SunnudagsMogginn - 14.03.2010, Blaðsíða 18
18 14. mars 2010
K
úlan í Þjóðleikhúsinu er ekki til lengur.
Litla húsið sem stendur við Lindargötu
er um þessar mundir heimili Fíusólar,
sem er hress og pínulítið prakkaraleg
stelpa. Það er fimmtudagur og rennsli á sýning-
unni að hefjast. Áhorfendur eru tveir krakkahóp-
ar, annar þeirra kemur úr áttunda bekk en hinn úr
leikskóla. Þegar inn er komið og niður stigann, er-
um við komin heim til Fíusólar, en til þess að
komast inn í herbergi til hennar, eða í ruslahaug-
inn eins og Ingólfur Gaukur vinur hennar myndi
segja, þurfum við að fara í gegnum eldhúsið og inn
á gang til að ná á leiðarenda. Fíasól kemur fram og
býður krakkana velkomna og svarar nokkrum
spurningum áður en hún vísar þeim inn í herbergi.
Fyrst fara leikskólabörnin inn, síðan áttundibekk-
urinn og svo nokkrir fullorðnir sem fá að flækjast
með. Inni í herbergi úir og grúir af alls konar lit-
ríku dóti út um allt. „Sjáðu!“ segir ein stúlkan
spennt og togar í vinkonu sína, „Fíasól á líka Elsku
Míó minn!“ Leikskólabörnin eru augljóslega full
tilhlökkunar en eldri krakkarnir eru aðeins svalari
á því. Það er samt ekki laust við að kúlið leggist í
smá dvala meðan á sýningunni stendur. Það heyr-
ist ekki hljóð í þeim eldri nema þegar þau hlæja að
uppátækjum Fíusólar en litlu krakkarnir eru
óhræddir við að taka þátt og kalla til Fíusólar þegar
þeim liggur eitthvað á hjarta. Hæst heyrist í þeim
þegar líður að nóttu og notalega hosilóið hennar
Fíusólar breytist í hræðilega herbergið. Þá sést
glitta í bláa skrímslið og gólfdrauga og þegar Pippa
systir, sem missir af öllu saman, skammar litlu
systur fyrir ímyndunarveikina, eru börnin fljót að
grípa inn í; „það hreyfðist víst!“
Fíasól og Ingólfur Gaukur eru ekkert að flýta sér
út að rennslinu loknu og taka sér tíma til að spjalla
við krakkana. Nokkur þeirra yngri hlaupa að Fíu-
sól og faðma hana innilega; „stubbaknús! segja
þau.“ Fíasól, sem er dálítið stærri, átta ára gömul,
beygir sig niður og faðmar þau öll. Krakkarnir fara
kát og glöð heim. Eftir sitja aðstandendur sýning-
arinnar sem hafa verið á hvolfi við að tryggja að
allt gangi vel fyrir sig. Kristín Helga Gunn-
arsdóttir, höfundur Fíusólar, kemur að sýningu
lokinni en þetta er fyrsta rennslið sem hún missir
af. Halldór Baldursson, sem á myndskreyting-
arnar, kemur líka við og fær að sjá bláa skrímslið í
fyrsta sinn. Leikstjórinn, Vigdís Jakobsdóttir, er
þarna líka að sjálfsögðu og fer yfir þau atriði sem
betur hefðu mátt fara; tæknin er eitthvað aðeins að
stríða þeim og svo eru alls konar smáatriði sem
þarf að huga að, til dæmis því að Fíasól segi ekki
„ljúga“ heldur „skrökva.“ Tinna leikhússtjóri er á
rennslinu og virðist ánægð þegar ljósin kvikna.
Allt virðist vera að smella saman, enda bara tveir
dagar í sýningu og uppselt út maí. Enda á Fíasól
marga aðdáendur; það er ekki annað hægt en að
finnast hún sniðug og skemmtileg. „Það er nauð-
synlegt fyrir mömmur og pabba að eiga börn svo
þeim leiðist ekki,“ segir hún. Lára Sveinsdóttir,
sem leikur Fíusól, segir að hún sé einmitt svo frá-
bær af því að hún sé bara venjuleg stelpa; dálítið
uppátækjasöm, en annars bara eins og börn eru.
Það er allavega fjörugt og skemmtilegt í litríkum
heimi hennar og góða skapið fylgir manni út á
Lindargötuna aftur.
Úfni kollurinn á Fíusól er tilbúin hárkolla, enda varla hægt að gera Láru það að flækja hárið svona.
Sindri Birgisson leikur hinn tíu ára gamla snyrtipinna Ingólf Gauk.
Simmi Shine setur sig í stellingar á meðan lokahönd er lögð á sviðið.
María Pálsdóttir leikur Pippu systur, mömmuna og Simma Shine.
Það er nóg að gera hjá Vigdísi leikstjóra þessa dagana.
Kristín Helga hefur varla misst af æfingu eða rennsli.
Kristín Helga og tæknimaðurinn skrafa saman um Fíusól.
Í heimsókn hjá
Fíusól í hosiló
Bak við tjöldin
Texti Hólmfríður Gísladóttir holmfridur@mbl.is
Myndir Golli golli@mbl.is