Fréttablaðið - 17.12.2011, Qupperneq 58
17. desember 2011 LAUGARDAGUR58
Alheimurinn festur á mynd
Ár hvert eru milljónir ljósmynda teknar af undrum alheimsins, hvort sem það er af áhugafólki um stjörnufræði, vísindamönnum
eða vélvæddum sendiherrum okkar í geimnum. Með vali sínu á þeim myndum sem þeir telja framúrskarandi fallegar eða merki-
legar hafa aðstandendur Stjörnufræðivefsins náð að sannfæra Svavar Hávarðsson um að þeir horfi til himins með næmu auga.
MYND ÁRSINS AÐ MATI STJÖRNUFRÆÐIVEFSINS Norðurljósin eru ekki aðeins glæsileg að sjá af jörðu niðri heldur einnig utan úr
geimnum. Hér sést reyndar hliðstæða þeirra, suðurljósin, eins og þau birtust geimförum í Alþjóðlegu geimstöðinni þegar þeir
þutu yfir Indlandshaf 17. september 2011. Suðurljósin eru í um það bil 100 kílómetra hæð en geimstöðin mun ofar, í um 350
kílómetra hæð. Norður- og suðurljósin verða til við árekstra hraðfleygra rafhlaðinna agna frá sólinni við sameindir í lofthjúpi
jarðar. Í þessu tilviki kviknuðu ljósin í kjölfar kórónuskvettu sem varð á sólinni þremur dögum fyrr. Litadýrðina má rekja til mis-
munandi sameinda í lofthjúpi jarðar sem gefa frá sér ljós með tilteknum lit þegar agnir sólvindsins örva þær. Súrefnissameindir
gefa frá sér grænan bjarma, hvítan eða rauðan en nitur bláan eða fjólubláan. MYND/IMAGE & SCIENCE LABORATORY, NASA JOHNSON SPACE CENTER
SÓL VERÐUR TIL Stjörnur verða
til í gas- og rykskýjum. Á
lokastigum myndunar sinnar
hrista þær stundum ærlega upp
í hreiðrum sínum, eins og sést
á þessari mynd Hubble-geim-
sjónaukans. Svæðið heitir S106.
Það er tvö ljósár á breidd, sem
er um það bil hálf fjarlægðin
milli sólar og næstu sólstjörnu.
Í miðjunni lúrir ungstirni, 15
sinnum massameira en sólin,
sem þeytir frá sér efni með
miklu offorsi og raskar gasinu
og rykinu í kring. Efnið sem
stjarnan spýr út orsakar ekki
aðeins stundaglaslögun skýsins
heldur hitar það einnig vetnis-
gasið upp undir 10.000 °C svo
það verður óstöðugt.
MYND/NASA/ESA
TIGNARLEGT RISASÓLGOS Í febrúarlok 2011 varð sérstaklega tignarlegt sólgos á sólinni okkar. Í rúmar
90 mínútur stóð glæsileg slæða úr næstum milljón gráðu heitu rafgasi upp úr sólinni og bylgjaðist
eins og fegurstu norðurljós. Útfjólublá augu geimfars NASA, Solar Dynamics Observatory, fylgdist
grannt með sýningunni í einstökum smáatriðum. Hluti efnisins slapp úr krumlum sólar og streymdi
út í geiminn en annað féll aftur niður til hennar. MYND/NASA/GODDARD SPACE FLIGHT CENTER
VETRARBRAUTARÓS Hubble-sjónauki NASA og ESA fagnaði 21 árs afmæli sínu í
geimnum á árinu. Af því tilefni var sjónaukanum beint að sérstaklega myndrænu
vetrarbrautatvíeyki sem kallast Arp 273 og er í 300 milljón ljósára fjarlægð frá
jörðinni. Í Arp 273 eru tvær þyrilþokur sem eru í þann veginn að renna saman í
eina. Síðustu ármilljónirnar hafa þær stigið flókinn dans undir stjórn þyngdaraflsins.
Nokkrir tugir þúsunda ljósára skilja þyrilþokurnar að.
MYND/NASA,ESA OG HUBBLE HERITAGE TEAM (STSCI/AURA)
STORMUR BÍTUR Í SKOTTIÐ Á SÉR Lofthjúpur Satúrnusar er nístingskaldur og alla jafna kyrrlátur og sviplaus. En
um það bil einu sinni á hverju Satúrnusarári (um þrjátíu jarðár), þegar vorar á norðurhvelinu, byrjar einhver ólga
í skýjaþykkninu sem brýst út sem mikill stormur. Segja mætti að á Satúrnusi sé stormurinn „vorboðinn ljúfi“ fyrir
okkur mennina. Í byrjun árs geisaði slíkur stormur. Svo stór varð hann að hann umlék alla reikistjörnuna og beit
að lokum í skottið á sér. Vindhraðinn náði ef til vill um 500 metrum á sekúndu, en þetta er stærsti og öflugasti
stormur sem menn hafa séð á Satúrnusi. Cassini-geimfar NASA tók þessa fallegu mynd af skrugguveðrinu í
febrúarlok, tólf vikum eftir að stormsins varð fyrst vart. MYND/NASA/JPL-CALTECH/SSI
Heimildir: Stjörnufræðivefurinn. Allar skýringar við myndirnar eru aðstandenda vefsins.