Morgunblaðið - 19.01.2011, Blaðsíða 24
24 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 19. JANÚAR 2011
hennar mikið og við sendum ást-
vinum Beggu okkar innilegustu
samúðarkveðjur.
F.h. blaðamanna á menningar-
deild Morgunblaðsins,
Einar Falur Ingólfsson.
Bergþóra Jónsdóttir var ekki
einungis vel gefin kona, heldur
einnig einstaklega vel gerð. Því
kynntist ég vel á þeim tæplega níu
árum sem við unnum náið saman á
Morgunblaðinu. Hún var hug-
myndarík; gagnrýnin en um leið
uppbyggileg og ætíð boðin og búin
að létta undir eða taka á þegar
þess þurfti með. Fyrir mig, sem
stjórnanda menningardeildarinnar
á þessum árum, var markvisst
framlag hennar einfaldlega ómet-
anlegt og þá ekki síður áreiðan-
leikinn sem því fylgdi. Básarnir
okkar Beggu lágu saman með ein-
hverjum hætti nánast allan þennan
tíma og oftar en ekki áttum við
saman hádegisstund. Í slíku návígi
fer auðvitað ekki hjá því að fólk
deili bæði sorgum sínum og sigr-
um. Það dýpkaði vináttu okkar
enda bjó Begga svo sannarlega yf-
ir stóru hjarta og kunni að gleðjast
með öðrum.
Metnaður Beggu fyrir hönd ís-
lenskrar menningar, ekki síst tón-
listar, var það sem einkenndi hana
í öllu hennar ævistarfi. Hún var
bæði góður greinandi og túlkandi,
hafði ríkan skilning á samfélags-
gerðinni og hlutverki lista í því
samhengi. Hún miðlaði þekkingu
sinni af næmi í skrifum sínum og
þá ekki síður í útvarpsþáttum. Fá-
ir stóðust henni snúning þegar um
viðtöl var að ræða – hún hafði lag
á því að draga upp úr fólki það
persónulega og einlæga.
Ég veit að sá eiginleiki nýttist
henni vel við síðasta verkefni
hennar, ritun ævisögu Eddu Heið-
rúnar vinkonu okkar beggja, en
mér hafði tekist að leiða þær fyrr-
verandi skólasysturnar saman á
nýjan leik efir að þær höfðu að
mestu misst sjónar hvor á annarri
í lífsins önn eftir menntaskólaárin.
Þótt Beggu hafi því miður ekki
tekist að ljúka ævisögunni vegna
veikinda sinna hafði hún mikinn
metnað fyrir þessu verkefni. Ég
efast ekki um að það hefði leitt
hana inn á nýjar brautir í skrifum
sínum.
Það kom líklega engum sem
þekktu Beggu á óvart að hún stytti
sér stundir við að skrifa ljóð. Ég
sá því miður ekki mikið af skáld-
skap hennar, en þó nóg til að skilja
að innsæi hennar í öllum hennar
ritstörfum byggðist á ljóðrænum
streng sem hún hafði þroskað með
sér á fallegan hátt.
Að leiðarlokum þakka ég góðri
vinkonu vináttu hennar og heilindi,
sem ég hefði viljað njóta svo miklu,
miklu lengur. Það blasti alla tíð við
hversu mikill kærleikur ríkti í fjöl-
skyldu Beggu, á milli foreldra
hennar og systra, sem og Úlfhildar
einkadóttur hennar. Við, fjölskyld-
an í Ingólfsstrætinu, vottum þeim
öllum einlæga samúð okkar.
Fríða Björk Ingvarsdóttir.
Fátt er mikilvægara fyrir dag-
blað, sem vill skipta máli, en að
hafa í sinni þjónustu blaðamenn,
sem búa yfir víðtækri þekkingu á
ólíkum sviðum. Lesendur finna
fljótt hvað að þeim snýr.
Slíkur blaðamaður var Bergþóra
Jónsdóttir. Hún bjó yfir yfirburða-
þekkingu á tónlist og átti þátt í að
umfjöllun Morgunblaðsins um tón-
list stóð undir nafni. Þar fylgdi
hún reyndar í fótspor margra
merkra tónlistarmanna, sem fjallað
hafa um tónlist á síðum Morg-
unblaðsins á undanförnum áratug-
um, en gaf þeim ekkert eftir.
Þótt sérsvið hennar væri tónlist
hafði hún alhliða þekkingu á menn-
ingu og var virkur þátttakandi í
umræðum á ritstjórn Morgun-
blaðsins um menningarlífið frá
degi til dags. Hún var líka hug-
myndaríkur blaðamaður og átti
þátt í að móta blaðið að öðru leyti.
