SunnudagsMogginn - 06.03.2011, Blaðsíða 15

SunnudagsMogginn - 06.03.2011, Blaðsíða 15
langaði að prófa einhvern svona bústinn karakter fyrir börnin og endaði með Bjössa bollu. Fyrirmyndin var að hluta Oliver Hardy úr Steina og Olla. Bjössi sló rækilega í gegn. Meira að segja fullorðna fólkið hló með.“ Bjössi bolla kom fram í Stundinni okkar í kjölfarið sem jók vinsældir hans enn frekar. „Eitt sumarið varð ég að leigja flugvél til að anna eftirspurn 17. júní. Allir vildu sjá Bjössa bollu. Launin mín á þessum eina degi voru á við árslaun verkamanns. Það var með ólíkindum. Ég er ennþá að leika Bjössa. Um daginn kom til mín kona og bað um eiginhandaráritun Bjössa fyrir dóttur sína. Ég gaf þættina með honum sjálfur út á diski fyrir um fimmtán árum og barnabörnin mín horfa grimmt á þá.“ Þrátt fyrir vinsældir Sumargleðinnar segir Magnús menntaða leikara hafa litið þá kumpána hornauga. „Við vorum spéfuglar og það var litið niður á þá. Ekki lagaðist það eftir að leikarar fóru í verkfall 1980 og ég, Laddi, Hemmi Gunn og fleiri gerðum Skaupið. Eftir það vorum við útskúfaðir. Mér var til dæmis hafnað hvað eftir annað af leikarafélaginu. Menn vildu meira að segja láta breyta reglunum til að fyrirbyggja að ég kæmist inn. Það var á endanum Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir sem kom mér inn í félagið – við litlar vinsældir.“ Gerður að bæjarstjóra Á tíunda áratugnum lék Magnús í nokkrum sýningum í Borgarleikhúsinu og Loftkastalanum, auk fjölmargra stutt- og kvikmynda. Nægir þar að nefna Börn náttúr- unnar, Bíódaga, og Djöflaeyjuna. Alls hefur hann leikið í 21 kvikmynd á ferlinum. Árið 1996 hringdi ungur eldhugi í Magnús og kynnti fyrir honum nýtt og metnaðarfullt verkefni: Latabæ. „Hann var með hnausþykkt handrit og vildi fá mig til að leika bæjarstjórann í þessum skrítna bæ. Fullyrti að hug- myndin yrði komin á heimsmarkað eftir tíu til tólf ár. Ég gat ekki annað en hlegið að honum.“ Magnús áttaði sig hins vegar fljótt á því að nafna hans Scheving var alvara. Áfram Latibær gekk 95 sinnum í Loftkastalanum og í framhaldinu lá leiðin í Þjóðleikhúsið. Þar var Glanni glæpur í burðarhlutverki en það var ein- mitt Magnús sem benti nafna sínum á leikarann sem gerði hann ódauðlegan meðal barna, systurson sinn, Stefán Karl Stefánsson. „Hann er með genin til að leika. Hafi menn þetta ekki í blóðinu er baráttan glötuð. Þú kennir ekki nokkrum manni að leika.“ Þar með var Magnús aftur kominn á fjalir Þjóðleik- hússins. Stóð þar síðast á níunda áratugnum í Rómulusi í leikstjórn Gísla Halldórssonar. „Við Gísli vorum miklir vinir og hann kallaði mig oft uppáhaldsleikarann sinn,“ segir Magnús og brosir. „En hann vissi að ég var ekki au- fúsugestur í Þjóðleikhúsinu. „Maggi minn, það mun anda köldu í bakið á þér,“ sagði hann en hvatti mig um leið til að láta það ekki á mig fá.“ Bessa sárt saknað Annar góður vinur Magnúsar var Bessi Bjarnason. „Bessi var ekki bara frábær leikari, heldur líka dásamleg mann- eskja. Hans er sárt saknað. Þegar við vorum saman með Sumargleðinni var hann alltaf að sprengja mig úr hlátri á sviðinu. Sagði eitt við mig en annað út í sal. Og ég skellihló. Þessi gleði smitaði út frá sér í salinn.“ Seinni árin hafa leikstjórar af yngri kynslóðinni sýnt Magnúsi töluverðan áhuga. Ragnar Bragason fékk hann í Áramótaskaup og Dagvaktina og Gísli Örn Garðarsson bauð honum til liðs við Vesturport í leiksýningunni Ást í Borgarleikhúsinu. „Ég byrjaði að æfa smærra hlutverk en svo hringdi Gísli óvænt í mig og bað mig að leika aðal- hlutverkið á móti einni fremstu leikkonu landsins, Krist- björgu Kjeld. Ég efaðist, get ég leikið á móti þessari dívu? Gísli sagðist hins vegar hafa trú á mér. Ég lét því til leið- ast. Ekki byrjuðu æfingar þó vel, ég skalf bókstaflega á beinunum andspænis Kristbjörgu. Gísli og meðhöfundur hans, Víkingur Kristjánsson, sáu það og drógu mig afsíðis þar sem þeir stöppuðu í mig stálinu. Ég hresstist við það og þegar upp var staðið gekk sýningin svona glimrandi vel. Alls urðu sýningarnar 95 og við hættum fyrir fullu húsi. Við fengum góða dóma í öllum blöðum og Jón Viðar gaf sýningunni meira að segja fjórar stjörnur.“ Ást er grátbroslegt verk og Magnús kveðst oft hafa heyrt fólk gráta úti í sal – sumt með ekka. „Leiklist á sviði í svona miklu návígi getur haft djúpstæð áhrif á fólk.