Morgunblaðið - 27.08.2010, Blaðsíða 14
14 FréttirINNLENT
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 27. ÁGÚST 2010
VIÐTAL
Pétur Blöndal
pebl@mbl.is
„Ég hef tekið þann kostinn hingað til,
að ræða þetta mál ekki í fjölmiðlum,“
segir séra Hjálmar Jónsson dóm-
kirkjuprestur.
„Ég gerði grein fyrir útlínum
þess í bók minni, Hjartslætti. Ég tek
trúnaðarskylduna alvarlega og hún
er hluti vígsluheitisins. Ég ber því
ekki mál þeirra sem til mín leita á
torg. Eins og sakir standa nú er þó
nauðsynlegt að fara yfir það hvað
gerðist á þessum rúma sólarhring í
lífi mínu, síðdegis á laugardegi 2.
mars og fram til kvölds sunnudaginn
3. mars árið 1996.
„… þá kæri ég hana“
Ég varð þingmaður vorið 1995
og það var árið eftir, laugardaginn 2.
mars, að Sigrún Pálína Ingvarsdóttir
hafði samband við mig í gegnum sam-
starfsmann minn í þinginu, sem er
tengdur henni. Ástæðan var sú að
hún vildi ná sáttum við kirkjuna og
um leið tryggja að tekið yrði á kyn-
ferðisbrotamálum innan hennar. Ég
féllst á að hitta Sigrúnu Pálínu og
hún kom ásamt sambýlismanni sín-
um til mín niður í Alþingi.
Ég sannfærðist um það, af
spjalli við þau, að henni væri full al-
vara með þessari ósk og vildi greiða
götu hennar til þess. Ég var ekki
starfandi prestur, en taldi nauðsyn-
legt að prestur í kirkjunni hefði for-
ystu í slíku sáttamáli. Við fórum að-
eins yfir sviðið og staðnæmdumst við
Karl Sigurbjörnsson, sem þá var
sóknarprestur í Hallgrímskirkju.
Henni lá gott orð til séra Karls og ég
treysti honum vel líka.
Ég hringdi því til hans og óskaði
eftir því að hann hitti Sigrúnu Pálínu
og sambýlismann hennar. Karl var í
önnum, var að undirbúa messuhald
daginn eftir, en fyrir mín orð féllst
hann á að hitta okkur þarna um
kvöldið og bauð okkur í Hallgríms-
kirkju. Ég hafði ekki hugsað mér að
koma frekar að þessu en að vera
milligöngumaður, en þau vildu öll
gjarnan að ég sæti með þeim.“
– Þið hittust þá fjögur í Hall-
grímskirkju?
„Já, og Sigrún Pálína rakti málið
fyrir Karli eins og hún hafði rakið það
fyrir mér. Hann getur auðvitað svar-
að fyrir sig, en ég veit vel að hann
skildi alvarleika málsins, alveg eins
og ég.
Karl hafði svo samband við Ólaf
biskup, hvort hann væri tilbúinn til að
sættast og hann sagði að það mætti
alveg skoða það.
Það gerðist svo, að önnur kona
hringdi seint um kvöldið til Karls og
daginn eftir, sunnudaginn 3. mars,
hittum við hana líka. Þegar hún hafði
lokið máli sínu var okkur öllum lokið
og við töluðum um það okkar í milli
eftir að hún og maður hennar voru
farin. Það var enginn efi í okkar huga
um að þarna hefðu alvarleg brot átt
sér stað.
Við funduðum svo aftur þennan
sama sunnudag með Sigrúnu Pálínu
og manni hennar og undirbjuggum
yfirlýsingu eftir fyrirsögn hennar.
Hún sagðist vilja sættast við kirkjuna
og við vildum hjálpa henni til þess, al-
gjörlega á hennar forsendum. Hún
hafði allt um það að segja, hvernig
ályktunin yrði, og við höfðum enga
hagsmuni af því að breyta neinu. Það
var alls ekki í okkar huga.
Þegar við höfðum öll lesið hana
yfir, þá skildust allir sáttir og við Karl
fórum til Ólafs biskups með textann,
undir kvöld þann sama dag. Yfirlýs-
ingin var sáttatilboð á þeim for-
sendum, að hann bæðist afsökunar og
að kirkjan tæki af ábyrgð á svona
málum í framtíðinni. Hann las þetta
yfir og hrópaði: „Ég bið hana ekki af-
sökunar, það er hún sem á að biðja
mig afsökunar!“ Það voru hans orð.