Líflegar umræður og andstæð
sjónarmið skipta meginmáli við út-
gáfu á góðu dagblaði. Þannig nær
það að endurspegla skoðanir og
sjónarmið þorra þjóðfélagsþegna.
Á ritstjórn dagblaðs þarf að ríkja
opið og frjálslegt andrúmsloft.
Bergþóra Jónsdóttir átti þátt í að
móta það á Morgunblaðsárum sín-
um.
Bergþóra skrifaði tónlistargagn-
rýni í Morgunblaðið ásamt annarri
umfjöllun um tónlist. Það er nán-
ast ómögulegt að gera öllum til
hæfis í þeim efnum og á ekki bara
við um tónlist. Hún tók það alvar-
lega, ef hún sjálf varð fyrir gagn-
rýni vegna umsagna sinna um tón-
leika. Mér er minnisstætt samtal,
sem við áttum um eitt slíkt tilvik.
Tónlistarmaður taldi gagnrýni
hennar of neikvæða í sinn garð.
Hún tók það nærri sér en færði
svo sterk rök fyrir umsögn sinni,
að ég hafði ekki frekari áhyggjur
af því.
Það var bæði skemmtilegt og
upplýsandi að tala við Bergþóru
Jónsdóttur um tónlist. Mér fannst
stundum að hún vissi allt um það
efni. Samtöl við hana um stjórn-
endur stórra hljómsveita og per-
sónuleika þeirra, sem voru mér
áleitið umhugsunarefni, eru eftir-
minnileg. Hún hafði glögga sýn á
þá sérstöku einstaklinga, sem
sterkir stjórnendur hljómsveita
eru.
Bergþóra Jónsdóttir var ein-
staklega geðfelld manneskja. Hún
átti við erfiðleika að etja í lífinu
eins og svo margir. Það var reisn
yfir henni í þeim erfiðleikum.
Styrmir Gunnarsson.
Örlát og víðsýn, með stóran
faðm og hlýtt hjarta. Brosmild og
hvetjandi, alltaf með skýra sýn og
ákveðnar skoðanir. Blíðlyndur
uppreisnarseggur. Þannig minn-
umst við Beggu, kærrar vinkonu
og félaga af Rás 1. Begga starfaði í
um áratug hjá Ríkisútvarpinu, þar
af í þrjú ár sem yfirmaður á tón-
listardeild. Á þessum fremur
stutta tíma hafði hún veruleg áhrif
á starfið sem unnið var á deildinni
og mótaði dagskrárgerð á Rás 1 til
frambúðar. Begga kom með ferska
vinda inn í Útvarpið, hámenntuð í
tónlistarfræðum frá Bandaríkjun-
um, þar sem hún hafði sérhæft sig
í etnómúsíkólógíu. Hún var alger-
lega fordómalaus og opin fyrir
hvers kyns straumum og stefnum.
Sem stjórnandi á tónlistardeild
bætti hún fjölbreyttum blæbrigð-
um í litróf Rásar 1 og fyrir hennar
tilstilli og uppörvun tók tónlist úr
ólíkum áttum að setja svip sinn á
dagskrána og hljóta faglega um-
fjöllun, hvort sem um var að ræða
samtímatónlist, pönk, óperur,
rokk, teknótónlist, blús eða heims-
tónlist, að ógleymdu íslenska ein-
söngslaginu. Begga var kona nýj-
unga, en hefðirnar áttu líka sinn
sess í hjarta hennar. Við höfum
svo oft talað um það okkar í milli
hvað gerir útvarpsmann að góðum
útvarpsmanni. Það er ástríðan. Ef
hana vantar verður enginn út-
varpsgaldur. Ástríða fyrir umfjöll-
unarefninu, virðing og væntum-
þykja gagnvart tónlistinni og
hlustendum. Allt þetta hafði út-
varpskonan Begga til að bera.
Begga var einstakur yfirmaður,
vinnufélagi og vinkona og hún
hafði þann fágæta hæfileika að
vera allt þetta í senn. Hún var
gjafmild á hugmyndir, treysti sínu
fólki til að vinna sjálfstætt og
hvatti það til að finna sinn per-
sónulega stíl. Hún tók nýjum sjón-
arhornum fagnandi og var alltaf
reiðubúin að hugsa hlutina upp á
nýtt, leyfa nýjum röddum að
hljóma. Þannig birtist einlæg trú
hennar á lýðræði og jöfnuð. Hún
var skipulögð í vinnubrögðum,
hamhleypa til verka, fljót að til-
einka sér nýja tækni og var leið-
andi í þeim efnum á vinnustaðnum.
