Morgunblaðið - 19.01.2011, Blaðsíða 23
MINNINGAR 23
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 19. JANÚAR 2011
orðsins, hún var ljóðskáld, blaða-
maður, pistlahöfundur, dagskrár-
gerðarmaður, bloggari og talaði og
skrifaði kjarnyrt og fallegt mál, oft
á afar ljóðrænan hátt. Hún hafði
líka dásamlega seiðandi útvarps-
rödd.
Begga lét marga drauma sína
rætast, hún fór m.a. og dvaldi á
eynni Naxos í nokkra mánuði og
hún fór að læra á trommur komin
á fimmtugsaldur.
Begga hafði ekki bara stórt
hjarta, hún hafði líka róttækt
hjarta og hafði enn ekki gefist upp
á þeirri sýn að öreigar allra landa
skyldu sameinast. Hún var fem-
ínisti og jafnréttismálin brunnu á
henni og henni fannst lítið þokast í
þeirri baráttu.
Við vinkonuhópurinn sem höfum
hist reglulega frá því í mennta-
skóla höfum í gegnum tíðina notið
góðs af íhugulum athugasemdum
Beggu þegar margvísleg málefni
hafa verið krufin því hún átti auð-
velt með að greina og túlka það
sem rætt var – stundum föst fyrir í
sínum prinsippum, stundum leiftr-
andi fyndin, alltaf falleg og full af
alúð. Það hefur mikið verið hlegið í
gegnum árin og við lofum Beggu
því að við munum halda áfram að
rýna í spaugilegu hliðarnar á til-
verunni og hlæja.
Takk fyrir allt og allt.
Ég votta elsku Úlfhildi sem og
Jóni, Kristínu, Siggu, Ólöfu, Ímu
Þöll og Þórhildi og þeirra fjöl-
skyldum samúð mína um leið og ég
þakka þeim góð kynni, velvild og
hlýju í gegnum tíðina.
Hrafnhildur Ragnarsdóttir.
Hún lítur á okkur stallsysturnar
útundan sér, sposk á svip og frá
henni stafar kímiblandinni dulúð.
Ég bíð, því ég veit að nú ætlar
Begga að segja eitthvað merkilegt
eða mjög persónulegt. Hún nýtur
þess að láta okkur bíða, gefur eitt-
hvað í skyn og svo koma fréttirnar.
Þannig man ég hana Beggu. Hún
var stór persóna, hlý og umfram
allt skemmtileg.
Ég kynntist Beggu í gaggó. Ég
sé hana fyrir mér þar sem hún
kemur á móti mér með alpahúfuna,
lítill Che nældur í hana. Hún var
róttæk og vildi breyta heiminum.
Begga var tilfinningavera. Á
unglingsárunum var hún annað-
hvort mjög ástfangin eða í ást-
arsorg. Ég átti erfitt með að setja
mig í spor hennar því ég var ekki
svona djúp, kannski stundum smá-
skotin í einhverjum en hún varð
ástfangin. Stundum fórum við í bíl-
túr með Habbó og Hóbbu og
keyrðum framhjá heimilum þeirra
sem við vorum skotnastar í. Sá bíl-
túr gat orðið langur þar sem aka
þurfti hjá mörgum húsum.
Óteljandi eru stundirnar sem við
lágum yfir Sóleyjarkvæði, skelltum
plötunni á fóninn og sungum með,
fullar af baráttuvilja fyrir réttlát-
ara þjóðfélagi og loftið ilmaði af
musk og queen of the night. Við
áttum það líka til að slá á léttari
strengi og syngja saman alls konar
lög og sum ofurvæmin.
Unglingsárin, mótunarárin okk-
ar, þar varð til vinátta sem á sér
djúpar rætur. Innileg væntum-
þykja einkenndi vináttu okkar og
þó mislangt liði á milli funda var
alltaf hlýju og traust að finna hjá
henni Beggu minni. Arfurinn,
saumó sem var og er skemmtileg-
astur allra slíkra norðan Alpafjalla
og þó víðar væri leitað.
Á æskuheimili hennar naut ég
ávallt mikillar velvildar og hlýju.
Glaðværð, systraskvall og tónlist-
ariðkun einkenndi fjölskylduna.
Húsið fullt af litlum systrum henn-
ar sem voru skemmtilegar og sæt-
ar. Músíkin allsráðandi, tónaflóð,
alltaf einhver músíkalskur að spila.