Og hann bætti við: „Þið getið farið og
skilað því til hennar, að ef hún falli
ekki frá þessu, þá kæri ég hana.“
Þetta voru viðtökurnar sem við séra
Karl fengum hjá biskupi.“
– Reynduð þið að tala hann til?
„Já, við spurðum hvort hann
teldi þá ekkert hæft í þessu. En hann
var alveg ósveigjanlegur þannig að
fundur okkar með honum var mjög
stuttur. En fullur vilji okkar var sá
sem ég lýsti áðan, að standa með Sig-
rúnu Pálínu og málstað hennar.
Það vildi raunar svo óheppilega
til þegar við hittum Ólaf, að hann
hafði nýlega verið á samkomu hjá
ferðaskrifstofu einni, þar sem far-
arstjórinn hafði staðið fyrir lófataki
og flutt honum stuðningsávarp. Ólaf-
ur fékk mikinn stuðning úti í þjóð-
félaginu og úr býsna mörgum áttum.“
– Tókst þú þátt í því á einhverju
stigi?
„Ég tók aldrei þátt í þeim stuðn-
ingi og hvergi. Og eftir þetta, þá hitt-
umst við sjaldan. Ég var kominn til
annarra starfa og fór ekki til þjón-
ustu aftur í kirkjunni fyrr en nokkr-
um árum eftir að Ólafur hafði látið af
þjónustu.
En eftir þessa viðkomu hjá bisk-
upi var ekki annað að gera en að
segja Sigrúnu Pálínu að við hefðum
farið bónleiðir til búðar, það er að
segja að þetta hefði ekki borið neinn
árangur. Ólafur biskup hefði al-
gjörlega hafnað þessari yfirlýsingu
sem sáttagrundvelli. Við höfðum far-
ið fram með góðum vilja, að stuðla að
því að þessi mál fengju framgang og
sættir gætu tekist, eða í öllu falli að
málunum yrði beint í þann farveg að
sár mættu gróa og sársaukinn linast.
En því miður, þá gerðist það ekki.
Karl tjáði Sigrúnu Pálínu þessar
málalyktir og jafnframt hversu okkur
þætti þetta leitt.“
Hún tók tíðindunum ekki vel
– Hvernig tók hún þessum tíð-
indum?
„Hún tók þeim ekki vel. Ég var
kominn í tímaþröng með önnur mál
en ég hringdi í hana seinna á sunnu-
dagskvöldið og tjáði henni hvað mér
þætti þetta leitt og viðbrögð Ólafs
slæm. En þetta var afgerandi nið-
urstaða og vonlaust um það að við
gætum beitt okkur frekar, þingmað-
ur og sóknarprestur, í þessu máli.
En ég hélt að sjálfsögðu áfram
að kynna mér þessi málefni. Slík mál
höfðu komið inn á mitt borð áður þeg-
ar ég þjónaði á Sauðárkróki. Ég fór
að athuga það, að í fyrirtækjum og
stofnunum vantaði ýmislegt upp á að
þessi málefni væru í lagi, að áætlun
væri til um viðbrögð ef fólk fyndi til
óþæginda vegna áreitni eða annars
ruddaskapar. Það var ástæðan fyrir
því að ég tók þátt í utandagskrár-
umræðu ellefu dögum síðar, 14. mars,
á Alþingi. Sú umræða átti að heita al-
mennt um áreitnismál en ástæðan
var að sjálfsögðu „Biskupsmálið“.
Þar sagði ég meðal annars:
„Ég legg þunga áherslu á það að
brýn nauðsyn er á skýrum boðleiðum
og viðbrögðum, öruggum, faglegum
og fumlausum viðbrögðum. Þannig
ber að tryggja tilfinningalega áheyrn
og einnig að tryggja öryggi þeirra
sem hafa umkvartanir fram að færa.
