Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags - 01.01.1922, Blaðsíða 65
bænda að ganga rnjög til þurðar og sumir urðu urct'
það leyti alveg heylausir, en víða náðu þeir í fóður-
bæti, og stöku menn gátu hjálpað um hey. Síðast í
marz gerði hláku um vikutíma, en hún vann lítið á
snjóa- og ísalögum sumstaðar, svo sem viða á Vestur-
landi. 5. apríl gerði norðangarð með frosti og fann-
komu fádæma mikilli og hélst sú hrið í rúma viku,.
Tók þá fyrir beit að mestu, en fremur lítið fenti þá
hér sunnanlands. 25. apríl gerði og norðankast með-
frosti og fjúki og hélst það til 7. maí, en eftir það
fór tíðin smámsaman að batna. Pó gerði norðan-
hrynu á Vestfjörðum 23. maí. Fannkyngi óvenju
mikil og áfreðar og isalög með mesta móti um
veturinn. Víðast var haglaust upp úr nýjári og þar
til síðast í marz, og mikið lengur sumstaðar. Höfðu
margir fé á gjöf fram til maímánaðarloka og sumir
fram í júni, og í nyrstu bygðum landsins var fé fyrst
látið út snemma i þeim mánuði. Hross stóöu sum-
staðar inni likt lengi og fé. Á stöku stað varð þá
þvi nær aldrei haglaust. Fénaðarhöld voru yfirleitt
góð. — Vorið var fremur kalt og grasspretta slæm
víðast hvar, einkum á túnum. Óþurkar miklir voru
um sumarið á Suður- og Vesturlandi og stundum
stórrigningar, en þó komu þurkdagar við og við»
Norðanlands og austan var tíðarfarið mjög gott um
því nær alt sumarið. Heyskapur var rýr sunnan- og
vestanlands, allgóður á Norðurlandi, en á Austur-
landi heyjaðist vel. Iiaustið var gott og hlýtt á Suður
og Vesturlandi, þó rigningasamt væri; en víða á
Norður og Austurlandi var það ágætt — stöðugir
hitar og hægviðri. Pessi góðviðristíð hélst fram í
desember og 2. þess mánaðar fóru börn á berjamó'
norður á Hólsfjöllum og tindu óskemd ber. Um það
leyti báru fíilar blóm og frjóangar greru á grösum.
Snemma í desember gerði norðanátt og snjóaði þá
sumstaðar lítið eitt, en á milli jóla og nýjárs batnaöi
tíðin á ný og hélst svo góð veðrátta fram yfir áramót.
(31)