SunnudagsMogginn - 06.03.2011, Blaðsíða 18

SunnudagsMogginn - 06.03.2011, Blaðsíða 18
18 6. mars 2011 V ið gátum farið heim og náð í fötin okkar og húsið stendur enn, en það er skemmt enda stutt frá upptökum skjálftans. Við gætum ekki búið þar aftur á næstunni og börnin mín vilja reyndar alls ekki flytja aftur í húsið. Ég er búin að lofa þeim að við munum ekki gera það,“ segir Erika Lind Isaksen frá Akureyri sem búsett er í Christchurch á Nýja-Sjálandi. Eftir stóra jarðskjálftann þar á dögunum treystir fjölskyldan sér ekki til að vera undir eigin þaki en hefur sem betur fer í önnur hús að venda. Hjónin Erika Lind, Paul George og börn þeirra þrjú fluttu frá Akureyri til Christch- urch, heimaborgar Pauls, í janúar í fyrra. Tvíburarnir Dillon Þorsteinn og Sunna Rae eru 15 ára en Leon Ingimundur sex ára. Fjölskyldan er heil á húfi og það eitt skiptir máli, segir Erika. „Það fyrsta sem ég hugsaði um þegar jarðskjálftinn varð voru börnin mín. Ekkert annað komst að í huga mér.“ Erika var á heimili tengdamóður sinnar þegar skjálftinn reið yfir. „Hér varð stór skjálfti í september og við trúðum því hreinlega ekki að þetta væri að gerast aft- ur. Það eina sem ég man eftir er svipurinn á mömmu Pauls og systur hans.“ Rokið var út í bíl og ekið í loftköstum heim til Eriku þar sem eldri sonurinn var einn. „Þegar við vorum farin aftur út í bíl kom annar skjálfti, um það bil 6 á Richter, bíllinn hoppaði og við sáum húsið sveiflast til.“ Ekki hlaupið jafnmikið á ævinni Næsta skref var að ná í yngri soninn í skólann. „Þar sátu öll börnin úti á fót- boltavelli, mörg hágrátandi. Það fyrsta sem sá litli minn sagði var: Ég vil fara heim til Íslands! Og það sagði dóttir mín líka þegar ég fann hana.“ Skóli Leons Ingimundar skemmdist lít- ið. Húsið er vel byggt en í sumum öðrum hverfum eru skólarnir rústir einar, segir Erika. Skóli tvíburanna er í miðbænum. Dillon Þorsteinn var heima sem fyrr segir en Sunna Rae í skólanum. Erika vissi ekki að vegna kennarafunda var ekki kennsla á þessum tíma og dóttir hennar hafði farið í bæinn ásamt vinkonum sínum. Erika greip því í tómt þegar hún kom að skól- anum. „Það var umferðaröngþveiti og ekki hægt að keyra alla leið í bæinn þannig að við hlupum. Ég hef ekki hlaupið jafn- mikið á ævinni og þennan eina dag!“ Sunna Rae fannst ekki fyrr en þremur tímum síðar. „Við sendum sms og reynd- um að hringja en kerfið virkaði ekki en við hlupum áfram, framhjá strætisvögnum í klessu og hrundum húsum. En svo fund- um við hana ásamt hópi fólks í hrærigraut í öðrum tveggja garða þar sem fólki hafði verið smalað saman.“ Erika segir dóttur sína hafa fengið áfallahjálp, en hún beri sig vel. „Hún var á því svæði þar sem rústirnar eru mestar en var sem betur fer á strætóstöð þegar skjálftinn varð, nýlegu húsi sem ekki hrundi. En hún gekk af stað í rústunum og framhjá fólki sem ekki var lengur á meðal okkar.“ Það er ekki reynsla sem unglingar ættu að ganga í gegnum um, segir móð- irin. Fyrstu nóttina eftir skjálftann var fjöl- skyldan heima, en engum kom dúr á auga. „Við ákváðum því að fara burt strax dag- inn eftir – og höfum séð mikið af Nýja- Sjálandi síðan.“ Fyrst heimsóttu þau Erika fjölskyldu sem hún dvaldi hjá sem skiptinemi árið 1985. Þar voru þau í tvær nætur en héldu svo för sinni áfram og komu í fyrradag til borgarinnar Nelson, sem er nyrst á syðri eyjunni. Búa hjá vinum sínum, nýsjá- lenskum hjónum sem bjuggu um tíma á Íslandi, og börnin byrja í skóla í Nelson á mánudaginn. „Við erum mun betur sett en margir aðrir. Fólk í fátækrahverfum bæjarins fór til dæmis mjög illa út úr þessu,“ segir Erika þegar ber á góma að vinir hennar á Akureyri standa í dag, laugardag, fyrir samkomu í Ketilhúsinu til styrktar fjöl- skyldunni. „Mér finnst mestu máli skipta ef fólk hugsar fallega til mín. Ef fólk hittist að máli og á góða stund saman skiptir það mig meira máli en peningar. En ég er óendanlega þakklát þeim vinum mínum sem hafa verið að vinna að þessu, þótt ég færi eiginlega hjá mér þegar ég heyrði af því. Þessir dugnaðarforkar þarna heima eru búnir að halda mér gangandi síðustu daga,“ segir hún. Óvissan er mikil og fjölskyldan veit í raun ekkert hvert næsta skref verður. En ekki stendur til að koma til Íslands. „Við vitum bara ekki neitt. Auðvitað langar mig að komast heim til að knúsa alla. En við erum að reyna að átta okkur á tilver- unni og verðum að hugsa málið til að taka réttar ákvarðanir. Mestu máli skiptir að börnunum líði vel.“ Gríðarlegar skemmdir urðu víða í Christchurch í skjálftanum og ástandið enn víða slæmt. Myndin er tekin í miðborginni í vikunni. Reuters Öll heil á húfi og eigum enn fötin okkar … Erika Lind Isaksen frá Akureyri leitaði í þrjá klukkutíma að 15 ára dóttur sinni sem var í miðbæ Christchurch þegar stóri skjálftinn reið yfir á dögunum. SkaptiHallgrímsson skapti@mbl.is Erika Lind, Paul George og börnin, Dillon Þorsteinn og Sunna Rae og Leon Ingimundur. ’ Auðvitað langar mig að komast heim til að knúsa alla. En við er- um að reyna að átta okkur á tilverunni og verðum að hugsa mál- ið til að taka réttar ákvarðanir. Mestu máli skiptir að börn- unum líði vel.

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.