Begga var hæfileikarík kona og
tók þátt í ýmsum athöfnum á lista-
sviðinu, hún gat leikið, teiknað,
spilað á hljóðfæri, skrifað, ort ljóð
og var gædd mikilli frásagnargáfu.
Hún kunni þá list að segja frá
þannig að hlustandinn var sem
þátttakandi í sögunni.
Minnisstæðir eru útvarpsþættir
hennar um Naxos, hvítu eyjuna í
bláa hafinu, sem hálf þjóðin fylgd-
ist með.
Begga átti létt með að kynnast
fólki og hún laðaði að sér alls kon-
ar fólk með útgeislun sinni og já-
kvæðni. Þegar við gengum saman
um götur Chora í Naxos heyrðist
kallað á hverju götuhorni Yazú
Begga. Hver einasti þorpsbúi virt-
ist eiga í henni hvert bein.
Begga var afburða vel gefin, víð-
sýn og réttsýn. Hún var heil og hlý
en jafnframt átti hún sér líf sem
við hinar þekktum ekki. Það gerði
hana svolítið dularfulla í augum
okkar. Ég er óendanlega þakklát
fyrir að hafa kynnst henni. Ég
kveð hana með söknuði og ást í
poka.
Úlfhildi, Jóni, Kristínu, Siggu,
Ólöfu, Ímu, Þórhildi og fjölskyld-
um sendi ég mínar dýpstu sam-
úðarkveðju, þeirra missir er mikill
en minningin lifir.
Bergljót B. Guðmundsdóttir.
Samkennd, hlýja og glaðværð í
líkingu við geisla sólar voru að-
alsmerki Beggu vinkonu og bekkj-
arsystur.
Hún hafði leiftrandi skarpa sýn
á samfélagið og „varir rauðar sem
blóm“.
Ég er afar þakklát fyrir að hafa
fengið að eyða mörgum stundum
með henni á síðastliðnu ári.
Hún lifir í minningunni sem gáf-
um prýdd, jákvæð og góð mann-
eskja.
Samúðarkveðjur til eftirlifenda.
Takk fyrir mig.
Edda Heiðrún Backman.
Í dag kveðjum við skemmtilega
og góða konu, sem margir sakna
og syrgja. Konu sem kvaddi of
snemma. Við Begga kynntumst
þegar við bjuggum í sama húsi í
Sólheimunum í Reykjavík, þá litlar
stelpur. Hún bjó á 2. hæð ásamt
foreldrum sínum, fjórum yngri
systrum og einnig bjó amma henn-
ar og nafna hjá fjölskyldunni. Ég
var mikið heima hjá Beggu og
aldrei upplifði ég þrengsli þrátt
fyrir þennan fjölda, það var nægt
pláss fyrir alla. Tónlist var stór
hluti af fjölskyldulífinu, systurnar
lærðu allar á hljóðfæri og foreldr-
arnir Kristín og Jón sungu bæði í
kór. Ég á margar góðar minningar
um samskipti okkar Beggu. Einn
veturinn vorum við tíðir gestir í
Laugarásbíói. Þar var verið að
sýna myndina Tískudrósin Millý
með Julie Andrews í aðalhlutverki.
Við Begga sáum myndina fjórum
sinnum og vorum alveg heillaðar.
Fyrir nokkrum árum datt mér í
hug að verða mér úti um þessa
mynd og pantaði hana á netinu. Ég
hóaði í Beggu þegar ég fékk mynd-
ina í hendur og bauð henni að
horfa með mér. Það var skemmti-
leg stund, myndin rifjaðist smám
saman upp fyrir okkur og við vor-
um farnar að hlæja áður en kom
að nokkrum ógleymanlegum atrið-
um í myndinni. Fyrir þetta kvöld
með Beggu er ég afar þakklát.
Við Begga vorum róttækar ung-
ar konur. Unnum fyrir Alþýðu-
bandalagið fyrir kosningarnar vor-
ið 1971 og tókum starf okkar mjög
alvarlega. Glöddumst að sjálfsögðu
yfir úrslitunum og ég á í fórum
mínum bréf sem Begga skrifaði
mér til útlanda sumarið 1971 eftir
að vinstristjórnin var mynduð. Þar
tilgreindi hún samviskusamlega
skiptingu ráðuneyta og við höfðum
í alvöru mikinn áhuga á þessu og
þetta skipti okkur miklu máli. Við
vorum 13 ára. Ef einhver hefði
sagt okkur á þessum árum að
Mogginn yrði síðar vinnustaður
okkar beggja er nokkuð öruggt að
við hefðum hrist höfuðið og talið
það óhugsandi.