Einstaklingur þarf að geta kvartað,
fundið að ósæmilegri framkomu
gagnvart sér, líka löngu áður en
áreitið og eineltið er komið á það stig
að það varðar við lög. Öryggi beggja
aðila þarf að tryggja. Við þurfum að
kunna að taka á málum sem eru erfið
og óþægileg. Komi slík mál upp inn-
an opinberra stofnana, og hvar svo
sem þau koma upp annars staðar, er
mikilvægt að bregðast við þeim af
ábyrgð, af virðingu og trúnaði við alla
málsaðila jafnt. Ég heiti mínum
stuðningi til þess að svo megi verða.“
Þarna kemur mín meining fram
á þessum tíma. Og mér finnst hún al-
veg skýr. Það hefur svo raunar verið
unnið á svipaðan máta hjá kirkjunni.
Við áttuðum okkur á því mörg, að
slíkum málum hafði lítill gaumur ver-
ið gefinn, ef þau kæmu upp innan
kirkjunnar, og það þyrfti að setja
skýrar reglur. Það hefur kirkjan gert
eftir að Karl tók við sem biskup og
allir geta til dæmis nálgast bækling
um það, hvernig bregðast skuli við
áreitni eða einelti, að ekki sé nú
minnst á snúi slíkt að börnum og
unglingum. Komið var á fót fagráði
með fólki sem hefur sérþekkingu á
þessu sviði og það hefur þegar sann-
að gildi sitt.“
– Beittuð þið Sigrúnu Pálínu
þrýstingi til að ná fram sáttum?
„Að sjálfsögðu ekki. Yfirlýsingin
var algjörlega skrifuð að hennar fyr-
irsögn. Og það kom aftur og aftur
fram á fundinum, að hún yrði að ráða
því, hvernig hún vildi hafa þetta. Svo
var textinn að mótast, hvernig hún
vildi eða gæti séð fyrir sér að þessar
sættir yrðu.
Allan tímann höfðum við fullan
vilja til þess að ná þessu máli í heilla-
vænlegri farveg, þannig að sár gætu
að einhverju leyti gróið og sársauki
og þjáning minnkað. Þetta var mark-
miðið. Og ég samþykkti að ganga í
þetta með henni vegna þess að ef
maður verður var við erfiðleika og
sársauka eða vanlíðan fólks, sem
maður hugsanlega getur tekið þátt í
að bæta úr, þá gerir maður það.
Ég vil hjálpa fólki af fullum
trúnaði og heilindum. Það tel ég mig
hafa gert þarna á þessum stutta
tíma.“
– Sigrún Pálína og maður henn-
ar hafa sakað Karl um að hafa klippt
út setningu úr yfirlýsingunni um að
hún dragi umfjöllun sína um málið til
baka í fjölmiðlum, en að hún sé að
segja sannleikann og hún dragi sann-
leikann ekki til baka?
„Ég veit ekki hvernig hann hefði
átt að gera það. Ekki féll Ólafi að
minnsta kosti ályktunin því hann
hrópaði á okkur, að hann bæði hana
ekki afsökunar, það væri hún sem
ætti að biðja hann afsökunar.“
– Sigrún Pálína eignar þér í
Kastljósi í gærkvöldi að hafa spurt:
„Hvað um börnin þín?“ áður en hún
og maður hennar gengu út af fundi
þínum og Karls. Maðurinn hennar
segir hins vegar Karl hafa spurt
þessarar spurningar í Fréttablaðinu í
gærmorgun. Til hvaða orðaskipta er
verið að skírskota?
„Ég veit það ekki. Þannig var
það ekki og það var aldrei í mínum
huga að hafa áhrif á skoðanir Sigrún-
ar Pálínu. Ég gekk fram til þess að
hjálpa henni. Ef svo hefði ekki verið
þá hefði ég vísað þessu algerlega frá
mér. Hitt er annað mál, að þetta er
miklu líkara sorgarferli að vinna úr
svona skelfilegri lífsreynslu, heldur
en að það geti tekist með einhvers
konar sáttargjörð í eitt skipti fyrir
öll. Það hef ég fyrir löngu gert mér
ljóst.“
– Brá þér er þú heyrðir af því, að
Guðrún Ebba Ólafsdóttir hefði mátt
þola kynferðislegt áreiti af hálfu föð-
ur síns?
„Já, mér brá mjög við það. Ég
var auðvitað ekki viðstaddur þegar
Guðrún Ebba sagði sögu sína, en eft-
ir fréttum að dæma, þá sýndi hún
kirkjuráðinu inn í hræðilegan veru-
leika, fjölskylduharmleik auk ann-
ars.“
Vildu afsögn Ólafs
– Ýttuð þið Karl á Ólaf að hætta
sem biskup?
