SunnudagsMogginn - 10.01.2010, Blaðsíða 40
40 10. janúar 2010
S
vavar Alfreð Jónsson sókn-
arprestur í Akureyrarkirkju er
mikill matmaður; finnst bæði
gott og gaman að borða og ekki
síður að elda.
„Ég var mikið hjá ömmum mínum
þegar ég var strákur. Þær voru eiginlega
alltaf í eldhúsinu, ég þótti hættulega
magur þegar ég var lítill og ömmur mín-
ar reyndu hvað þær gátu að troða í mig
mat og sælgæti,“ segir séra Svavar í sam-
tali við Morgunblaðið. Bætir svo við:
„Síðan þá hef ég verið sælkeri og ömm-
urnar eru fyrir löngu búnar að ná því
markmiði sínu að gera mig ómagran...“
Lærið bregst aldrei
Það var um miðjan desember að blaða-
maður hitti Svavar þar sem hann stóð í
eldhúsi vinafólks þeirra hjóna, hans og
Bryndísar Björnsdóttur. Þær Yrsa Hörn
Helgadóttir skelltu sér í smákökubakstur
þennan laugardag og eiginmennirnir,
Svavar og Gunnar Gíslason, fræðslustjóri
Akureyrarbæjar, sáu um matinn. Og
höfðu gaman af, sýndist mér.
Að þessu sinni var boðið upp á hollan
og góðan grænmetisrétt – nokkuð sem
var heppilegt skömmu fyrir hátíðina
sjálfa, þegar kjöt er á borðum hjá lang-
flestum landsmönnum dag eftir dag.
Grænmetisrétturinn ætti því að henta vel
aftur núna, að jólahátíðinni lokinni.
Séra Svavar segist oftast elda á sínu
heimili, bæði hvunndags og þegar góða
veislu gjöra skal. „Mér finnst matseld
svo skapandi og ekki síður gaman að búa
til mat í félagsskap góðra vina en að gera
honum skil í sama kompaníi.“
Spurður um hvað fjölskyldunni líki
best nefnir hann fyrst að í uppáhaldi hjá
börnunum sé íssósa sem hann gerir alltaf
á jólunum.
Ofnsteikt lambalæri er líka afar vin-
sælt að sögn Svavars. „Lambalæri er eig-
inlega matur sem ekki er hægt að klúðra.
Best finnst mér það grillað og kryddlegið
með ferskum íslenskum kryddjurtum,
lyngi, blóðbergi og laufi, og berjum ef
þau eru til. Ekki skemmir að stinga í það
ostum.“
Kálfakjöt og hórupasta
Besta sósan með áðurnefndu læri, að
mati prestsins er sett saman úr eftirfar-
andi: ½ lítri rjómi, 1 stk. Akureyri Blue
Cheese, 4 teskeiðar villikraftur og hálf
krukka af bláberjasultu.
„Gamla góða lærið frá mömmu með
brúnni soðsósu, grænum baunum, rauð-
beðum, tröllasúrumauki og brúnuðum
kartöflum klikkar heldur ekki.“
Sjálfum finnst honum allur Miðjarð-
arhafsmatur góður en hefur sérstakt dá-
læti á ítölskum mat. Hann sé einfaldur,
stílhreinn, hollur, léttur og góður.
„Einn af mínum uppáhaldsréttum er
Vitello tonnato, kálfakjöt í túnfiskssósu.
Spaghetti alla puttanesca, hórupasta, er
líka algjört hnossgæti, en það sam-
anstendur af pasta og bragðmikilli an-
sjósusósu. Grillaður sjóbirtingur er líka
himnesk fæða.“
Lítið óhollt og sjaldan
Hann kveðst veiða pínulítið sjálfur og
veiddi einmitt „þennan líka fína sjóbirt-
ing síðasta sumar. Konan gaf mér tveggja
daga veiðitúr í jólagjöf og ég hlakka
óstjórnlega til.“
Séra Svavar og fjölskylda hans hafa
síðustu árin farið í sumarfrí til Ítalíu þar
sem þau eiga sér afdrep; heimilislegt
strandhótel sem rekið er af fjölskyldu.
„Þar er frábært að vera í fullu fæði og
þurfa ekki að hugsa um neitt nema hvað
verði næst í matinn!“
Svavar lenti í hjartaaðgerð fyrr á þessu
ári, fékk ættarsjúkdóminn eins og hann
orðar það, og segist þurfa að hugsa vel
um sig. „Ég borða allt en það sem er
óhollt borða ég sjaldan og í litlu magni.
Sneiði hjá fitu. Borða mikið grænmeti og
fisk enda þykir mér hvort tveggja gott.
Svo úða ég í mig ávöxtum,“ segir séra
Svavar.
Þótti hættulega magur
Ömmur séra Svavars Alfreðs Jóns-
sonar tróðu í hann mat og sælgæti á
sínum tíma. Sóknarpresturinn í Ak-
ureyrarkirkju segist hafa verið sæl-
keri síðan og hafa mjög gaman af því
að elda góðan mat í góðra vina hópi.
Skapti Hallgrímsson skapti@mbl.is
Svavar Alfreð hefur verið
sælkeri síðan hann var
lítill drengur.
Svavar Alfreð Jónsson og Gunnar Gíslason í eldhúsinu.
Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Matur
Einn þeirra drykkja, sem veita ljúfan yl í
líkama og sál, er Chai latte. Um er að
ræða kryddað mjólkurte, indverskt að
uppruna, öðru nafni Masala chai. Drykk-
urinn er bruggaður úr blöndu af tei og
indversku kryddi og út í hann hellt heitri
og jafnvel freyddri nýmjólk.
Chai latte nýtur mikilla vinsælda á
Vesturlöndum, þar sem víða má kaupa
tilbúnar teblöndur sem sérstaklega eru
ætlaðar í drykkinn.
Uppskriftin hér er fengin hjá Te og
kaffi þar sem kaupa má teblönduna og
sírópið sem gefið er upp. Aðrir láta
venjulegan hvítan eða brúnan sykur
nægja í staðinn fyrir sírópið.
Chai latte
2 tsk Spicy Chai latte
1 tsk negulnaglar
½ kanilstöng
2 tsk Routin Chai-síróp
9 cl heitt vatn
14 cl nýmjólk
Teið er lagað (látið trekkja í 2-3 mín), negul,
kanil og sírópi blandað út í og látið standa í
3-5 mín. Þá er kryddið sigtað frá teinu og
hellt í glas. Nýmjólkin er hituð og hellt yfir.
Drykkur vikunnar
Ilmandi
mjólkurte
Þegar notað er matarlím þarf alltaf að
leggja það í bleyti í kalt vatn til að mýkja
það áður en það er brætt. Matarlím er ým-
ist brætt yfir gufu eða í heitum vökva
Ef setja á brætt matarlím út í eggjahræru
eða þeyttan rjóma þarf að kæla og þynna
það annað hvort með ávaxtasafa eða köldu
vatni (2-3 msk). Þetta á við ef matarlímið
er brætt yfir gufu.
Ef ávextir eða saxað sælgæti eru í mat-
arlímsbúðingnum fer það út í þegar eggin
fara að taka sig (aðeins að þykkna) og að
síðustu fer þeyttur rjóminn út í.
Á tyllidögum er gott að sjóða og afhýða
kartöflurnar snemma um daginn ef það
eiga að vera brúnaðar kartöflur um kvöld-
ið. Hita þær síðan upp í sykurleginum.
Húsráð
Margrétar
Matarlím og
búðingur