Þegar Begga veiktist var ég viss
um að hún myndi sigrast á veik-
indunum, hún var jákvæð, dugleg
og í baráttuham. Ég heimsótti
hana á aðfangadag og átti með
þeim mæðgum, henni og Úlfhildi,
fallega stund á heimili þeirra.
Begga var veik, það leyndi sér
ekki, en andinn var hress, hún var
sjálfri sér lík, gamla góða Begga,
traust og ljúf. Þessi stund með
Beggu og Úlfhildi er mér mikils
virði.
Ég kveð æskuvinkonu mína með
miklum söknuði og sendi Úlfhildi,
Jóni, Kristínu, Siggu, Ólöfu, Ímu
og Þórhildi mínar innilegustu sam-
úðarkveðjur.
Áslaug.
„Það finnst mér eitt það
skemmtilegasta sem ég geri – að
hlusta á tónlist og skrifa.“
Frænka mín Bergþóra Jónsdótt-
ir lét þessi orð falla í árslok 1999.
Ég var að skrifa lokaverkefnið
mitt í blaðamennsku við Háskóla
Íslands og hafði valið nærtækt við-
fangsefni – viðtal við náfrænkur
mínar, systurnar fimm úr Hlyn-
gerðinu, sem allar lifðu og hrærð-
ust í tónlist.
Að viðtalinu loknu trúði hún mér
fyrir því að eiginlega öfundaði hún
mig af náminu sem ég var í því sig
hefði alltaf dreymt um að verða
blaðamaður. Þann draum var hún
ekki lengi að láta rætast – rúmu
ári síðar vorum við orðnar kollegar
á Mogganum – sem vissulega bauð
upp á dálítinn rugling sem við
Begga höfðum lúmskt gaman af.
Við þurftum oft að áframsenda
tölupóst hvor til annarrar frá við-
mælendum og þeir sem hringdu á
Morgunblaðið og báðu um Berg-
þóru blaðamann urðu að skýra mál
sitt betur. Ekki dugði þá að segja
að það væri þessi sem byggi við
Stóragerði – því við vorum ná-
grannar í þokkabót!
Fyrstu minningar mínar um
Beggu tengjast einmitt nafninu.
Við hétum báðar í höfuðið á ömmu
okkar sem kallaði okkur alltaf
nöbburnar sínar. Þeim sið héldum
við Begga eftir að amma dó og á
ég marga tölvupósta sem voru stíl-
aðir frá og til elsku nöbbu. Einn
þeirra fjallar einmitt um nafnið –
Begga hafði verið að grúska eins
og svo oft áður af því að henni lék
forvitni á að vita hvort Pípin
Frakkakóngur hefði í alvöru átt
dóttur sem hét Ólöf, eins og segir í
kvæðinu. Það hlakkaði í Beggu
þegar hún komst að því að Pípin
átti vissulega dóttur, nema að hún
hét í raun Begga og var dýrðlingur
ofaníkaupið. Get rétt ímyndað mér
hvort hún hafi ekki strítt litlu syst-
ur sinni á þessari staðreynd.
Fyrir tíma okkar nöbbu á Mogg-
anum saman á ég margar minn-
ingar ofan úr sumó hennar ömmu.
Í bústaðnum voru spilastokkarnir
aldrei langt undan og ég man þeg-
ar Begga tók mig á ítarlegt kapla-
námskeið en hún var ótæmandi
viskubrunnur á því sviði. Á því
námskeiði lærði ég m.a. kapalinn
sem enn í dag hefur helsta að-
dráttaraflið, enda krefst hann mik-
illa pælinga sem hentaði Beggu
auðvitað vel. Hún kenndi mér líka
að skrifa nafnið mitt á arabísku og
að segja „ég elska þig“ á hinum
undarlegustu tungumálum. Ung-
lingnum mér fannst gríðarlegur
akkur í þeim vísdómi, þótt áber-
andi skortur hafi verið á eftispurn
eftir honum.
Á tímabili þótti mér Begga dálít-
ið dularfull og framandi, ekki síst
vegna þess að hún fór alla leið til
Ameríku að læra tónlist. Ég man
hvernig blóðið fraus í æðum mér
þegar ég heyrði að skólinn hennar
væri rétt hjá Chicago og upp frá
því var ég alltaf dauðhrædd um
hana. Chicago var jú borg bófanna
– þá visku hafði ég frá fyrstu hendi
upp úr Tinnabókunum og mér var
sko ekki sama um að vita af henni
nöbbu minni á þvílíkum glæfra-
slóðum.
