SunnudagsMogginn - 06.03.2011, Blaðsíða 30

SunnudagsMogginn - 06.03.2011, Blaðsíða 30
30 6. mars 2011 Í síðustu viku birtist athyglisvert viðtali í Bændablaðinu við ung hjón, Hrefnu Hafsteinsdóttur og Jón Grétarsson á Hólum í Sæ- mundarhlíð í Skagafirði. Þau voru með afurðamesta kúabú á landinu á síðasta ári. Sá árangur náðist að sögn blaðsins í „hefðbundnu gömlu fjósi með brautar- mjaltakerfi en ekki nýtízku hátæknifjósi með „róbót“ eða mjaltaþjóni og öllu til- heyrandi“. Bæði hafa þau aflað sér menntunar, Hrefna á Hólum en Jón á Hvanneyri. Hvernig ná þau þessum góða árangri? Hrefna segir: „Það er búið að skoða allt fóður og maður veit því nákvæmlega hvað maður er að gefa þeim. Kýrnar verða því hraust- ar og rétt fóðraðar. Það eru t.d. engar kýr feitar hjá okkur og ekki heldur horaðar. Við höfum því hitt rétt á gjöfina þetta ár- ið og það gekk allt upp.“ Jón segir: „Við efnagreinum heyin og setjum þær upplýsingar inn í norska fóðurmatskerfið NorFor en þetta er þriðja árið í röð, sem við tökum þátt í því. Kerfið reiknar síðan út í hvaða hlutföllum á að gefa hey á móti kjarnfóðri og byggi. Það hefur komið mjög vel út. Þá erum við með mjög fjöl- breytt fóður handa kúnum og gefum þeim t.d. grænfóður allan ársins hring, bæði innistöðutímann og þegar þær eru úti. Eins höfum við líka gefið þeim bygg allan ársins hring.“ Í Bændablaðinu segir: „Þau hjón rækta allt sitt bygg sjálf og sá í um 16 til 17 hektara á hverju ári. Af því fást um 160 sekkir, sem er meira en þörf er á fyrir búið.“ Jón segir: „Síðan pössum við mjög vel upp á steinefnin og gefum þeim steinefnastauta fyrir burð. Þannig sluppum við algerlega bæði við doða og súrdoða í fyrra. Þá gefur það auðvitað meiri nyt í heildina, þegar kýrnar eru heilbrigðar eftir burð og nytin fellur ekkert. Það skiptir því miklu máli að þær séu hraustar.“ Og ennfremur: „Gæði fóðursins skipta mjög miklu máli. Að slegið sé á réttum tíma og að verkunin sé góð. Áburðargjöfin hefur því mikið að segja og þar höfum við notið leiðsagnar ráðunautarins. Við berum skít á öll tún á haustin og á vorin og gefum honum upp hvað við berum mikið á. Hann skoðar það síðan og bendir okkur á hvernig áburð við eigum að nota, hversu mikið og hvar.“ Loks segir í Bændablaðinu: „Jón segir að tölvunotkun í rekstrinum sé stöðugt að aukast … „Það er mikill munur að geta t.d. fengið upplýsingar og efnamælingar úr sýnatökum og geta þannig haft betri yfirsýn yfir heilsufarið hjá kúnum. Það skiptir líka mjög miklu máli að geta notið liðsinnis ráðunauta.““ Þetta er skemmtileg saga af búskap- arháttum ungra, vel menntaðra hjóna í upphafi 21. aldar, sem nýta jörðina, menntun sín og þekkingu og nýja tækni þar á meðal tölvutækni til þess að ná bezta árangri í búrekstri sínum. Þetta er líka dæmisaga um það hvernig við Íslendingar eigum að byggja samfélag okkar og þjóðarbúskap upp á ný eftir hrun, sem var ekki bara fjárhagslegt hrun, heldur hrun lífsviðhorfa og lífs- stíls, sem illu heilli hafði rutt sér til rúms í glasaglaumi velgengninnar. Við eigum að leggja áherzlu á að nýta landið okkar vel og þær auðlindir, sem það býr yfir og hafið í kring. Þegar saman fer