Læknablaðið - 15.02.1993, Blaðsíða 25
LÆKNABLAÐIÐ
67
sé að verja miklum fjármunum til
grunnrannsókna á Islandi. Það er
óhjákvæmilegt að íhuga þau rök, að mannfæð,
bókakostur, fjár- og aðstöðuskortur setji
okkur slík takmörk, að við verðum að velja
viðfangsefni í grunnrannsóknum af ítrustu
varkámi og íhaldssemi; heist ekki fást við
önnur svið en þau, þar sem sérstaða okkar
sem Islendinga veitir okkur eitthvert slíkt
forskot að við verðum samkeppnisfærir, þrátt
fyrir öll þau vandamál sem íslenskar aðstæður
og aðstöðuleysi skapa okkur. Læknisfræði
fellur ekki í þann flokk. Grunnrannsóknir í
læknisfræði fást við alþjóðleg viðfangsefni
sem sjaldnast eru nokkur forskotsskilyrði
á Islandi til að fást við. Frá þessu em að
sjálfsögðu undantekningar. Frægust er
uppgötvun Björns Sigurðssonar á Keldum á
hæggengum veirusjúkdómum, en hann nýtti
sér sérstaka aðstöðu við athuganir á innfluttum
búfjársjúkdómum. Það sem sköpum skipti í
hans athugun var hins vegar óháð stað og
stund og bundið hæfileikum einstaklingsins.
I aðalatriðum hafa Islendingar ekkert forskot
í gmnnrannsóknum í læknisfræði og hljóta
í ríkum mæli að treysta á að vísindamenn
í útlöndum láti ekki deigan síga og að við
getum hagnýtt niðurstöður þeirra í þágu
íslenskra sjúklinga. Með talsverðum rétti
má halda því fram að einmitt þetta hafi
verið gert af miklum dugnaði. Fá lönd í
heiminum eiga læknastétt sem er sigldari
og alþjóðlegar menntuð en ísland. Sú
hátæknilæknisfræði, sem mjög setur svip sinn
á íslenska heilbrigðisþjónustu, og fellur aðeins
í hlut útvalinna á jarðarkringlunni, byggist
á erlendum rannsóknum og tækniþróun.
Þannig má halda því fram að íslendingar hafi
náð langt í hagnýtingu þekkingar og tækni,
sem þróuð er á alþjóðlega vísu, og reynslan
hafi því leitt í ljós að farsæl hagnýting
vísinda blessist ágætlega, þótt menn séu
ekki af vanefnum að bisa við rannsóknir á
grundvallarvandamálum.
Að mínu áliti eru fyrrgreind rök gegn
íslenskum grunnrannsóknum í læknisfræði alls
ekki léttvæg og skýra ef til vill hvers vegna
litlir fjármunir hafa til þeirra runnið. Hins
vegar tel ég þau rök miklu þyngri sem kalla
á aukna áherslu á slíkar rannsóknir.
1. Almennasta röksemdin snertir
menningarlegt innihald fræðigreinarinnar.
Alvarleg ástundun grunnvísinda í læknisfræði
þjónar innri menningu þess samfélags,
sem fæst við hagnýtingu greinarinnar, og
vinnur gegn einangrun og sveitamennsku í
faginu. Það er menningarleg nauðsyn í öllum
starfsgreinum að menn fái notið sín til fulls,
en búi ekki við þá tilfinningu að örlögin hafi
hneppt þá í andlega fjötra með því að úthluta
þeim starfsvettvangi á Islandi.
2. Þótt fallist sé á að íslendingar hafi sérstakar
skyldur á vissum fræðasviðum, sem engir
geti sinnt betur, og slík svið eigi að sitja í
öndvegi, mega þau ekki ýta öðrum greinum
út í kuldann. Alvarleg glíma við séríslensk
rannsóknarsvið krefst nálægðar og stuðnings
hinna víðtæku fræða. Sem dæmi má nefna að
innan læknisfræði fá athuganir á faraldsfræði
sjúkdóma á Islandi, til dæmis hjarta- og
æðasjúkdóma eða arfgengra heilablæðinga,
því aðeins vísindalegt gildi að þær séu
settar í víðara samhengi nýjasta skilnings
á meingerð þessara sjúkdóma. Samstarf
við erlendar stofnanir og vísindamenn er
óhjákvæmilegur þáttur í svo alþjóðlegri
starfsemi sem grunnrannsóknir eru, en kemur
ekki í stað íslensks fræðasamfélags sem menn
leita stuðnings í. Einnig nýtist slíkt samstarf
því aðeins að íslensku þátttakendurnir séu
sjálfir virkir fræðimenn.
3. Hvemig skapast aðstaða til
vísindarannsókna? Tækjakostur, bækur og
þjálfað aðstoðarfólk? Aðeins með því að sýnt
sé fram á þörf fyrir þessa hluti og starfskrafta
með starfseminni sjálfri. Ef viðfangsefnum
er frestað þangað til aðstaða er fyrir hendi þá
verður hún aldrei fyrir hendi.
4. Ef við trúum því að grunnrannsóknir séu
grundvöllur hagnýtra rannsókna og jafnvel
háskólakennslu, og um það getur verið
ágreiningur, getum við ekki leyft okkur þann
munað að glíma aðeins í alvöm við þau svið
þar sem von er á viðurkenningu og aðdáun
útlendinga. Og enn skal það ítrekað, að ég
tel að Islendingar hafi sérstökum skyldum að
gegna á vissum fræðasviðum. Þessi svið eru
einungis í eðli sínu víðtæk. Spurningar og
viðfangsefni hlaupa út undan sér og krefjast
áður en varir aðferða og þekkingar á óvæntum
fræðasviðum.
5. A örfáum árum hefur orðið gerbylting í
gagnamiðlun, sem hefur dregið stórlega úr
því óhagræði, sem vanbúin bókasöfn hafa
verið íslenskum vísindamönnum. A þessu