið var að keyra
og kunni vel til verka.
Af himnum þú horfir niður og sendir
okkur hlýju
þegar ævi okkar líkur þá hittumst við
að nýju.
(Sigríður Klingenberg.)
Guðbjörn og Pétur.
Sviplegt fráfall Góa bróður minnir
okkur á hversu stutt er milli lífs og
dauða. Morguninn 18. desember fór
hann til skyldustarfa sinna og lagði
upp í sína lokaför en tilviljun ein réð
því að honum varð ekki endurkomu
auðið úr þeirri ferð. Eftir sitja börnin
hans sex og syrgja sárt sinn góða föð-
ur. Hann var börnum sínum mikils
virði og hvatti þau óspart til dáða.
Hann var sannur vinur vina sinna og
góður vinnufélagi. Það sem einkenndi
helst Góa bróður var hversu einlægur
hann var og elskulegur. Það var alltaf
stutt í brosið og hann var okkur öllum
svo kær.
Við systkinin nutum þess ekki að
alast upp saman utan fyrstu fimm
æviár mín hjá mömmu á Þórshöfn. Þá
skildu leiðir og var hann nokkur ár
hjá föðurfólki sínu á Þórshöfn en um
tólf ára aldur fluttist hann til Báru
föðursystur sinnar og manns hennar í
Keflavík. Þau tóku honum sem syni
sínum og reyndust honum afar vel og
ekki síst í erfiðleikum hans eftir alvar-
legt vinnuslys fyrir nokkrum árum.
Vil ég þakka þeim góðu hjónum alla
þeirra elsku og hjálp við Góa bróður.
Þrátt fyrir langa vegalengd milli
Keflavíkur og Þórshafnar slitnaði
aldrei strengurinn milli okkar Góa.
Hann kom norður á sumrin og oft um
jól og alltaf heilsaði hann upp á litlu
systur í sveitinni. Þó að samvera okk-
ar Góa væri ekki mikil var ég alltaf
svo rík í huga mér að eiga hann en
hann var eina systkini mitt. Í dag er
strengurinn brostinn og við erum öll
svo miklu fátækari. Missir barna hans
er þó mestur og bið ég góðan Guð að
styðja þau og styrkja í þeirra mikla
söknuði. Það var mér mjög mikils
virði að hitta Góa bróður sl. haust í
jarðarför Heiðu uppeldissystur hans.
Þar áttum við gott samtal og hann
sagði mér frá börnunum sínum sem
hann var svo stoltur af. Við kvödd-
umst og hlökkuðum til næstu endur-
funda en nú hefur hann verið kallaður
til annarra starfa langt í burtu.
Sigrún Davíðs.
Drýpur sorg á dáins vinar rann,
Drottinn, huggaðu alla er syrgja hann,
börnin ung sem brennheit fella tár,
besti faðir, græddu þeirra sár.
Þú ert einn sem leggur líkn með þraut
á lífsins örðugustu þyrnibraut.
(Guðrún Jóhannsd. frá Brautarholti.)
Sæmi, ég þakka þér þau ár sem við
áttum saman, og þann ávöxt sem
hjónaband okkar bar, sem eru ynd-
islegu drengirnir okkar. Ég mun gera
allt sem ég get til að styðja þá og
styrkja í sorg þeirra.
Guð blessi þig, hvíl í friði.
Erna.
Á morgni lífsins eru mönnum sköp-
uð þau örlög að dauðinn kveðji dyra,
en með misjöfnum hætti eru þeir
leiddir á vit örlaga sinna, jafnvel
kvaddir til hinstu ferðar mitt í erli og
önn dagsins. Svo var með frænda
minn og að nokkru leyti fósturbróður,
sem lést í hinu hörmulega bifreiða-
slysi við Arnarnesbrú á Hafnarfjarð-
arvegi nú rétt fyrir jólahátíðina. Að fá
slíkar fréttir var yfirþyrmandi og
óskiljanlegt á þeirri stundu, ósann-
gjörn leiðarlok. Brotthvarf hans skil-
ur eftir stórt skarð í fjölskyldu okkar,
skarð sem erfitt verður að fylla. Á
slíkum stundum skyldi varast að
sökkva sér um of í sorg og söknuð, en
tendra heldur í huga sér hlýja gleði og
þökk fyrir þær samverustundir sem
gáfust og aldrei að eilífu verða aftur
teknar. En svo miskunnarlaus og sár
geta örlög manna verið að fátækleg
orð fá því tæpast lýst. Sæmundur ólst
upp í Bræðraborg á Þórshöfn hjá
Arnþrúði ömmu sinni og föðursystk-
inum, Þórdísi Lárusdóttur, Jóni
Trausta. Nú eru rétt um þrír og hálf-
ur mánuður síðan Sæmundur bar til
grafar frænku og fóstursystur úr
Bræðraborg, Heiðu Austfjörð, en lífið
heldur áfram. Um og eftir ferming-
araldur dvelur Sæmundur meira og
minna hjá föðursystur sinni og manni
hennar í Keflavík og hefur ætíð síðan
átt þar skjól þá er stormar stóðu í
fangið. Þar þótti honum gott að koma,
þar stóðu honum ávallt dyr opnar
enda hjartarými og gestrisni frænk-
unnar öllum kunnugt sem til þekkja.