auðlind náttúrunnar, vel menntuð þjóð og ný tækni eru okkur allir vegir færir eins og ungu hjónin á Hóli í Sæ- mundarhlíð í Skagafirði hafa sýnt fram á með búskaparháttum sínum. Þau vaka yfir smáu og stóru. Þau eru að yrkja sömu jörð og forverar þeirra í sveitum landsins fyrir 100 árum og fyrir 50 árum. Þau hafa menntunina fram yfir sveitafólkið fyrir 100 árum og tölvutæknina fram yfir sveitafólkið fyrir 50 árum. Þau nýta vel það, sem þau hafa. Skítinn á túnið. Nýja möguleika í kornrækt. Og tölvutækni til þess að tryggja rétta fóðurgjöf. Íslenzka þjóðin er í sömu stöðu. Núlif- andi kynslóð Íslendinga hefur það fram yfir forvera sína í þessu landi að vera bet- ur menntuð, búa yfir meiri þekkingu og ráða yfir nýrri tækni, sem gjörbreytir möguleikum fólks. Hún þarf að rækta garðinn sinn vel með því hugarfari sem einkennir búskapinn á Hóli. Með bú- skaparháttum sínum hefur þeim Hrefnu Hafsteinsdóttur og Jóni Grétarssyni tek- izt betur að vísa íslenzku þjóðinni leiðina til nýrrar farsældar í verki en kjörnum forystumönnum þjóðarinnar hefur auð- nazt í orði. Í grunninn erum við bændur og fiski- menn og búum á afskekktri eyju. Við eig- um ekki að reyna að flýja þann uppruna okkar heldur þvert á móti meta hann að verðleikum. „Þrátt fyrir allt varð hann aldrei annað en fátækur maður meðal auðugra …“ sagði Sigurður Nordal um Grím Thomsen. Við verðum aldrei annað en þau sem við erum og eigum ekki að skammast okkar fyrir það heldur vera stolt af því. Glasaglaumur goðmundanna á glæsi- völlum samtímans er ekki eftirsókn- arverður fyrir okkur eins og reynslan hefur kennt okkur. Við erum ekki bara erfðafræðilega skyld þjóðunum, sem búa við Norður-Atlantshaf heldur erum við andlega skyld Norðmönnum, Skotum, Írum, Færeyingum og Grænlendingum og eigum að auka og efla tengsl okkar við þær þjóðir. Þessa stundina getum við lært meira um það hvernig við eigum að reka þjóð- arbúskap okkar með því að fara norður í Skagafjörð og litast þar um í litlu fjósi heldur en að leita til „álitsgjafa“ samtím- ans í fjölmiðlum og háskólum sem höfðu eina skoðun fyrir hrun og aðra eftir hrun og finnst það sjálfsagt. Kúabúskapur í Skagafirði og íslenzka þjóðarbúið Af innlendum vettvangi … Styrmir Gunnarsson styrmir@mbl.is Á þessum degi fyrir 44 árum gekk 41 árs gömul sovésk kona inn í sendiráð Bandaríkjanna í Nýju-Delí og sótti um pólitískt hæli. Sendi- herrann þurfti ekki að hugsa sig um tvisvar, hann varð við beiðninni. Það sem sætti stærstum tíð- indum í þessu sambandi var sú staðreynd að kona þessi, Svetlana Alliluyeva, er dóttir hins alræmda fyrrverandi leiðtoga Sovétríkjanna, Jósefs Stalíns. Alliluyeva hafði fengið leyfi hjá yfirvöldum í heima- landi sínu til að fara til Indlands með ösku ástmanns síns, Brajesh Singhs, sem látist hafði skömmu áður af völdum lungnaþembu. Samband þeirra skötuhjúa var umdeilt og fengu þau til að mynda aldrei að eigast. Eigi að síður leit Alliluyeva á Singh sem eiginmann sinn. Indverjar höfðu takmarkaðan húmor fyrir málinu, óttuðust refsiaðgerðir af hálfu Sovétríkjanna, og fyrir vikið var Alliluyeva bókuð í næsta flug til Rómar. Þaðan fór hún beint til Genfar, þar