Minningarnar um Beggu hrann-
ast upp og þær eru dýrmætt vega-
nesti í framtíðina. Í dag kveð ég
ekki bara elsku frænku heldur líka
nöbbuna mína, góðan kollega og
granna. Hennar er sárt saknað.
Bergþóra Njála
Guðmundsdóttir.
Nú eru dimmir dagar.
Við Erla kynntumst Beggu um
það leyti sem við fórum til Banda-
ríkjanna í nám. Við urðum sam-
ferða út; Begga á leið í master, ég
að byrja í BS-námi. Íslendingarnir
voru ekki margir í Urbana en
héldu mikið saman. Begga varð
okkur strax sérstaklega náin. Fyr-
ir kom að við lentum saman í nám-
skeiðum og þá hljóp í okkur kapp
því hvorugt vildi verða eftirbátur
hins – þarna var eins gott að
leggja sig fram því Begga var góð-
ur námsmaður.
Svo fæddist Daði Jónsson og
Begga varð um leið mamma númer
tvö; mikil barnakerling. Hún
prjónaði á snáðann, passaði hann
oft og varð í miklu uppáhaldi hjá
stráksa. Seinna kom Sigga systir
út að læra; Íma Þöll kom líka í
heimsókn og passaði Daða part úr
sumri.
Ferðalagið mikla sem við Erla,
Daði og Begga fórum vorið 1984 er
ógleymanlegt. Dvölin hjá Lillu
frænku sem bjó úti í sveit í Miss-
issippi, músíkin í New Orleans,
skemmtigarðurinn í Tampa, og
þegar við tjölduðum á Daytona
Beach. Þar busluðum við Daði á
vindsæng í sjónum – milli þess
sem við vorum kallaðir til að full-
vissa Erlu og Beggu um að á þær
félli áreiðanlega hvergi skuggi;
enda urðu þær fallega sólbrúnar.
Í skólanum ræddum við oft hve
hraustlega við ætluðum að láta til
okkar taka þegar við kæmum heim
að loknu námi. Begga sneri sér í
vaxandi mæli að tónvísindum og
vildi stúdera sr. Bjarna Þorsteins-
son þjóðlagasafnara á Siglufirði.
Samvera okkar í Ameríku tók
enda eins og allt gott. Begga fór
fyrst heim; búin að kynnast Flosa.
Svo fæddist Úlfhildur, augasteinn-
inn hennar.
Við umgengumst ekki eins mikið
hér heima þótt við fylgdumst hvert
með öðru og hefðum samband af
og til.
Beggu munum við sem mikla og
einlæga vinkonu. Trausta, hrif-
næma, gáfaða og skemmtilega.
Henni voru margir vegir færir
enda lét hún víða til sín taka; gerði
útvarpsþætti, stýrði Tónverkamið-
stöðinni um tíma, skrifaði um
menningu og listir sem blaðamað-
ur og var nú síðast að undirbúa
bókarskrif. Nýlega endurfluttir út-
varpsþættir þar sem Begga segir
frá dvöl sinni og Úlfhildar á grísku
eyjunni Naxos eru minnisstæðir;
myndrænir, smekklega litaðir
músík og leiftrandi af frásagnar-
gáfu.
Kæra fjölskylda. Við vitum að
þið haldið þétt hvert um annað
eins og ávallt. Þegar sólin hverfur
og lífið glatar öllum lit eru fjöl-
skylda og vinir það dýrmætasta
sem maður á. Listirnar geta líka
hjálpað. Þar finnst manni stundum
tjáð það sem ekki finnast orð yfir.
Jón Hrólfur, Erla og Daði.
Fyrir ári tók Bergþóra okkar
sér tímabundið leyfi frá Morgun-
blaðinu til að skrifa bók um Eddu
Heiðrúnu Backman. Hún var afar
spennt fyrir verkefninu og við
vinnufélagarnir glöddumst með
henni en hlökkuðum um leið til að
fá hana aftur til liðs við okkur nú
um þetta leyti; að vinna að því
sameiginlega markmiði okkar að
skrifa á metnaðarfullan hátt um
listir og menningu fyrir lesendur
Morgunblaðsins.
En því miður sneri Begga ekki
aftur. Síðustu mánuði glímdi hún
við illlæknandi sjúkdóm en virtist
um stund hafa haft betur. Hún
leyndi okkur engu um hve alvarleg
veikindi hennar væru, en bjartsýni
hennar og þrautseigja vakti með
okkur von um að hún myndi snúa
aftur til okkar. Svo varð hins vegar
ekki og söknuðurinn er að sönnu
sár.