„Já.“
– Hver var þinn þáttur í því?
„Ég átti fund á biskupsstofu
ásamt nokkrum prestum, gömlum fé-
lögum úr guðfræðideildinni, þar sem
við lögðum fram rökstudda tillögu
um það að hann stigi til hliðar, færi
úr embættinu. Það kom fyrir lítið.
Hann dró þess í stað upp kæruskjal
til saksóknara og vildi ekkert ræða
þetta.
Ég var annars kominn á annan
vettvang og á þeim vettvangi tók ég
til máls um áreitnismál á grundvelli
þess sem ég hafði þá verið að kynna
mér. Reynslan af „Biskupsmálinu“
átti að sjálfsögðu sinn þátt í því.“
– Hvaða áhrif hefur þetta á þjóð-
kirkjuna?
„Ástandið í þjóðfélaginu er og
hefur verið þannig síðustu misserin,
að reiðin hefur fengið ýmsan farveg.
Nú er það kirkjan og biskup hennar
einkum. En verst þykir mér að Karl
biskup skuli lenda í þessum ólgusjó
vegna þess að ég fékk hann til þess
að taka þetta mál að sér og styðja
Sigrúnu Pálínu. Það gerði hann af
fullum heilindum. Ég gat ekki séð
það fyrir og mér er það óskiljanlegt
hvers vegna það hefur snúist svona
gegn okkur. Ég hygg að það sýni
bara hversu djúpstæður sársaukinn
og afleiðingar hans eru í þessu máli.
Kirkjan heldur vonandi áfram
að sinna sínu hlutverki í þjóðfélaginu.
Sjaldan hefur það skipt meira máli að
kirkjan sinni starfi sínu af kostgæfni
og árvekni. Hún á ekki að snúast um
sjálfa sig og starfsmenn sína, heldur
fyrst og fremst að boða fagnaðar-
erindið – auðsýna þann kærleika,
miskunnsemi og réttlæti sem Kristur
bauð. Þegar eitthvað misferst í því,
þá ber kirkjunni að horfast í augu við
það, leiðrétta sig og halda áfram að
sinna köllun sinni og hlutverki í sam-
félaginu. Það má aldrei gleymast.
Henni má aldrei fatast miskunn-
semin og réttlætið og þá ekki kær-
leikurinn.
Á þessum grunni sinni ég mínu
starfi og reyni eftir fremsta megni að
þjóna fólkinu í landinu. Það gerum
við öll eftir bestu getu í því fjöl-
breytta samfélagi sem við lifum. Það
er hlutverk kirkjunnar, að vera
öruggt skjól í stormum lífsins, og
þegar fólk leitar til mín í slíkum
stormum, þá reyni ég alltaf að gera
það sem ég get til hjálpar. Það reyndi
ég sannarlega í málum Sigrúnar Pál-
ínu Ingvarsdóttur og af fullum heil-
indum.“
– Er eitthvað í starfi kirkjunnar
sem kallar á svona glæpi?
„Nei, að sjálfsögðu ekki. En í
kirkjunni er býsna náið samfélag.
Fólk kemur í gleði og sorgum og í öll-
um aðstæðum öðrum til kirkjunnar
sinnar. Kirkjan vill vera kærleiks-
samfélag, örugg og einlæg. Þess
vegna er það svo sárt og yfirþyrm-
andi þegar út af því bregður. Það er
oft viðkvæmt og vandasamt starfið í
kirkjunni, bara í síðustu viku var ég
með fimm jarðarfarir og sumar sárar
og erfiðar. Í því eru mikil samskipti
við fólk, undirbúningur og ýmiss kon-
ar stuðningur sem við prestarnir
reynum að veita. Það kemur því ekk-
ert verr við mann en það að vera út-
hrópaður fyrir að bregðast þeim sem
síst skyldi. En oft finn ég það að ég
myndi vilja gera miklu betur í starfi
mínu.“
Enginn efi í okkar huga
Morgunblaðið/Golli
Skjól Að sögn séra Hjálmars Jónssonar dómkirkjuprests er það hlutverk
kirkjunnar að vera öruggt skjól í stormum lífsins.
„Það var aldrei í mínum huga að hafa áhrif á skoðanir Sigrúnar Pálínu“ Ólafur var alveg
ósveigjanlegur Önnur kona hafði samband sama dag Reiðin hefur fengið ýmsan farveg