Sæmundur var dagfarsprúður maður
og hafði næma réttlætiskennd. Hann
var glöggur á skoplegu hliðar mann-
lífsins og góðlátleg kímni var honum
töm.
En nú er frændi og vinur farinn í
sína síðustu ferð, ferð sem ekki verð-
ur vikist undan að fara. Hann er horf-
inn sjónum okkar sem áttum samleið
með honum í árafjöld. Í minningunni
geymum við þær stundir er við áttum
saman í blíðu og stríðu, sumar trega-
blandnar aðrar ljúfar eins og gengur.
Eitt er það sem aldrei gleymist,
aldrei, það er minning þín.
Trausti Örn Guðmundsson.
Drengur góður er fallinn frá. Þegar
loksins var farið að birta í hans lífi.
Drauminn um að eignast eigin bíl og
vera sjálfstæður atvinnurekandi.
Markmiðinu var næstum því náð. En
enginn veit sína ævina fyrr en öll er.
Síðasti dagur í lífi Sæma var eins og
allir aðrir dagar, risið úr rekkju, út í
bíl, jú vinna, það hefst ekki á kodd-
anum. Síðasti túrinn skipti sköpum.
Endastöðin var dauðinn. Bílslys.
Hafnarfjarðarvegur undir Arnar-
nesbrú lokaður. Síminn hringir í
miðjum jólagjafainnkaupum og rödd í
símanum segir að hann Sæmi hafi lát-
ist í alvarlegu bílslysi. Sorgarviðbrögð
geta verið á margan hátt undarleg.
Fyrsta hugsunin var að einum færra
yrði hjá okkur á aðfangadagskvöld.
Ekki að Sæmi væri dáinn, heldur
kæmist hann ekki. Hvers virði er að
þykja vænt um, því það er svo sárt
þegar maður er sviptur því. Já, hann
Sæmi Sæm var tengdur okkur svo
sterkt, en ég fékk hann í kaupbæti,
þegar við Þráinn, eiginmaður minn,
kynntumst, en Þráinn og Sæmi voru
systkinabörn frá Þórshöfn á Langa-
nesi og ólust upp saman. Þeir fóru
samtímis suður og fylgdust að alla tíð,
svo aldrei slitnaði á milli. Síðustu þrjú
árin tengdumst við enn frekar, því
heimsóknum hans til okkar fjölgaði.
Hress, glaður og jákvæður. Talaði
aldrei illa um nokkurn mann en ef
honum mislíkaði við einhvern talaði
hann barasta ekkert um það. Ill-
kvittni og neikvæðni var ekki hans
stíll. Minningin um Sæma á eftir að
ylja okkur um ókomin ár. Jú, hann gat
svo sem kvartað og aðeins um það
sem sneri að honum, heyrnin var orð-
in léleg og bakið var sífellt að angra
hann. Nú heyrir hann vonandi betur,
við skulum trúa því að honum sé ekki
lengur illt í bakinu. Hans stíll í hnot-
skurn er eftirfarandi: dyrabjöllu
hringt, útidyrnar opnaðar, hundarnir
tveir hlaupa fram og þá heyrist hvell-
um rómi, Flóki frændi. Já, já, Flóki
minn, Sæmi frændi er kominn og
Dengsi líka kominn, já, já, þú Dengsi
minn færð líka klór, en þá er Sæma
bent á að Dengsi heiti ekki Dengsi
heldur Peyi. Sæmi ussar á það og seg-
ist kalla hundinn Dengsa, því hann líti
út eins og Dengsi, þessu er ekki frek-
ar mótmælt. Að því búnu sest Sæmi í
sófann og Flóki leggur trýnið á læri
hans og fær klór, biður um vatnsglas
og segir okkur fréttir af krökkunum.
Og þegar nöfnin eru nefnd hækkar
tónninn ofurlítið. Já, Jón Trausti
hringdi frá Kína, mikið að gera hjá
honum, hann hringdi í Odd og Eydís
og Erna höfðu það gott, allt í sóm-
anum hjá Írisi, Pétur að pluma sig í
boltanum, líka Guðbjörn og Sigrún
Erla á fullu í snyrtifræðinni. Já,
krakkarnir áttu hug hans allan og
hann var stoltur af þeim, þau voru
hans afrek í lífinu, að hafa gefið þeim
líf og alið þau upp. Hundarnir okkar
nutu ekki aðeins elsku hans heldur
líka börnin okkar. Nú bíður okkar það
erfiða verkefni að takast á við sorgina
og breyta henni í ljúfa minningu.
