SunnudagsMogginn - 06.03.2011, Blaðsíða 24

SunnudagsMogginn - 06.03.2011, Blaðsíða 24
24 6. mars 2011 Þ eir röltu um þorpið eins og unglingar og rúlluðu niður litla snjóskafla af og til, það var eins og þeir væru að sýna hver öðrum hvað þeir væru miklar hetjur. Þeir voru frjálsir ferða sinna, gátu leikið sér að vild og kannað öll skúmaskot í þorpinu. Stóru sleðahundarnir eru yfirleitt alltaf bundnir með keðj- um í þorpunum. Þeir geta verið hættulegir, eru gríðarlega sterkir og hafa ráðist á börn og stórslasað þau. En litlu bóf- arnir létu sér fátt um finnast þegar þeir stóru voru að yggla sig við þá, þeir vissu hvað keðjan um hálsinn á þeim náði langt. Það virðist vera gott uppeldi á þeim, þeir fá sjálfstraust og eru glaðir í sínum heimi, þeir vita ekki að síðar verða þeir að draga þunga sleða og eru og hafa verið ómissandi fyrir samfélag inúíta um aldir. Þessir litlu prakkarar eru svo hlægi- legir að maður getur ekki annað en orðið glaður að fylgjast með þeim. Þeir minna svolítið á Bjarnarbófana í Andrésblöð- unum, það vantar bara á þá svörtu grímuna yfir augun. Þegar líður að því að stóru hundarnir fá að éta þá bíða þess- ir litlu bófar og og fylgjast vel með stóru hundunum. Stökkva svo allt í einu leiftursnöggt og rífa til sín kjötstykki, draga það nógu langt frá stóru hundunum og éta fyrir framan þá salla- rólegir. Froðufellandi af bræði urra og gelta stóru hundarnir framan í litlu ræningjana sem gæti ekki verið meira sama yfir látunum. Halda bara áfram að éta í nokkurra sentimetra fjar- lægð frá stóru hundunum. Sjálfstraustið skín úr augunum og þeim finnst þeir vera einu alvöru töffararnir á Diskóeyju. Það kemur þó fyrir að stór hundur nær til einhvers af hvolpunum og fleygir ýlfrandi hvolpinum í himinhæð. Það verður smá grátur og væl en þeir eru harðir af sér, fljótir að jafna sig og ná fyrri styrk og sjálfstrausti til að nappa af þeim stóru kjötbitunum þeirra næst þegar þeir fá að éta. Grænlenski sleðahundurinn er ótrúleg skepna, þolinn og sterkur. Þeir eru misvel þjálfaðir en góður veiðimaður þjálfar hundana sína þannig að þeir hlýða honum í einu og öllu. Þeir eru lífgjöf veiðimannsins sem verður að stóla á þá við ein- hverjar verstu aðstæður sem menn geta lent í, þegar vond veður skella fyrirvaralaust á og eins til að elta uppi ísbirni og rekja spor. Í dag er það þannig að einungis veiðimenn sem lifa ein- göngu á veiðum mega veiða ísbjörn og er kvóti settur á veið- arnar. Allt er í heiminum hverfult og breytist í tímans rás. Í fram- tíðinni verða grænlenskir sleðahundar sennilega meira svona túristahundar sem draga ferðamenn í dagstúra út á ísinn og til baka að kvöldi eða næsta dag. Veiðimönnum fækkar með hverju árinu og ísinn er að þynnast það mikið að tíminn sem hægt er að fara um á hundasleða verður styttri. Ísröndin við Scoresbysund, sem nær venjulega marga kílómetra á haf út, er nú einungis nokkra metra frá landi og fyrir nokkrum vik- um í stormi brotnaði ísinn fyrir utan þorpið og um 100 hundar drápust, klemmdust á milli ísjaka og drukknuðu. Ekkert var hægt að gera. Í mörgum ferðum um Grænland hef ég alltaf fylgst með litlum hvolpum og það er svolítið sérstakt að sjá pínulitla hnoðra í brunagaddi úti í snjónum reyna að halda lífi. Í litlu þorpi á austurströnd Grænlands fyrir nokkrum árum fór ég með veiðimanni út að ísröndinni á selveiðar að morgni og komum við heim að kvöldi. Það voru litlir hvolpar sem lágu í hnipri fyrir utan húsið og mamman reyndi eftir fremsta megni að hlúa að þeim. Einn hvolpurinn úr systkinahópnum var greinilega veikbyggðari en hinir. Litli hvolpurinn lá bein- stífur hálffrosinn í snjónum. Ég vorkenndi honum og spurði veiðimanninn hvort ég mætti reyna að fá líf í hann. Ég tók hann með mér inn í kofa veiðimannsins, gaf honum mjólk úr dropateljara og nuddaði í hann lífi. Hafði hann við heitan ofn. Litli hvolpurinn lifnaði við og leit út fyrir að hann myndi lifa. Veiðimaðurinn var ekkert sérstaklega hrifinn af þessu uppá- tæki mínu og setti hann út um morguninn hjá móður sinni og hinum hvolpunum. Um kvöldið þegar við komum til baka af ísnum var litli hvolpurinn aftur beinstífur, ég tók hann aftur inn, náði í hann lífi og skammaðist aðeins í veiðimanninum. Svona gekk þetta í fjóra daga, alltaf setti veiðimaðurinn hvolpinn út um morguninn og ég tók hann inn um kvöldið, nánast gaddfreð- inn, gaf honum mjólk og nuddaði í hann lífi á ný. Djarfir diskó- boltar Sleðahundahvolparnir á Diskóeyju á Grænlandi láta sér fátt fyrir brjósti brenna, hika ekki við að stela bitanum af stærri og sterkari hundum gefist færi. Þeir eru að- altöffararnir í bænum. Sagan bak við myndina Ragnar Axelsson rax@mbl.is

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.