SunnudagsMogginn - 10.01.2010, Blaðsíða 13
10. janúar 2010 13
G
ísli Örn Garðarsson er á fundi með sínu fólki
þegar mig ber að garði í Borgarleikhúsinu
þetta eftirmiðdegi. Það styttist í frumsýningu
á nýjasta samstarfsverkefni Vesturports og
Borgarleikhússins en þar ráðast menn ekki á garðinn þar
sem hann er lægstur, sjálfur Faust er tekinn til kostanna.
Gísli heilsar mér kumpánlega og biður mig að hinkra
stundarkorn meðan hann klárar fundinn. Tæknilegar úr-
lausnir eru í brennidepli enda verða Gísli og þeir Vest-
urportarar seint sakaðir um að fara troðnar slóðir í nálgun
sinni í leikhúsi. Eitt augnablik finnst mér ég vera að hlusta
á sirkusstjóra leggja línurnar. Ekki leikstjóra. Þessi leikari
á að fljúga hingað. Hinn þangað. Mig svimar við tilhugs-
unina.
„Já, maður lærir aldrei af reynslunni,“ segir Gísli
sposkur á svip þegar viðtalið er formlega hafið. Spurt var
hvort Faust væri jafn tæknilega flókin sýning og ýmsar
fyrri sýningar Vesturports. Lofthræddir fá enn í magann
þegar þeir hugsa um Rómeó og Júlíu. Gísli brosir. „Ef til
vill vex ég einhvern tíma upp úr þessu.“
Spurður hvort gestir á Faust eigi eftir að hrökkva í kút
brosir Gísli óræðu brosi. „Það er alltaf gaman að koma
áhorfendum á óvart. Faust býður upp á ýmsa möguleika.“
Það er líkast til betra að spenna öryggisbeltin.
„Ef þetta er eina vandamálið sem við þurfum að leysa
fram að frumsýningu erum við í nokkuð góðum málum,“
heyri ég Gísla segja við samstarfsmenn sína á fundinum.
Það liggur því beint við að spyrja hvort allt sé á áætlun.
Gísli gerist stóískur. „Það er eins og með málverkið, mað-
ur. Hvenær er það tilbúið?“
Innblásið af Goethe
Faust er upprunalega þýsk þjóðsagnapersóna sem seldi sál
sína kölska í skiptum fyrir þekkingu. Sagan mun fyrst
hafa verið færð í letur á ofanverðri sextándu öld en fjöldi
ódauðlegra listamanna hefur lagt út af henni síðan, þeirra
frægastir leikskáldin Christopher Marlowe, Johann Wolf-
gang von Goethe og Mikhail Bulgakov og tónskáldin Hec-
tor Berlioz, Franz Liszt og Gustav Mahler.
Gísli er sjálfur höfundur leikgerðar að þessu sinni ásamt
félögum sínum í Vesturporti, þeim Birni Hlyni Haralds-
syni, Nínu Dögg Filippusdóttur og Víkingi Kristjánssyni.
Hann leggur þó áherslu á, að þetta sé innblásið af Goethe.
„Við leikgerðina höfðum við hliðsjón af ýmsum fyrri út-
gáfum sögunnar, ekki síst verkum Marlowes og Goethes.
Svo var þetta spurning um að finna sögunni okkar eigin
farveg og form.“
Gísli velur orðin „algjör klassík“ til að lýsa meðhöndlun
Goethes á Faust. „Það er enginn smá doðrantur, meiri-
háttar texti spjaldanna á milli og ógleymanleg persónu-
sköpun. Ég er búinn að lesa leikritið þrjú hundruð sinnum
og það verður bara betra með hverjum lestrinum og ég
gæti talað um það í marga mánuði. Í upphafi botnar mað-
ur að vísu lítið í því hvað Goethe er að fara, enda textinn
allur í bundnu máli og íslenskar og enskar þýðingar
kannski mis góðar en smám saman opnast þessi undra-
heimur fyrir manni. Þarna er stórra spurninga spurt, um
tilgang mannsins og hlutverk okkar í þessu jarðlífi, hið
dulræna, ástina, trúnna á guð. Það er eins og verið sé að
reyna að ná utan um allar innri vangaveltur mannsins.
Það eru þessar ódauðlegu spurningar sem gera sum verk
að klassík. Faust er eitt þeirra.“
Fullt starf að koma sér inn í Faust
Spurður hvort Faust eftir Goethe sé skyldulesning á
hverju heimili svarar Gísli á hinn bóginn neitandi. „Þú
leggst ekki upp í sófa með Faust eftir Goethe og rennir þér
í gegnum það. Það er fullt starf að koma sér inn í Faust.
