Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.02.1993, Blaðsíða 26

Læknablaðið - 15.02.1993, Blaðsíða 26
68 LÆKNABLAÐIÐ sviði hefur því aðstaða þeirra í samanburði við erlenda starfsbræður mjög jafnast. Og sú staðhæfing stendur þótt það sé viðurkennt að aðbúnaður íslenskra rannsóknabókasafna sé enn einn svartastur blettur á íslenskri menningaraðstöðu. 6. Loks skal talin sú röksemd, að grunnrannsóknir styðji mjög farsæla hagnýtingu þekkingar. Þar sem framhaldsmenntun lækna rís hæst fer hún fram í nánum tengslum við virkar grunnrannsóknir og í vaxandi mæli er krafist beinnar þátttöku í slíkum rannsóknum til sérfræðiviðurkenningar. Að sjálfsögðu er ekki stefnt að því að allir sérmenntaðir læknar verði grunnvísindamenn, en menntunar- og undirbúningsgildi rannsóknarvinnunnar er talið slíkt, að réttmætt sé að gera slíkar kröfur. Eg tel að íslensk læknisfræði og heilbrigðisþjónusta njóti þess, hve margir íslenskir læknar sækja framhaldsmenntun sína til stofnana, þar sem ofangreindar aðstæður ríkja og kröfur eru gerðar. Hins vegar er mér ekki grunlaust um, að íslenska grunnmenntunin líði fyrir það, hve litla snertingu læknanemar hafa við frjótt rannsóknarstarf meðan á læknanámi stendur. Meðal lækna hefur oft legið það orð á, að minna verði úr fræðastörfum manna, þegar heim kemur en efni virðast standa til, þegar ferill þeirra á erlendri grund er skoðaður. Venjulega er aðstöðuleysi kennt um og margskiptu annríki og sjálfsagt með réttu. En verður ekki einnig að íhuga þann möguleika, að annmarkar menntunar komi fram einmitt þegar reynir á frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð. Þegar íslenskir unglæknar hafa þreytt erlend læknapróf hefur þekking þeirra helst reynst götótt í grunngreinum eins og sameindalíffræði og frumulíffræði. A þessum sviðum hefur orðið slík þekkingarsprenging að þekkingarforðinn tvöfaldast á örfáum árum. Það verður stórt verkefni á næstu árum, að hagnýta þessa þekkingu í þágu hinna sjúku og kallar á víðtæka og ítarlega þekkingu í grunngreinum læknisfræðinnar, þekkingu sem aðeins fæst með ástundun rannsókna á þessum sviðum. HVER ER STAÐA GRUNNRANNSÓKNA í LÆKNISFRÆÐI Á ÍSLANDI? Þótt ítrekað hafi verið gefið í skyn hér í sögðum orðum, að staða grunnrannsókna í læknisfræði á íslandi sé heldur bágborin, er einnig unnt að segja ýmislegt jákvætt um framtak Islendinga á þessu sviði, og frá því ég flutti fyrst þessar hugleiðingar á ráðstefnu Vísindafélagsins um grunnrannsóknir vorið 1987 hafa átt sér stað miklir landvinningar á mörgum sviðum. Grunnrannsóknir eru stundaðar í öllum grunndeildum læknadeildar, í líffærafræði, lífeðlisfræði, lífefnafræði, lyfjafræði, heilbrigðisfræði, meinafræði, ónæmisfræði og bakteríu- og veirufræði. Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum státar af stórmerku framlagi á sviði hæggengra veirusjúkdóma, sem hefur öðlast aukið gildi í tengslum við þá nýjustu drepsótt sem herjar á mannkynið. I öðrum deildum Háskólans, sérstaklega Líffræðistofnun og Efnafræðistofu Raunvísindastofnunar eru stundaðar rannsóknir, sem beinlínis leita eftir grundvallarskilningi á sjúkdómum og efla því íslenska læknisfræði í samræmi við það sem fyrr hefur verið sagt. I Blóðbankanuin er deild, sem leggur stund á erfðafræðilegar athuganir og hefur náð stórmerkuin árangri. Krabbameinsfélag íslands hefur lagt út í rekstur sérstakrar rannsóknarstofu í frumulíffræði, þar sem glímt er við grundvallarspurningar, sem snerta meingerð krabbameins, bæði á sviði sameindaerfðafræði og frumulíffræði. Veikastur er hlutur grunnrannsókna á hinum klínísku deildum sjúkrahúsanna, þar sem hins vegar eru stundaðar talsvert öflugar klínískar rannsóknir. Þetta verður að teljast skiljanlegt og ýmsir munu telja að engu þurfi hér um að breyta. Starfsmenn þessara deilda eru klínískt menntaðir og hlutverk þeirra er bein þjónusta við sjúklinga, greining og meðferð sjúkdóma. Eru grunnrannsóknir ekki utan starfssviðs þeirra og sjóndeildarhrings? Að mínu áliti er svarið við þeirri spumingu eindregið nei. I Bandarikjunum, þar sem ég þekki best til framhaldsmenntunar lækna, hefur verið lögð rík áhersla á þjálfun fagmanns sem þeir kalla »physician-researcher«, það er læknir sem skiptir starfsdeginum milli rúmstokks og rannsóknarstofu, og þarf því menntun og þjálfun til að ná árangri á báðum sviðum. Þessi sjónarmið eru ekki framúrstefnuleg lengur, því öll háskólasjúkrahús í Bandaríkjunum skapa starfsliði sínu skilyrði til grunnrannsókna og lýsa friðhelgi yfir hluta vinnutímans sem skal varið á rannsóknarstofu.

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.