SunnudagsMogginn - 06.03.2011, Blaðsíða 17

SunnudagsMogginn - 06.03.2011, Blaðsíða 17
6. mars 2011 17 verið í Egyptalandi. Þess vegna var þessi uppreisn ófyrirsjáanleg, henni var ekki stjórnað af stjórnmálaflokki eða hreyf- ingu, það var bara fólkið í landinu sem fékk nóg. Það er ekki hægt að stöðva heila þjóð – það er ekki hægt að fangelsa alla. Þess vegna gátu stjórnvöld ekki stöðvað mótmælin. Það var enginn stjórn- málaleiðtogi í fararbroddi sem stýrði mót- mælunum og því vil ég kalla þetta bylt- ingu fólksins,“ segir Omar. Hann segir margt þurfa að breytast í Egyptalandi til þess að friður og sátt geti ríkt í landinu á ný. Aðalkrafan hafi verið sú að forsetinn myndi víkja og að stjórn- inni yrði skipt út. Hann er ánægður með þróun mála og vongóður um að kosningar muni leiða til breyttra stjórnarhátta. „Forseti sem situr í 30 ár er ekkert annað en einræðisherra,“ segir Omar. „Þess vegna var krafa fólksins um að breytingar verði gerðar á stjórnarskrárgreinum 76 og 77 svo hávær. Þær kveða á um hversu lengi forseti megi sitja, sem var í ótak- markaðan tíma, en hefur nú verið breytt í kjölfar byltingarinnar.“ Omar tekur skýrt fram að hann beri virðingu fyrir Mubarak og bendir á að hann hafi gert margt gott fyrir landið. „Sérstaklega á 8. áratugnum, sem yf- irmaður flughersins í októberstríðinu gegn Ísrael. En fólk breytist með tím- anum, sérstaklega fólk sem er svona lengi við völd. Það finnur til valdsins og gleymir fólkinu sem það á að þjóna.“ Í ljós hefur komið að forsetafjölskyldan hefur sankað að sér gífurlegum fjár- munum. „Ég las um daginn að hún ætti 40 til 70 milljónir; ég man ekki hvort það voru dollarar eða evrur enda skiptir það engu máli, þetta er svo há upphæð að hún dugar til að greiða megnið af skuldum landsins. Það hefur ríkt mikil spilling í allri stjórnsýslunni, verið mikið um mútuþægni og slíkt. Faðir minn ætlaði t.d. að senda mér námsbækur hingað frá Egyptalandi og það gekk mjög erfiðlega. Þrátt fyrir að hafa greitt eðlileg sending- argjöld gerðist ekki neitt, bækurnar högg- uðust ekki. Honum var sagt að þetta myndi taka allt að tvo mánuði, nema hann borgaði aukalega. Svona virkaði kerfið,“ segir Omar og fær ekki varist brosi. 40% undir fátæktarmörkum „Efnahagur í Egyptalandi hefur ekki verið góður, þrátt fyrir að ég lesi um það í skólabókum hér að hagkerfið sé mjög sterkt. Það er satt, hagkerfið er sterkt en misskipting auðs er að aukast. Þeir ríkustu verða ríkari og þeir fátæku fátækari. Næstum 40% Egypta lifa undir fátækt- armörkum, sem þýðir að þeir þurfa að draga fram lífið á 300 krónum á dag. Það á að duga fyrir fötum, mat, húsnæði, ferða- máta, heilbrigðisþjónustu og öðru. Ég er viss um að flestir aðrir landsmenn eru rétt yfir þessum mörkum og svo eru það 5% fólksins eða þeir ríkustu sem öllu stjórna.“ Omar nefnir sem dæmi auðjöfurinn Ah- med Ezz. „Hann er stærsti stálframleið- andi í landinu og er nánast einráður á markaðnum. Stundum gat verðið á stáli hækkað um 20 til 50 þúsund krónur á hvert tonn, bara á einum degi. Ég veit þetta af því að bróðir minn er verkfræð- ingur. Hann er með eigin verkfræðistofu og þarf að fást við þetta.“ Það er mikið atvinnuleysi í Egyptalandi og flestir þeirra sem eru atvinnulausir eru undir 30 ára aldri, sem þýðir að þeir hafa aldrei haft annan forseta en Mubarak. Sjálfur var Omar bara nokkurra mánaða gamall þegar Mubarak tók við forseta- embætti. „Verðlag hefur hækkað gífurlega í Egyptalandi undanfarið, sérstaklega verð á mat. Það var því ekki furða að fólki skyldi vera nóg boðið. Við þurfum að sjá breytingar á stjórnmálum og fjármálum í landinu. Spillingunni verður að linna. Við erum að upplifa í fyrsta skipti baráttu fólksins fyrir frelsi og betra lífi. Þetta mun taka langan tíma og verður erfitt en það hafa nú þegar orðið miklar breytingar. Þegar ég talaði við vini mína í Egyptalandi, meðan mótmælin stóðu sem hæst, þá ríkti mikil hamingja og gleði,“ segir Omar og það birtir yfir honum. „Fólkið finnur fyrir meira frelsi, meiri samfélagsábyrgð og lætur sig landið sitt meira varða. Þá