SunnudagsMogginn - 06.03.2011, Blaðsíða 47

SunnudagsMogginn - 06.03.2011, Blaðsíða 47
6. mars 2011 47 Þ að er allt á rúi og stúi heima hjá rithöfundinum Yrsu Sigurðardóttur þegar blaðamann ber að garði. Það er enn verið að setja saman innrétt- ingarnar í eldhúsið, stofan er undirlögð af timbri og verkfærum, það rétt grillir í húsgögn og tæki undir plasti – og samt stendur til að flytja inn daginn eftir! Það þarf eiginlega rithöfund eða að minnsta kosti mjög skapandi einstakling til að skrifa þær málalyktir í söguna. „Við höfum búið í íbúð sem sonur minn á, en það er búið að leigja hana út frá morgundeginum,“ segir Yrsa. „Ég veit ekki hvernig þetta verður; ég er orðin ýmsu vön í þessu stússi.“ Hún hristir höfuðið. „Það hafði gengið ágætlega að búa í þessari 80 fermetra íbúð, þar til maðurinn minn og sonur minn hættu á sama tíma að reykja – skapsveiflurnar!“ segir hún og hlær. „En maðurinn minn er byrjaður aftur, þannig að þetta horfir til betri vegar.“ Yrsa sviptir plastinu af tveim sófum, ýtir þeim í sundur og býður blaðamanni til sætis. Ekkert hik, gengið beint til verks, enda starfar hún sem verkfræðingur og sinnir rit- störfum meðfram því! „Mér finnst það ekkert erfitt í sjálfu sér. Ég hugsa að það fóðri skriftirnar á vissan hátt. Ef ég myndi hætta sem verkfræðingur, þá myndi ég ekki skrifa neitt; ég hefði svo mikinn tíma, að ég myndi bara skrifa á morgun! Og ég myndi missa af mannlegum samskiptum, sem ég fæ ekki í gegnum skrifin. Mér hentar þetta fyrirkomulag afar vel, en ég segi ekki að það gangi fyrir alla höfunda eða allar gerðir bóka. Sumir misskilja þetta og halda að ég sé á móti lista- mannalaunum, en svo er alls ekki. Við erum öll svo ólík, sem betur fer. Mér finnst þetta fínt fyrirkomulag, en ég átta mig alveg á að þetta er ekki eina leiðin. Stundum er ég að deyja úr vöðvabólgu og velti því fyrir mér, af hverju ég standi í þessu. En það beinist þá að skrifunum – ekki verkfræðivinnunni. Verkfræðin er það sem mig langaði að fást við og ég er ekki til í að fórna henni – ég bara tími því ekki!“ – Þú komst að framkvæmdaeftirliti við gerð Kára- hnjúkavirkjunar, sem hefur verið umdeild, ekki síst meðal rithöfunda. Hvernig var þín upplifun af því? „Allt önnur!“ svarar hún. „Ég horfi á þetta frá allt öðru sjónarhorni. Maður vill ekki segja: Sagði ég ekki? En þegar horft er til framtíðar er talað um að Landsvirkjun verði farin að skila milljarði dollara í hagnað á ári eftir tvo til þrjá áratugi, þegar virkjanirnar hafa verið greiddar. Sá peningur fer út í íslenskt þjóðfélag, Lands- virkjun er í eigu okkar, og það mun létta framtíðarkynslóðum róðurinn – á meðan allt þetta bankaplebbarugl skilar engu nema óhamingju og skuldum. Það tapaðist auðvitað eitthvað þegar lónið varð til, að mínu mati er það minna en ávinningurinn fyrir þjóðina, en ég átta mig á að það er erf- itt að segja af eða á í þeim efnum – það er svo óljóst með þyngdina á því sem tapast og niðurstaða vogarskálanna því ekki ótví- ræð. Þetta er hins vegar mín afstaða þótt ég myndi ekki rífast um hana við aðra þar sem hún er ekkert endilega sú eina rétta.