Okkur sem unnum með henni á
Rás 1 finnst sem hennar skarð hafi
í raun aldrei verið fyllt og þótt hún
hafi horfið til annarra starfa fyrir
allmörgum árum svífur andi henn-
ar enn yfir vötnum. Sem betur fer
hélt hún sterkum tengslum við Rás
1 eftir að hún lét af föstu starfi og
gerði marga útvarpsþætti sem lýsa
fjölbreyttum áhugamálum hennar
vel, þar sem hún tvinnaði saman
tónlist, ljóðum, ferðasögum og frá-
sögnum.
Dvöl hennar á grísku eyjunni
Naxos fyrir nokkrum árum varð
henni uppspretta þáttaraðar þar
sem hún leyfði okkur hlustendum
að taka þátt í ævintýrinu. Og
Begga var svo skemmtileg. Hún
var hrókur alls fagnaðar, hlátur-
milt partíljón og söngurinn aldrei
langt undan. Hafi einhver verið
óklár á textunum kom Begga til
bjargar, hún kunni þá alla – og
allar raddirnar, ef því var að
skipta.
Elsku Úlfhildur, kæru foreldrar,
systur og stórfjölskylda, hugur
okkar er hjá ykkur. Við erum
þakklát fyrir dýrmæt kynni og vin-
áttu við Beggu. Við gleðjumst yfir
því að hafa fengið að vera henni
samferða og sjáum hana fyrir okk-
ur, sólbrúna og brosandi, á hvítri
eyju í bláum sjó.
F.h. samstarfsfólks og vina á
Rás 1,
Arndís, Bergljót, Hanna,
Indra, Sigríður Steinunn og
Ævar.
„Hún Begga okkar er farin,“
heyrði ég vin minn Dóra segja í
símanum. Þegar maður heyrir
fréttir af fólki fara á besta aldri er
eins og tíminn standi kyrr. Minn-
ingarnar streyma í gegnum hug-
ann og bera mann með sér í ferða-
lag í gegnum liðna tíma. Það er
nefnilega svo að dauðinn kemur
alltaf á óvart þótt fólk sé alvarlega
veikt; hann er svo algildur.
Við Begga kynntumst fyrir
mörgum árum vegna sameigin-
legrar ástríðu okkar beggja, blús-
tónlistarinnar. Við unnum saman í
Blúsfélagi Reykjavíkur og í und-
irbúningsnefnd fyrir Blúshátíð
Reykjavíkur, vorum „blúsálfar“
og vinkonur. Begga var forvitin,
einlæg, ætíð annt um fólk og lífs-
gleði hennar var smitandi. Það
var svo gaman að vinna með
henni. Orð eins og „vesen“ eða
„vandræði“ voru ekki til í máli
hennar og gengið var í að leysa öll
verkefni með krafti, hlýju og
þeirri gleði sem einkenndi öll
hennar verk. Fyrir það er ég
henni óendanlega þakklát. Það er
dýrmæt reynsla að hafa notið
samveru við Bergþóru, einstök
gjöf sem ég mun ávallt geyma.
Það er þyngra en tárum taki þeg-
ar slík kona er kölluð af vettvangi
langt fyrir aldur fram.
Mér finnst ein minning lýsa
Beggu vel. Hún sagði oft við mig
að hún vildi koma með mér til Ari-
zona, þar sem ég er uppalin, til að
sjá sólina setjast í eyðimörkinni.
Mér þótti vænt um að finna að hún
sýndi uppruna mínum áhuga og
eins gerði ég mér grein fyrir því
hversu einstök Begga var og hve
opin hún var fyrir undrum lífsins.
Þessi mynd af sólarlagi í Arizona
situr einhvern veginn fast í huga
mér á þessum erfiðu tímamótum.
Sólin hefur sest í lífi Bergþóru vin-
konu minnar, en orðspor hennar
og minningarnar munu lifa og ylja
vandamönnum hennar þegar tím-
inn hefur sefað sorgina.
Fyrir mína hönd og Blúsfélags
Reykjavíkur vil ég votta fjölskyldu
hennar og vinum mína dýpstu
samúð. Blessuð sé minning Berg-
þóru Jónsdóttur.
Kristen Mary Swenson.
Begga var sem klettur. Hún
haggaðist ekki. Hún var stór og
sterk, veitti skjól og jók á yfirsýn
okkar, skilning og bjartsýni á
mannlífið. Hún var steinhörð sem
tónlistaraðdáandi en um leið svo
mjúk innst inni. Hún var rokkari.