Begga hafði gert áhugamálið að
sínu lífsstarfi. Hún hafði ástríðu-
fullan áhuga á listum og menningu
í sinni fjölbreytilegustu mynd og
bjó þar yfir viðamikilli þekkingu –
en þó sér í lagi á heimi tónlistar-
innar enda menntuð á því sviði.
Menntuð í skólum og menntuð af
margs konar þátttöku í tónlistarlíf-
inu.
Oft kom Begga upprifin til vinnu
að morgni eftir að hafa upplifað
áhrifaríkan tónlistarflutning kvöld-
ið áður, hvort sem það var á kór-
tónleikum eða á blúskvöldi. Ef
listamennirnir gerðu vel og voru
einlægir naut hún sköpunarinnar
og vildi miðla henni áfram. Þess
vegna naut hún sín svo vel í starfi;
hún var að miðla því sem hún
þekkti, því sem hún þekkti betur
en aðrir hér á ritstjórninni, og les-
endur okkar nutu ætíð góðs af því.
Begga lifði lífinu lifandi, og að því
er virtist í þeirri sannfæringu að
listin gerði lífið betra; hún sótti sér
lífsfyllingu í „hina dýru list“ og við
hin nutum með henni.
Begga var öflugur samstarfs-
maður; ástríðufullur og kappsamur
blaðamaður, metnaðarfull og ná-
kvæm. Hún var glaðlynd og frá-
bær félagi í leik sem starfi. En það
sem mest var um vert var hvað
hún gaf okkur sem manneskja.
Þegar hugsað er til Beggu blasir
við manni síbrosandi manneskja,
ljúf bæði og næm. Hjartalagið var
bara eitthvað svo gott og nærvera
hennar svo hlý.
Við sem eftir erum söknum
Bergþóra Jónsdóttir er fallin frá á besta aldri.
Bergþóra var einstök manneskja. Hún hafði mikla
nærveru og var hlý og djúp. Í rúman áratug skrifaði
hún í Morgunblaðið, fyrst gagnrýni og síðan sem
blaðamaður.
Skrif Bergþóru báru persónuleika hennar vitni.
Hún var sanngjörn, hafði mikla yfirsýn og gaf af sér.
Umfjöllun hennar um tónlist bar af enda hafði hún yf-
irburðaþekkingu á því sviði. Hún lærði á fiðlu í æsku,
lauk tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í
Reykjavík og meistaraprófi í tónlistar- og kennslu-
fræðum frá Illinois-háskóla. Þessarar þekkingar
fengu landsmenn notið í þáttagerð hennar fyrir Rík-
isútvarpið og skrifum hennar í Morgunblaðið.
Bergþóra naut tónlistar og dró hana ekki í dilka.
Hjá henni gilti einu um lágmenningu og hámenningu.
Í sama pistlinum gátu skotið upp kollinum Pinetop
Perkins, Schubert og Penderecki. Hún hlustaði á tón-
list með opnum huga og kunni einfaldlega að meta það
sem vel var gert og kom frá hjartanu. Og þegar hún
greindi falskan tón skrifaði hún af umburðarlyndi og
nærfærni.
Bergþóra nálgaðist reyndar lífið allt fordómalaust
og með opnum huga – og hafði um leið gott auga fyrir
skoplegu hliðunum. Hún lét vita ef henni fannst blaðið
hafa farið út af sporinu með einhverjum hætti og benti
á leiðir til að rétta kúrsinn. Bergþóra hafði mjög
traustan barómeter. Hún var ráðagóð og gott að leita
til hennar. Hún áttaði sig á því að veruleikinn er ekki
svartur og hvítur og svörin sjaldnast einföld. Hún
hafði ríka tilfinningu fyrir hinu mannlega og hafði í
hávegum orð Einars Benediktssonar um aðgát í nær-
veru sálar. Ef lýsa ætti Bergþóru með einu orði yrðu
heilindi fyrir valinu.
Bergþóra Jónsdóttir var afbragðsfélagi og hennar
verður sárt saknað á Morgunblaðinu. Missir dóttur
hennar, Úlfhildar, og fjölskyldu er mikill og senda
starfsmenn Morgunblaðsins þeim samúðarkveðju í
sorginni.
Karl Blöndal aðstoðarritstjóri.
Kveðja frá samstarfsfélögum
SJÁ SÍÐU 24