“ – Þú hefur talað um að þú gerir drög að framvindunni í bókum þínum í excel! „Já, ég sé reyndar eftir að hafa nokkurn tíma sagt það, því ég hef verið spurð hvort ég sé höfundurinn sem skrifi bækurnar í excel. En ég nota það til að halda utan um þræði. Ekkert á flókinn hátt, heldur nota ég flipana undir kaflauppbrot, minnispunkta og fleira. Þetta snýst meira um flipana en formúluna.“ – En liggur uppbyggingin fyrir þegar þú hefst handa við skriftir? „Það er misjafnt. Ég veit hvar ég ætla að byrja og hvar ég ætla að enda. Og reyni að vita nokkurn veginn hvaða leið ég fer frá a til b, en hún tekur breytingum á meðan ég skrifa. Ég bæti við hliðarvinklum og geri í því að flækja söguþráðinn fyrir sjálfri mér. Það er kosturinn við að skrifa á tölvu, að maður getur farið fram og til baka í skjalinu og breytt því. Í því felst nokkur vinna, ef ég þarf að breyta því sem á undan var komið, aðlaga það breyt- ingum sem bókin tók á skriftartímanum, og þá kemur excel sér vel – til að passa að það gleymist ekki.“ – Skilurðu aldrei eftir lausa enda? „Fólk hefur sagt mér að það sé svolítið af þeim í nýjustu sögunni minni. Upphaflega þegar ég skrifaði hana var endirinn miklu útfærðari og í meiri smáatriðum, en eftir ráðleggingar frá ritstjóranum tónaði ég það niður og hafði hann opnari. Það hentar þessari bók, en ég veit ekki hvort fólk yrði þakklátt fyrir það í glæpasögu að vita ekki allt.“ – Ertu ekkert hrædd um að úthýsa skáldskapnum úr excelskjalinu? „Ég spái ekkert í svoleiðis. Enda eru stílfæringar ekki mín sterka hlið skilst mér. Formið sem hentar mér er mun jarðbundnara og ég get ekki bara skrifað út í loftið. Það á ekki síst við glæpasög- urnar, þar sem það verður að vera ástæða fyrir öllu. Þegar fundið er út úr tildrögum hörmulegs atburðar, þá getur maður ekki leyft sér að fara á algerlega órætt flug, það verður að hafa í huga hvert á að fara með söguna.“ – Svo rannsókninni vindi fram? „Já, þetta snýst ekki bara um manneskju, þróun á til- finningum og samböndum, eins og í fagurbókmenntum, heldur atburði og greiningu sem þróast út frá glæp sem þarf að leysast í lok sögunnar og þarf að flækjast á leið- inni. Ef þú kemur með glæp og ferð út í móa með söguna á miðri leið, þá held ég að þú endir í ógöngum.“ – Nema bókin sé bara þeim mun lengri? „Eða fléttan þeim mun fyrirferðarminni.“ – Gagnrýnandi Times segir að þér takist að skapa þrúgandi andrúmsloft og spennu reglulega í sögunum. „Þetta er það sem ég á við með að flækja atburðarásina á leiðinni, setja söguna og persónurnar í óvænta klípu, það gerir mér erfiðara fyrir að útskýra og leysa gátuna, en gerir söguna jafnframt skemmtilegri aflestrar. En þegar ég set slíkar fyrirstöður inn, þá staldra ég við og átta mig á hvernig best sé að leysa úr þeim, áður en ég held áfram að skrifa. Það líður kannski heill dagur á meðan ég finn út úr því, hvernig í andskotanum ég ætla að leysa þetta.“ Svo finnur hún eina auða borðið í húsinu og stillir sér upp fyrir ljósmynd. Texti Pétur Blöndal pebl@mbl.is Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson kring@mbl.is Síðasta orðið… Yrsa Sigurðardóttir Geri í því að flækja söguþráðinn ’ Verkfræðin er það sem mig langaði að fást við og ég er ekki til í að fórna henni.

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.