Líttu bara á okkur, við erum búin að liggja yfir þessu í
nokkur ár. En hafi menn nægan tíma mæli ég tvímælaust
með verkinu. Og ekki misskilja, þetta er meiriháttar,
magnað – það þarf bara tíma og þolinmæði.“
Gísli fór strax að velta fyrir mér hvernig hann ætti að
nálgast Faust sem leikstjóri en hann hefur þann sið að fara
aldrei af stað fyrr en viðkomandi verk hefur gripið hann
heljartökum. „Ég þarf að finna eldinn í mér. Þegar hann
hefur verið tendraður er hægt að hefjast handa. Finni ég
ekki eldinn er betur heima setið en af stað farið.“
Það eru ekki bara persónur verksins sem eru þýskar,
hugmyndin að uppfærslunni kom líka þaðan. „Fyrir
nokkrum árum stakk þýskur leikhússtjóri upp á því að ég
setti Faust upp í leikhúsinu hans. Þá hafði ég ekki tíma til
þess og þetta frestaðist aftur og aftur. Hugmyndinni hafði
hins vegar verið plantað inn hjá mér og þegar svigrúm
skapaðist til að gera þetta hérna heima í fyrra lét ég slag
standa. Þjóðverjarnir eru meðframleiðendur og það er
búið að staðfesta að við förum til Ludwigshafen með
verkið og vonandi fylgja aðrar stórborgir í kjölfarið. Það
er að segja ef við klúðrum sýningunni ekki. Það verður
allskonar fyrirmenni úr leikhúsheiminum á frumsýning-
unni.“
Stórkostlegt starfsumhverfi hér heima
Gísli er glaður að mál þróuðust á þennan veg enda þykir
honum jafnan betra að vinna leiksýningar frá grunni hér
heima en erlendis. Tíminn sé rýmri. „Allar sýningarnar
sem ég hef leikstýrt hafa verið frumunnar hérna heima í
samstarfi við Borgarleikhúsið nema Hamskiptin. Hún var
unnin í Englandi, þar sem við fengum ekki nema fimm
vikur til að klára hana. Það var heldur naumt. Starfsum-
hverfið er miklu betra hérna heima. Raunar er alveg hægt
að nota orðið „stórkostlegt“ um það.“
Það er ekki bara umhverfið sem er hagstætt á Íslandi
heldur ekki síður mannvalið en athygli vekur að Gísli
vinnur aftur og aftur með sama fólkinu. „Það er engin til-
viljun,“ útskýrir hann. „Fólkið sem við hjá Vesturporti
höfum unnið með hér heima er á heimsmælikvarða og
höfum við þó víða komið við. Það er eðlilegt og skyn-
samlegt að leita aftur til fólks sem manni gengur vel að
vinna með.“
Filippía Elísdóttir gerir búninga í Faust, hljóð er í hönd-
um Thorbjørns Knudsens, Sigríður Rósa Bjarnadóttir sér
um leikgervi, leikmynd er eftir Axel Hallkel Jóhannesson,
Þórður Orri Pétursson gerir lýsingu og tónlist er eftir Nick
Cave og Warren Ellis. Tónlistarstjóri er Frank Þórir Hall.
Gísli segir samstarfið iðulega ganga hnökralaust fyrir
sig. „Verkefni eins og Faust er gríðarlega krefjandi. Með
því mest krefjandi sem ég hef tekist á við þori ég nánast að
fullyrða. En svo er það samstarfið sem gerir leiksýningu
að því sem hún verður. Leikstjórinn hefur bara hug-
myndir, það kemur í mörgum tilvikum í hlutverk ann-
arra að útfæra þær og þegar samstarfið er gott, fara allir að
taka þátt í hugmyndasköpuninni – og þá meina ég allir.
menn sem aldrei er minnst á eins og Einar, Diddi, Pála,
Kiddi, Halli Volvo, Gulli ... Fólk sem gerir það af verkum
að hægt er að lyfta hugmyndum á annað plan.“
Spurður hversu langt hann gangi til að fylgja hug-
myndum sínum eftir brosir Gísli. „Ég er maður mála-
miðlunar sé ég sannfærður um að eitthvað sé ekki hægt.
En ég get verið ótrúlega þrjóskur líka. Og það verður
maður að vera, af því það er allt í húfi og engin ástæða til
málamiðlana þó svo að þetta sé stundum flókið eða erfitt.