sem stjórnvöld útveguðu henni dvalarleyfi í sex vikur. Að þeim liðnum komst Al- liluyeva loks á leiðarenda til Bandaríkjanna. Við komuna til New York efndi Alliluyeva til frétta- mannafundar, sem var sjónvarpað um heim allan, þar sem hún fordæmdi stjórnarhætti föður síns og ráða- manna í Sovétríkjunum eftir hans dag. Stalín gaf upp öndina árið 1953. Málið vakti að vonum heimsathygli og ráðamönnum í Kreml var ekki skemmt. Úr hófi keyrði svo þegar Alliluyeva upplýsti að hún ætlaði að gefa endurminningar sínar út á fimmtíu ára æfmæli októberbyltingarinnar þá um haustið. Sovésk yfirvöld hótuðu öllu illu, meðal annars að gefa sjálf út óopinbera ævisögu Alliluyevu. Málamiðlunin var sú að Alliluyeva flýtti útgáfu bókar sinnar til að skyggja ekki á afmælið. Bækur hennar urðu á endanum tvær og synd væri að segja að þar sé dregin upp fögur mynd af Stalín og stjórnarháttum hans. Í miðju kalda stríðinu þóttust ráðamenn á Vesturlöndum hafa himin höndum tekið enda var ófrægingarhernaður stundaður grimmt á báða bóga. Fátt var sterkara en saga úr innsta hring. Svetlana Iosifovna Alliluyeva fæddist árið 1926, yngsta barn Stalíns og eina dóttirin. Móðir hennar var Na- dezhda Alliluyeva, önnur eiginkona leiðtogans. Hún dó við dularfullar aðstæður árið 1932, þegar Svetlana var sex ára. Sumir segja hana hafa fyrirfarið sér en aðrir að Stalín hafi myrt hana eftir heiftúðugt rifrildi. Alliluyeva átti einn albróður, Vasilíj Dzhugashvili. Hann braust til frama innan sovéska hersins en átti erfitt uppdráttar eftir lát föður síns og sat um tíma í fangelsi í Sovétríkjunum. Vasilíj mun hafa drukkið sig í hel 1962. Stalín átti tvo eldri syni, Jakov Dzhugashvili, með fyrstu eiginkonu sinni, Ekaterínu Svanidze, og Konst- antín Kuzakov, sem kom undir utan hjónabands. Leiðtoginn hafði lítið álit á Jakov og frægt var þegar drengurinn skaut sig eftir deilu við föður sinn. Þegar ljóst var að hann myndi halda lífi mælti Stalín: „Hann kann ekki einu sinni að skjóta almennilega!“ Jakov bar beinin í fangabúðum nasista í Sachsenhausen 1943. Konstantín starfaði lengi fyrir Kommúnistaflokkinn en kynntist föður sínum aldrei. Hann lést 1996, 85 ára. Alliluyeva átti löngum í stormasömu sambandi við föður sinn. Fyrstu ástina í lífi hennar, kvikmyndagerð- armanninn Aleksei Kapler, sendi Stalín í Gúlagið, þar sem hann dvaldist í vondu yfirlæti í áratug. Mögulega hefur það pirrað leiðtogann að stúlkan var sextán ára en ástmaðurinn fertugur. Fyrsta eiginmann dóttur sinnar, Grigoríj Morozov, hitti Stalín aldrei – bar við annríki. Hann kunni betur við eiginmann númer tvö, Júríj Zhda- nov, enda sonur náins samverkamanns. Þau skildu. Í Bandaríkjunum gekk Alliluyeva að eiga Wes nokk- urn Peters – og tók sér um tíma nafnið Lana Peters – en skildi við hann. Hún flutti aftur til Sovétríkjanna 1984 en býr nú í Bandaríkjunum, 85 ára að aldri. orri@mbl.is Dóttir Stalíns flýr land Svetlana Alliluyeva nokkru eftir að hún flúði vestur um haf. ’ „Hann kann ekki einu sinni að skjóta almennilega!“ Alliluyeva níu ára ásamt föður sínum Jósef Stalín. Á þessum degi 6. mars 1967

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.