Okkar innilegustu samúðarkveðjur
til krakkanna hans Sæma og systur
hans Sigrúnar frá fjölskyldunni í
Fannafold 47.
Guð blessi minningu Sæmundar
Sæmundssonar.
Guðrún Jónsdóttir.
Kæri Sæmi, þökkum það liðna,
matarboðin, ferðalögin, og aðrar sam-
verustundir. Hvíl í friði.
Drottinn er minn hirðir,
mig mun ekkert bresta.
Á grænum grundum
lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum,
þar sem ég má næðis njóta.
Hann hressir sál mína,
leiðir mig um rétta vegu
fyrir sakir nafns síns.
Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,
óttast ég ekkert illt,
því að þú ert hjá mér,
sproti þinn og stafur hugga mig.
Þú býr mér borð
frammi fyrir fjendum mínum,
þú smyr höfuð mitt með olíu,
bikar minn er barmafullur.
Já, gæfa og náð fylgja mér
alla ævidaga mína,
og í húsi Drottins bý ég langa ævi.
(23. Davíðssálmur.)
Elsku Sigrún, Guðbjörn, Pétur og
fjölskylda, sendum okkar innilegustu
samúðarkveðjur.
Sigríður B. Lorange,
Hlöðver og fjölskylda.
Starf leigubifreiðastjóra er þess
eðlis að áfangastaður hans er ekki
þekktur fyrr en viðskiptavinurinn
hefur látið í ljós hvert ferð er heitið.
Allir væntum við þó að við komum til
baka að lokinni ferð. Það urðu hins
vegar ekki þín örlög kæri vinur, þar
sem hræðilegt umferðarslys varð til
þess að þú átt ekki afturkvæmt úr
þinni síðustu ferð.
Á slíkum stundum streyma fram
minningar þar sem samfylgd og sam-
starf rifjast upp. Þú reyndist alltaf
hinn besti félagi, ákafur og eljusamur
með góða kímnigáfu og alltaf boðinn
og búinn til aðstoðar ef á þurfti að
halda. Þú hafðir skoðanir á hlutunum
og varst ófeiminn að tjá þær hvar og
hvenær sem var.
Því miður verður samferð okkar
ekki lengri í þessari tilveru hvað sem
síðar verður en þín er sárt saknað þar
sem við sitjum og bíðum eftir næstu
ferð.
Um leið og við kveðjum þig, kæri
vinur, þá sendum við börnum þínum
og ættingjum okkar innilegustu sam-
úðarkveðjur og biðjum góðan Guð að
styrkja alla þá sem eiga um sárt að
binda eftir þetta hörmulega slys.
Fyrir hönd bifreiðastjóra og starfs-
fólks A-stöðvarinnar og annarra sam-
starfsbifreiðastjóra á Suðurnesjum.
Valur Ármann Gunnarsson.
Þegar dagur er að kveldi kominn,
kyrrðarstund í dagsins önn.
Hugurinn fer á heljarflug,
og hverfur til þín.
Þú gafst mér margt sem gladdi mig
minningu eftir þú skilur.
Með harm í hjarta ég hugsa til þín
svo kátur og broshýr.
Hlátur þinn ég heyri ei lengur
né bros þitt fæ ég að sjá.
Í huga mínum verður þú drengur
með fallega hjartað og góða sál.
Ég mun minnast þín mína ævidaga
gleðjast þegar afmæli þú átt.
Í sorginni bið ég
Guð þig nú geymi
og hugsi um þig sem sinn kærasta son.
Og öllum sem misstu
og sorgin sligar
bið ég um hamingju, von og ást.
Kveðja.
Þín vinkona,
Jóhanna Guðný Einarsdóttir
bílstjóri á Hreyfli.
Sæmundur
Sæmundsson
Morgunblaðið birtir minning-
argreinar alla útgáfudagana.
Skil | Greinarnar skal senda í gegn-
um vefsíðu Morgunblaðsins: mbl.is –
smella á reitinn Senda efni til Morg-
unblaðsins – þá birtist valkosturinn
Minningargreinar ásamt frekari
upplýsingum.
Skilafrestur | Ef birta á minning-
argrein á útfarardegi verður hún að
berast fyrir hádegi tveimur virkum
dögum fyrr (á föstudegi ef útför er á
mánudegi eða þriðjudegi).
Þar sem pláss er takmarkað getur
birting dregist, enda þótt grein ber-
ist áður en skilafrestur rennur út.
Greinar, sem berast eftir að útför
hefur farið fram, eftir tiltekinn skila-
frests eða ef útförin hefur verið gerð
í kyrrþey, eru birtar á vefnum,
www.mbl.is/minningar. Æviágrip
með þeim greinum verður birt í
blaðinu og vísað í greinar á vefnum.
Minningargreinar