á ég við venjulega borgara. Það er mikið af góðu fólki sem reynir að láta gott af sér leiða. Ég hef séð myndir af fólki reyna að stjórna umferðinni og sjá til þess að hún gangi vel fyrir sig. Umferðinni í Egyptalandi er að miklu leyti stjórnað af lögreglumönnum, þetta er ekki eins og hér á Íslandi þar sem alls staðar eru um- ferðarljós. Þar sem lögreglan var ekki að sinna þessu á meðan mótmælin stóðu yfir, tóku sjálfboðaliðar það að sér – og líka að sópa göturnar. Vel menntað fólk sem vildi gera þetta af því það fann til meiri ábyrgð- arkenndar. Ég held að áður fyrr hefði eng- inn gert slíkt. Þeim fannst landið ekki vera þeirra en nú er það gjörbreytt.“ Jákvæðar breytingar Omar segir mikilvægt að lögreglan ávinni sér traust fólksins í landinu. „Lögreglan hefur staðið sig mjög illa, líka áður en mótmælin brutust út. Almenningur er hræddur við lögregluna. Ef eitthvað bját- aði á veigraði fólk sér við að leita til lög- reglunnar. Það er mjög slæmt fyrir sam- félagið ef trú og traust á lögregluna hefur glatast,“ segir Omar og er mikið niðri fyr- ir. „Þess vegna glöddust mótmælendur þegar herinn kom. Við erum ekki vön að sjá hermenn innan borgarmarkanna og það þótti traustvekjandi þegar herinn mætti á Tahrir-torg.“ Omari finnst að bandamenn Egypta- lands frá Vesturlöndum, sérstaklega Bandaríkjunum, hefðu mátt sýna þjóðinni meiri stuðning. „Mubarak var sá þjóð- höfðingi Mið-Austurlanda sem hafði hvað sterkustu böndin við Bandaríkin. Það var augljóst að þeir vildu ekki sleppa sínum manni svo auðveldlega,“ segir Omar. Hann minnist yfirlýsingar Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á fyrsta degi mótmælanna. „Þá sagðist hún treysta egypskum stjórnvöldum og var ekki reiðubúin til að lýsa yfir stuðningi við fólkið. Það var ekki fyrr en löngu seinna að Bandaríkjamenn sögðust styðja til- færslu valdsins frá Mubarak til annarra.“ Omar segist ekki vita hvern hann vilji sjá taka við forsetaembættinu. Hann er þó viss um að Suleiman varaforseti njóti ekki fylgis almennings og á ekki von á að Bræðralag múslima muni bjóða fram for- setaefni. Þeir hafi enda gefið út yfirlýsingu þess efnis. „Við erum 80 milljóna manna þjóð, einhver hlýtur að geta verið forseti. Ég vil að allir hafi jöfn tækifæri til að taka þátt í að stjórna landinu. Ég vil ekki úti- loka neitt. Ef meirihluti Egypta vill að Bræðralagið taki við völdum þá ætti það að vera svo. Það verður að virða vilja fólks- ins.“ Omar er bjartsýnn á framtíð þjóð- arinnar. „Ég finn vinda frelsis og breyt- inga, þrátt fyrir að ég sé um 5.000 km frá Egyptalandi, þá finn ég það mjög sterkt. Ég hefði viljað geta tekið þátt í mótmæl- unum. Ég hef þó fengið svo margar myndir og myndbönd send frá torginu að mér hefur liðið eins og þátttakanda í bylt- ingunni.“ Þrátt fyrir að nú fari miklar jákvæðar breytingar í hönd í föðurlandi Omars er hann viss um að á Íslandi sé hans framtíð- arheimili. „Mér líður vel hér og líkar veðr- ið sérstaklega vel. Fólk trúir mér ekki þegar ég segi þetta, en í Egyptalandi er sólskin allan ársins hring. Það versta er þó að loftið þar er svo mengað, sérstaklega í Kaíró. Hér er loftið svo dásamlega hreint, og ég elska snjóinn og veðrabrigðin.“ Om- ar hefur lagt sig fram við að læra íslensku og telur íslensku vera móðurmál sonar síns, Adams. „Ég finn til mikils öryggis á Íslandi. Ég hef ferðast um allan heim og hvergi annars staðar séð lögreglu sem ekki ber byssur. Fólkið hér er svo vingjarnlegt og hjálplegt. Hér vil ég vera.“ Reuters Hermaður skrifar stuðningskveðjur við breytingar á stjórnarfari í Egyptalandi á skyrtu manns á Tahrir-torgi í Kairó. 30 ár undir stjórn Mubaraks heyrðu sögunni til. Það fór fram sigurganga um allt Egyptaland til að fagna afsögn Mubaraks, standa vörð um byltinguna og minna nýja yfirmenn hersins á afl fjöldans. Hundruð þúsunda tóku þátt í há- tíðahöldunum, en þar var einnig minnst þeirra 365 sem létu lífið í 18 daga mótmælunum. Börn stilla sér upp fyrir myndatöku og ógnin horfin úr skriðdrekanum.

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.