SunnudagsMogginn - 14.03.2010, Blaðsíða 13
14. mars 2010 13
Birna og Jóhannes bjuggu fyrst í leiguhúsnæði en tóku
sig til þegar byggð reis á mýrunum á brekkunni og reistu
húsið Grænumýri 13 þar sem þau bjuggu þar til Jóhannes
lést. „Flestir áttu afskaplega lítið en menn hjálpuðust
mikið að; einn kunni að leggja vatnsleiðslur og setja upp
miðstöðvar, annar var smiður og einn smíðaði glugga …
Samvinnan var mikil.“
Birna og Jóhannes áttu fjögur börn: Ramborg sem fædd
er 1931, dreng sem fæddist andvana 1940, Gunnildur sem
kom í heiminn 1941 og lést 2008 og yngst er Helga Sig-
urbjörg, fædd 1943.
Ekki mjög langur tími, 100 ár
Hjónin unnu bæði á Sambandsverksmiðjunum. Jóhannes
var verkstjóri á Iðunni og Birna var 26 ár á Gefjun. Hætti
þar ári eftir að Jóhannes dó og fór á eftirlaun. Síðan eru
liðin mörg ár og Birna að fylla tíunda tuginn. „Mér finnst
þetta samt ekkert mjög langur tími,“ segir hún um árin
100. „Ég hef mætt svo mörgu góðu fólki á lífsleiðinni;
held ég hafi aldrei mætt vondri manneskju. Fólk er vissu-
lega misjafnt, bæði í skoðunum og lífsstíl, og það er mis-
jafnlega skemmtilegt eða leiðinlegt,“ segir hún og hlær.
Þau Jóhannes fóru oft ótroðnar slóðir, í orðsins fyllstu
merkingu. „Við þóttum sérvitur! Öðruvísi en annað fólk,
en það gerir ekkert til.“ Áður en þau eignuðust bíl fóru
hjónin margoft gangandi til fjalla: „Fórum þá með nesti í
heimasaumuðu bakpokunum okkar og sváfum í heima-
saumuðum svefnpokum. Það voru yndislegar ferðir. Einu
sinni gengum við frá Reykjahlíð austur að Jökulsá á Fjöll-
um. Það er æði-langt en það var gaman.“
Þá var verið að steypa stöplana á brúnni yfir Jökulsá,
hjá Grímsstöðum. „Við fórum yfir ána á ferju sem strák-
arnir sem voru að byggja brúna notuðu. Ég var agalega
hrædd, straumköstin í miðri ánni voru svo mikil að bát-
urinn hoppaði en ég hugsaði sem svo að fyrst strákarnir
kæmust þetta lifandi oft á dag hlytum við að gera það.“
Þegar Birna er beðin um að líta um öxl og rifja upp
mestu breytingarnar hér á landi á æviskeiði hennar, tek-
ur hún svo til orða að það sé kannski „kellingalegur
hugsunarháttur, en ég held að mesta framförin – þrátt
fyrir tölvurnar, sjónvarpið og símann – hafi verið þegar
Íslendingar hættu að ganga á sauðskinnsskóm. Það var
bylting þegar gúmmískórnir komu. Ég man að móðir mín
sagði, þegar allir voru komnir í slíka skó: Mér finnst ég
ekkert hafa að gera lengur! Það var svo mikil vinna við að
sauma þá, bæta þegar þeir voru skornir eða slitnir þveng-
ir. Við áttum skó til skiptanna en oft þurfti að þurrka þá
yfir nótt þegar menn komu heim að kvöldi blautir í fæt-
urna og þurftu heila skó að morgni.“
Birna segir vont, eins og nærri má geta, að ganga á
oddhvössu grjóti á sauðskinnsskóm, þó svo leppar hafi
verið í þeim. „Líklega á fólk nú til dags erfitt með að
ímynda sér hve mikil breyting það var þegar við fengum
gúmmískóna; það skilur enginn núna hvað það er að vera
blautur í fæturna á hverjum degi. Sem betur fer!“ En á
þessum tíma hugsaði fólk í sjálfu sér ekki um hvað þetta
var slæmt. „Við þekktum ekki annað. Maður saknar ekki
þess sem maður þekkir ekki. En allt breytist og ég er viss
um að margt á eftir að koma sem við höfum ekki hug-
mynd um núna. Þannig hefur það alltaf verið.“
Yndislegt að vera á Hlíð
Birna er alsæl á dvalarheimilinu Hlíð. „Það er ekki hægt
að hugsa sér það betra. Þvílíkt lán það er að komast hing-
að þegar fólk getur ekki séð um sig sjálft lengur.“ Hún
talar fallega um starfsfólkið. „Þarna er einn engillinn
minn,“ segir Birna þegar starfsmaður gengur hjá.
„Ég er sátt við allt umhverfi mitt og mér er ekki í nöp
neinn. Ég er ekki ósátt við nokkra manneskju nema sjálfa
mig,“ segir hún.
Hvers vegna ertu ekki sátt við þig sjálfa? spyr blaða-
maður. „Ég held það sé ekki gott að vera alveg sáttur við
sjálfan sig. Það er margt sem ég hefði viljað gera betur og
öðruvísi, en það var þá vegna þess að maður vissi ekki
betur. Ég er hrædd um að lífið væri fátæklegt og við ef-
laust þreytt ef alltaf gengi allt að óskum. Ef alltaf væri sól-
skin. Ég er ekki viss um að alltaf sé gott að fá óskirnar
uppfylltar.“
Svo horfir Birna út um gluggann á herberginu sínu.
„Þessi snjór féll allur í logni. Hann er því ekki samanbar-
inn og það er gaman að fylgjast með því hvernig hann
lækkar jafnt. Maður getur glaðst yfir ýmsu; það þarf ekki
alltaf að fara langt til þess.“Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
’
Ég er hrædd um að lífið væri fá-
tæklegt og við eflaust þreytt ef
alltaf gengi allt að óskum. Ef
alltaf væri sólskin. Ég er ekki viss um
að alltaf sé gott að fá óskirnar upp-
fylltar.
Á hátíðartónleikunum verður Sinfónía nr. 2 eftir
Gustav Mahler, einnig kölluð „Upprisusinfónían“,
flutt af rúmlega tvö hundruð flytjendum. Þá verður
einnig flutt nýtt verk eftir Hafliða Hallgrímsson.
Tryggðu þér miða á þessa einstöku tónleika á
www.sinfonia.is eða í síma 545 2500.
„Sinfónía þarf að vera eins
og heimurinn. Hún þarf að
innihalda allt.“
Gustav Mahler