Tónlistin átti hug hennar allan og
þá sérstaklega blúsinn. Hún mætti
á alla blústónleika og -uppákomur
sem hún mögulega gat, oftast með
Siggu vinkonu sinni, sat gjarnan á
fremsta bekk og naut tónlistar-
innar í botn. Hún tók virkan þátt í
félagsstarfi Blúsfélags Reykjavík-
ur og starfaði við hinar árlegu
Blúshátíðir í Reykjavík.
Beggu var margt til lista lagt.
Hún var úrvalsblaðamaður og
starfaði lengi sem slíkur á Mogg-
anum. Hún skrifaði bækur, tók
viðtöl og afar minnisstæðir eru
skemmtilegir útvarpspistlar frá
dvöl hennar á grísku eyjunni
Naxos, sem fluttir voru á RÚV
síðastliðið sumar. Hún var vel
menntuð í tónlistinni og í haust
tók hún þeirri áskorun að fara
sjálf að syngja blús. Vera sjálf
þátttakandi en ekki lengur ein-
ungis hlustandi. Fáir vissu reynd-
ar af því, að hún var að æfa blús-
lög með okkur strákunum í
blússveitinni Spillingu einu sinni í
viku í gamla klúbbnum, Top of
the Rocks á Keflavíkurflugvelli. Í
ljós kom að í klettinum bjó huldu-
kona, sem var mjög næm og fljót
að tileinka sér lög og texta.
Mögnuð lífsreynsla hennar end-
urspeglaðist í fallegri röddinni og
sérstakri túlkun. Enginn vissi þá
að hún var fárveik, ekki einu sinni
hún sjálf. Æfingarnar urðu því
færri en ætlað var í upphafi en
stemningin, hún var fjandi góð.
Kletturinn, sem áður stóð fastur
fyrir, hefur nú látið undan straum-
hörku tímans. Straumiðan lagðist
reyndar á hann með þreföldum
þunga svo eitthvað varð undan að
láta. Landslagið hefur breyst, en
um leið hefur víðsýnin aukist.
Sandkorn sem skolast til sjávar
verða bara hluti af nýrri strönd.
Nú stendur stóllinn hennar
Beggu auður upp við sviðið. Tón-
listin heldur áfram þótt salurinn
syrgi. En það er bara hluti af
blúsnum. Begga blús mun lifa
áfram í huga okkar.
Við sendum ættingjum og vinum
Beggu okkar innilegustu samúðar-
kveðjur.
„Blues is easy to play, but hard
to feel.“ (Jimi Hendrix)
Júlíus Valsson og Elinóra Inga
Sigurðardóttir.
Kveðja frá
bekkjarsystkinum
Það er mynd af henni Beggu í
stúdentabókinni okkar – sú hét
Tirna. Þar er hún í fuglslíki, að
syngja upp úr Bach, sitjandi á
grein. Á sínum tíma blasti það við
að teikna hana þannig; í endur-
minningunni er það fallega röddin
hennar sem ómar, hláturinn
skammt undan.
Þegar unglingar úr ýmsum átt-
um raðast í bekk í menntaskóla
getur verið nokkurt happdrætti
hvernig þær manneskjur ná sam-
an. En þegar vel tekst til skapast
tengsl og vinátta sem vara lengi,
oftast ævilangt. Við sem urðum
bekkjarsystkin í A-bekknum í
Menntaskólanum við Sund haustið
1976 höfum verið lukkunnar pam-
fílar í þessu tilliti. Og alltaf býsna
ánægð hvert með annað.
Í þessum hópi varð Begga fljótt
einn af máttarstólpunum. Svo lífs-
glöð og hláturmild. Og brosið ein-
staklega fallegt og eftirminnilegt.
Hún var hrifnæm og hugmynda-
rík, horfði vítt yfir og hafði
snemma ýmis járn í eldinum;
stúlka sem söng í Pólýfónkórnum
og sótti líka fundi hjá Fylking-
unni, það hlaut að vera sitthvað í
hana spunnið. Þótt Begga hefði
sterkar skoðanir bjó hún yfir
miklu umburðarlyndi og væri
henni einhver ósammála gat hún
hlegið að því; hún stóð ekki í að
deila við fólk. Allir þeir sem
kynntust Beggu minnast nú hinn-
ar heitu réttlætiskenndar og hinn-
ar einstæðu tónlistargáfu sem hún
var gædd og miðlaði af örlæti.
Þrátt fyrir fjölhæfni sína og for-
ustuhæfileika var hún í raun
hæversk; hún tranaði sér ekki
fram, en vakti traust og hvatti
aðra til dáða. Já, Begga lét sér
mjög annt um sitt samferðafólk.