Ég á það stundum til að ofhlaða sýningu í upphafi til að
geta síðan skrælt smám saman utan af henni. Sérstaklega
þegar verkin eru klassísk og hlaðin myndmáli. Kannski
virkar þessi aðferð kæruleysisleg en hún er í raun mark-
viss og öguð. Það er aldrei neitt tilviljanakennt í sýn-
ingum okkar. Ekkert „óvart“ þegar upp er staðið. Við
viljum nota allar víddir sviðsins – búa til sjálfstæðan
heim. Þegar þú kemur í leikhús áttu að upplifa eitthvað
sem þú upplifir hvergi annars staðar.“
Hafa lært mikið af Þorsteini
Gísli er hæstánægður með samstarf Vesturports við Borg-
arleikhúsið. Það kom þannig til að veturinn eftir að hann
brautskráðist úr Leiklistarskólanum 2001-02 var Gísli
fastráðinn við húsið. Það varð þá að samkomulagi milli
hans og Guðjóns Pedersens, þáverandi leikhússtjóra Leik-
félags Reykjavíkur, að Gísli fengi „aðeins að leika sér“ í
frítíma sínum ásamt félögunum í Vesturporti. Afrakstur
þess „leiks“ var Rómeó og Júlía, ein víðförlasta leiksýning
Íslandssögunnar. „Við höfum verið hérna síðan og það
hefur ekkert breyst með nýjum húsbónda. Magnús Geir
Þórðarson hefur sýnt þessu samstarfi mikinn áhuga.“
Hlutverk söguhetjunnar í sýningunni er í höndum Þor-
steins Gunnarssonar sem þreytir nú frumraun sína með
Vesturporti. Nokkur ár eru síðan Þorsteinn stóð síðast á
fjölum Borgarleikhússins en hann er sem kunnugt er einn
af arkitektum hússins. „Það er frábært að hafa Þorstein
með okkur. Hann er mjög góður leikari sem við höfum
lært mikið af. Hann er fagmaður fram í fingurgóma og
mjög góð fyrirmynd. Þorsteinn hefur sést alltof sjaldan á
sviði í seinni tíð,“ segir Gísli en þeir Þorsteinn léku saman
í fyrstu atvinnuleiksýningunni sem Gísli tók þátt í haustið
2001, Kristnihaldi undir Jökli í Borgarleikhúsinu.
Raunar segir leikstjórinn leikhópinn einkar vel sam-
settan en aðrir leikendur í Faust eru Hanna María Karls-
dóttir, Hilmir Snær Guðnason, Unnur Ösp Stefánsdóttir,
Rúnar Freyr Gíslason, Jóhannes Níels Sigurðsson og Svava
Björg Örlygsdóttir auk meðhöfunda Gísla, þeirra Björns
Hlyns, Nínu Daggar og Víkings.
Gísli leggur áherslu á, að hér séu engin aðal- og auka-
hlutverk. Hlutverkin séu vissulega misjafnlega stór en öll
jafnmikilvæg. „Við gerum aldrei greinarmun á aðal og
aukahlutverkum. Það er kannski klisja að segja það, en
þannig er það bara. Ég held að maður finni sjaldan fyrir
hlutverkamun í sýningum okkar. Þess vegna held ég líka
að við höngum svona vel saman. Við erum með stór egó
utansvið, en inni á sviði erum við hvert fyrir annað. Það
er ömurlegt fyrir leikara að mæta í vinnuna og finnast
hann ekki skipta máli. Þegar ég leikstýri legg ég mig í
framkróka til að það gerist ekki.“
Gísli er orðinn alræmdur fyrir að reyna á holdlegt at-
gervi leikara. Hann gerir ekki mikið úr þeirri sérvisku.
„Leikhúsið reynir alltaf líkamlega á leikarann, ekki bara
þegar hann er hengdur upp í rólu. Það er óhjákvæmilegt.
Ég get þó fallist á að þetta séu örlítið meiri öfgar hjá okkur
en flestum öðrum.“
Snýst um að ögra sjálfum sér
Þegar hefur einn leikari, svo sem fram hefur komið, þurft
að stinga við stafni á slysavarðstofunni meðan á æfingum
hefur staðið en Gísli segir meiðslin hafa verið smávægileg.
„Meðan fólk er að byggja upp reynslu getur það þurft að
sætta sig við fáeina marbletti. Persónulega hrífst ég alltaf
mest af fólki sem er tilbúið að hafa fyrir hlutunum. Þetta
snýst um að ögra sjálfum sér og hver vill ekki ögra sér í
vinnunni og fara með sjálfan sig á hálar slóðir?“ spyr Gísli
en eins og margir vita lagði hann um árabil stund á fim-
leika.
Gísli hefur jöfnum höndum leikið og leikstýrt á sínum
ferli og hefur engin áform um að breyta því mynstri.
„Þetta er sitthvor hliðin á sama peningnum. Líkt en samt
svo ólíkt. Ég vil hvorugu fórna, alltént ekki á þessum
tímapunkti. Leikstjórn tekur yfir allt manns líf í langan
tíma á meðan maður hefur meira svigrúm sem leikari. Ég
kann jafnvel við mig í báðum hlutverkum og er alltaf að
læra eitthvað nýtt. Ég held áfram svo lengi sem ég finn
eldinn og menn vilja vinna með mér.“
Úr sýningunni á Faust í Borgarleikhúsinu.
Þú leggst ekki upp í sófa með
Faust eftir Goethe og rennir þér í
gegnum það. Það er fullt starf að
koma sér inn í Faust. Líttu bara á
okkur, við erum búin að liggja yfir
þessu í nokkur ár.