Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.02.1993, Blaðsíða 7

Læknablaðið - 15.02.1993, Blaðsíða 7
LÆKNABLAÐIÐ 1993; 79: 49-54 49 Örn Bjarnason SIÐFRÆÐI OG LÆKNAVÍSINDI Hátíðarerindi flutt í Odda 6. desember 1992 HVAÐ ER LÍFSIÐFRÆÐI OG HVAÐ ERU VÍSINDI? Nefnd eru tvö lykilhugtök, siðfræði og vísindi. Sú siðfræði, sem hér er átt við, nefnist lífsiðfræði og er heitið sótt í enska heitið bioethics, en þetta nýyrði mun fyrst hafa sézt á prenti árið 1971 (1). Lífsiðfræði hefir verið skilgreind sem sú fræðigrein, er fjallar um kerfisbundna könnun mannlegs hátternis innan lífvísinda og heilbrigðisþjónustu, í ljósi siðrænna gilda og meginreglna (1). Þetta má einfaldlega orða þannig, að lífsiðfræði fjalli um beitingu siðfræði á lífvísindi og læknisfræði. Vísindi fela annars vegar í sér fræðin sjálf, þekkinguna sem aflað hefir verið og hins vegar »athuganir, rannsóknir, gerðar á kerfisbundinn, óhlutdrægan, raunsæjan hátt til að afla sannrar þekkingar« - eins og Arni Böðvarsson hefir orðað það (2). Nú mætti spyrja: í hverju felast svo vísindin? Einfaldasta svarið væri að sjálfsögðu: I því sem vísindamenn hafast að við öflun þekkingar og svarið er ekki eins afleitt og ætla mætti við fyrstu sýn, svo sem fljótlega mun koma í Ijós. En við þurfum frekari auðkenni, til þess að ná valdi á viðfangsefninu. GILDI MERTONS Fyrir rétturn fimmtíu árum lýsti Robert Merton (3) þeim gildum, sem hann taldi auðkenna siðferðisviðhorf í vísindum: * Algilding mælir svo fyrir, að allt framlag til vísinda verði að dæma með hliðsjón af því, að hve miklu leyti það eykur við vísindaþekkinguna. * Skipuleg tortryggni leggur ríkt á það við vísindamenn, að fresta lokamati á uppgötvunum, þar til nægjanleg gögn eru fyrir hendi, til þess að dæmt verði um gildi þeirra. Þá er þess og krafizt, að einstakir vísindamenn séu persónulega ábyrgir fyrir því, sem þeir fullyrða að þeir hafi uppgötvað. * Hlutlægni felur í sér bann við síngirni, það er bann við því að hagnast á árangri vísindavinnu og skuldbindingu fyrir vísindamanninn að stuðla að vexti og viðgangi vísindaþekkingar. * Sameignarhugmynd vísar til félagsskyldu um opið boðskiptakerfi. Vísindamenn öðlast nefnilega ekki einkarétt á uppgötvunum sínum. KENNING KUHNS A vísindamönnum hvílir þannig sú skylda að greina trúverðuglega frá niðurstöðum. Það reynist auðveldara fyrir þær sakir, að í vísindaheiminum eiga menn ekki í neinum vandræðum með tungumálið. Þetta hefir einnig verið orðað þannig, að læknar þurfa ekkert að skammast sín fyrir það, að hafa ekki velt fyrir sér undirstöðuhugmyndum læknavísindanna (4) og samkvæmt því sem Thomas S Kuhn heldur fram, er hægt að segja það sama um alla, sem fást við önnur vísindi (5). Kuhn hefir sett fram mikilvægt hugtak, sem hann nefnir vísindaviðmið. Torvelt er að skilgreina þetta hugtak nákvæmlega, enda er það safnheiti. Það nær yfir allt það, sem vísindamenn í tiltekinni grein taka sem sjálfsögðum hlut. Viðmiðið felur í sér forsendur og innihald vísindalegrar þekkingar og myndar rammann, sem vísindamenn draga ályktanir innan, þegar þeir fást við að leysa vísindalegan vanda. Það auðveldar okkur að skilja mikilvægi þessa hugtaks, ef því er bætt við, að vísindaviðmiðið felur í sér öll grunnhugtök og grunnkenningar vísinda (svo sem heilbrigði og sjúkdómur, og þar undir vélfræðilega sjúkdómsímyndin), mörk lögmæts rannsóknasviðs, viðurkenndar rannsóknaaðferðir og þau gildi, sem vísindamenn aðhyllast.

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.