Hún var mild og falslaus og allra
manna fjærst því að halla á fólk
með orðum. Svona þekktum við
hana á menntaskólaárunum og
svona var hún alla tíð, heil og
sönn.
Og nú verða vatnaskil. Begga er
sú fyrsta úr bekknum okkar til að
kveðja; laus undan þrautum, söng-
fuglinn kæri floginn á vit fegurð-
arinnar, „handan við hafdjúpin
bláu“. Sannarlega er það ótíma-
bært. En síst af öllu hefði hún vilj-
að sjá okkur hrygg; nei, gleðjist
frekar og syngið, vinir mínir, heyr-
ist einhvers staðar.
Það er gæfa okkar að hafa átt
samleið með Beggu, eignast hana
að félaga og vini. Öllum ástvinum
hennar sendum við innilegar sam-
úðarkveðjur.
Blessuð sé minning hennar.
F.h. 4. bekkjar A,
Pétur Ástvaldsson.
Bergþóru Jónsdóttur blaðamann
þekkti ég af vandaðri umfjöllun um
menningarmál í Morgunblaðinu
um langt skeið og vissi að þar fór
metnaðarfullur fagmaður sem
skrifaði þannig að eftir var tekið.
Beggu Jóns kynntist ég hins
vegar ekki fyrr en eftir að Opna
hóf starfsemi og hún kom að máli
við mig og lýsti áhuga sínum á því
að nýta þekkingu sína af ritvell-
inum til að skrifa inn í stærri
ramma en dagblað býður upp á.
Ég féll strax fyrir hlýrri nær-
veru hennar, hugmyndaauðgi,
glöggskyggni og notalegum húm-
or, og hlakkaði til nánara sam-
starfs.
Fyrir rétt liðlega ári var samið
um að Begga skráði sögu Eddu
Heiðrúnar Backman vinkonu sinn-
ar og þær héldu kappsfullar og
kátar af stað í leiðangurinn. Sú
fyrirætlun raskaðist á vormánuð-
um þegar sjúkdómur knúði dyra
hjá Beggu, sem krafðist tafar-
lausra viðbragða. Um stund leit út
fyrir að orrusta hefði unnist, en sá
illvígi ruddist hálfu harkalegar á
vettvang á haustmánuðum og þá
var vitað að brugðið gat til beggja
vona. Begga stundaði heimilda-
vinnu og bókarskrif eins og líðanin
leyfði henni, en auðnaðist ekki að
ljúka verkinu. Æðruleysi þeirra
sem glíma við sjúkdóma sem lífinu
ógna er ævinlega jafnaðdáunar-
vert.
Begga leit inn hjá okkur á for-
laginu í fylgd föður síns tveimur
dögum fyrir jól. Sú stund er ómet-
anleg nú. Bæði þá og í bréfi sem
hún sendi vinum sínum milli jóla
og nýárs bar hún sig vel og taldi
sig enn geta haft betur gagnvart
sjúkdómnum. Þarna var líklegast
vonin ein orðin eftir, og birtan sem
af Beggu stafaði, þrátt fyrir aug-
ljós þreytumerki, eflaust meira í
ætt við fagurskæran logann á kert-
inu í þann mund sem það brennur
niður.
Úlfhildi og fólkinu hennar öllu
sendi ég mínar innilegustu sam-
úðarkveðjur.
Vertu kært kvödd, elskuleg.
Sigurður Svavarsson.
Mikill harmur er nú kveðinn að
fjölda fólks sem sér á eftir Beggu
elskulegri sem hér er kvödd með
virðingu og þökk.
Það gerist ekki oft að með tón-
listarmanni og gagnrýnanda hans
takist einlæg vinátta, en þar sem
Begga átti í hlut virtist ekkert
eðlilegra. Þegar hún sem blaða-
maður tók viðtöl sín var það eins
og að tala við sannan listamann.
Ástríða hennar og ást á tónlist
gerði gæfumuninn.
Penni hennar gat verið skarpur
en hann var aldrei niðrandi og æv-
inlega kom hún fyrst auga á það
sem jákvætt var. Samræður okkar
um tónlistarlífið hér á landi og er-
lendis og um listir í víðasta skiln-
ingi mun ég geyma meðal dýrmæt-
ustu minninga minna.
Hinum ójafna leik er lokið, úr
penna hennar koma ekki fleiri
greinar, röddin er þögnuð, en í
huga okkar mun hún lifa áfram og
ávallt verða hluti af sviðinu.
Ég veit að þar sem þú ert núna
er gott að vera.
Hvíl þú í friði, kæra Begga.
Gerrit Schuil.
Bergþóra Jónsdóttir