“ Bjössa bollu-áhrifin? Magnús hefur leikið mikið í stuttmyndum nemenda við Kvikmyndaskólann á umliðnum misserum. Spurður hvort þetta séu Bjössa bollu-áhrifin að skila sér, gömlu aðdáendurnir að leita hann uppi, hlær Magnús. „Þú segir nokkuð,“ segir hann. „Það skyldi aldrei vera. Það er alla vega nauðsynlegt að leika fyrir börn, þau verða nefnilega eldri, eins og Bessi var vanur að segja. Hann vissi sínu viti.“ Enda þótt hálf öld sé langur tími er Magnús hvergi nærri hættur að leika. Um páskana munu áhorfendur Ríkissjónvarpsins berja hann augum í nýrri spennuþátta- seríu Friðriks Þórs Friðrikssonar, sem gerð er eftir glæpasögu Árna Þórarinssonar, Tíma nornarinnar. „Ég leik spilltan lögreglustjóra á Húsavík og hlakka mikið til að sjá afraksturinn. Þetta er lítið hlutverk en þó meira en fótatak í fjarska. Árni Þórarinsson hringdi nýlega í mig og þakkaði mér fyrir mitt framlag. Það gladdi mig gífurlega. Eins og ég gat um áðan ber Árni svolitla ábyrgð á þessu leiklistarbrölti í mér.“ Næsta verkefni verður svo Heimsendir, ný sería sem Ragnar Bragason mun gera fyrir Stöð 2 og gerist á geð- sjúkrahúsi. „Það er sitthvað fleira í deiglunni sem of snemmt er að tala um. Síðan langar mig mikið til að halda upp á fimmtíu ára leikafmælið á sviði. Gaman væri ef ein- hver vildi bjóða mér það!“ Spilltur lögreglustjóri á Húsavík. Þorlákur þreytti stendur undir nafni hjá Leikfélagi Kópavogs. Með systursyni sínum Stefáni Karli Stefánssyni leikara. Magnús benti nafna sínum Scheving á hann á sínum tíma. 6. mars 2011 15 Eftir að Magnús hætti að spila handbolta hljóp hann í spik. Þegar hann var þyngstur var hann hvorki meira né minna en 170 kg. Það gekk ekki til lengdar. „Ég fann að heilsan var ekki alveg í lagi,“ segir hann. „Ég svitnaði mikið á sýningum og var kominn með alltof háan blóð- þrýsting. Ég leitaði til læknis og fékk þær upplýsingar að ég væri á góðri leið með að næla mér í áunna sykursýki.“ Það var að duga eða drepast og Magnús tók sér tak. Grennti sig niður í rúm 100 kg og hefur haldið sér þar síð- an. „Þetta var gríðarlega erfitt en hvers svitadropa virði. Lífið er allt annað í dag.“ En böggull fylgdi skammrifi. „Þegar ég var búinn að grenna mig fór ég að velta vöngum: Er ég búinn að eyði- leggja karakterinn minn? Ég trúi ekki öðru en leiklist- arhæfileikarnir hafi ráðið einhverju en það er alveg klárt mál að ég hafði fengið sum hlutverk vegna þess að ég var stór og mikill. Var ég búinn að grenna mig út af mark- aðnum?“ Ótti Magnúsar var ástæðulaus. Hann hefur haft nóg að gera í seinni tíð enda þótt hann sé ekki nema hálfur maður. Þannig lagað séð. Grennti sig um sjötíu kíló „Mikið er gaman að vera frægur,“ sagði Magnús Ólafsson við Ómar Ragnarsson skömmu eftir að hann sló í gegn með Sumargleðinni. Ómar hleypti brúnum, horfði djúpt í augun á honum og svaraði: „Maggi minn, fyrir þína hönd hefði ég óskað að þú hefðir aldrei fengið að kynnast því.“ Þegar Magnús rifjar þetta upp í dag segir hann mikið til í þessu hjá Ómari. Það geti verið erfitt að vera frægur á Íslandi. „Líf mitt breyttist mikið þegar ég varð þjóðþekktur. Mér fannst athyglin óþægileg og um tíma gat ég ekki einu sinni farið út í búð með frúnni. Mér fannst allir vera að horfa á mig.“ Það voru líka hliðarverkanir. „Hörður sonur minn, sem nú er íþróttafréttamaður, var lengi í fótbolta og fékk gjarnan að heyra það hjá andstæðingum FH. Var kallaður Bjössi bolla og þar fram eftir götunum. Hann lét þetta ekkert á sig fá en mér þótti það leiðinlegt.“ Hann segir fjölskylduna alla tíð hafa staðið þétt við bakið á sér í öllu hans brölti og kann sínu fólki hjart- ans þakkir fyrir. Eiginkona hans er Elísabet Sonja Harðardóttir en auk Harðar á Magnús synina Rós- mund og Hjalta Frey og dótturina Sonju Maggý. Ekki hefur fólk alltaf kunnað að meta grínið. Einu sinni sló kona Magnús utan undir. Þegar hann spurði hvers vegna hún hefði gert það, svaraði hún hátt og snjallt: „Þú átt ekki að gera grín að feitu fólki!“ Eitt skemmtiatriði Magnúsar með Jóni Páli heitn- um Sigmarssyni á barnaskemmtunum var á þá leið að hann gaf frá sér prumpuhljóð í stað punkta og spurningarmerkja við lok setninga. Ekki hafði atriði þetta gengið lengi þegar forsvarsmaður leikskóla- mála hringdi og bað hann vinsamlega að hætta þessu. Leikskólabörn í landinu „prumpuðu“ út í eitt. „Þú átt ekki að gera grín að feitu fólki!“

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.