Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.02.1993, Blaðsíða 8

Læknablaðið - 15.02.1993, Blaðsíða 8
50 LÆKNABLAÐIÐ Sérstakt áhugasvið Kuhns er saga vísindanna og kenning hans er sú, að vísindin þróist ekki hægt og hægt, heldur í stökkum. Um langan tíma eru viðmið vísindagreinar óbreytt og vísindamenn eru önnum kafnir við lausn vandamála innan gildandi hugtakakerfis, innan viðtekinna vísinda, eins og Kuhn orðar það. Slík tímabil standa ekki um aldur og ævi. Fyrr eða síðar hrynur viðmiðið og vísindakreppa hefst. Henni lýkur, þegar fleiri og fleiri vísindamenn sameinast um nýtt vísindaviðmið og í hönd fer nýtt skeið viðtekinna vísinda. AÐ VITA HVAÐ VIÐ VITUM OG VITUM EKKI En til eru þeir sem ekki taka undir það, að þörf sé á öllum þessum vísindum. Því heyrist fleygt, að það myndi bæta læknismeðferð, ef við hættum að uppgötva og einbeittum okkur að því að koma því í not, sem við þegar vitum (6). Þetta tvennt, öflun nýirar þekkingar og hagnýt notkun hennar, útilokar að sjálfsögðu ekki hvort annað. Öfgarnar minna okkur hins vegar á, að megintilgangur þess að birta læknum ný vísindi, er að hafa áhrif á lækningavenjur, í því skyni að bæta þjónustuna. Þetta leiðir hugann einnig að því, hvort við getum greint að, hvað við vitum og vitum ekki (7). Fyrir tuttugu árum lagði læknirinn og faraldsfræðingurinn Archibald Cochrane á það áherzlu, að stýrðar meðferðarprófanir verði leiðbeinandi fyrir ákvarðanir um heilbrigðisþjónustu (8). Hann sagði enn fremur, að það megi svo sannarlega finna starfsstétt okkar til vansa, að við höfum ekki komið upp gagnrýnu yfirliti yfir allar stýrðar meðferðarprófanir sem máli skipta. Þetta yfirlit þurfi að vera eftir sérgreinum og undirgreinum og endurskoðað reglulega (8). Nú hafa menn það fyrir satt, að þekkingin tvöfaldist á fimm til tíu ára fresti. Þessi vitneskja er væntanlega hluti undirskilinnar þekkingar, því ég hefi hvergi séð þeim aðferðum lýst, sem gera mönnum kleift að mæla þekkinguna. Það skiptir hins vegar öllu máli, hvort þekking hefir leitt til framfara í iðkun hagnýtrar læknisfræði. MARKMIÐ NÚTÍMAVÍSINDA Allar framfarir í læknisfræði eru háðar skilningi á viðeigandi lífeðlisfræðilegum og meinafræðilegum ferlum og hvfla á læknisfræðirannsóknum, sem endanlega hljóta að einhverju leyti að fela í sér tilraunir á mönnum (9). Það er í þessa veru, sem heitið »rannsóknir á mönnum« er notað (10). Hagnýtt markmið nútímavísinda er leit að þekkingu, sem nota má til þess að ráða yfir og stjórna náttúrunni og í því felast ráð til þess að sigrast á sjúkdómum. I læknisfræðirannsóknum verður því að gera glöggan greinarmun, annars vegar á klínískum rannsóknum, sem í eðli sínu miða að greiningu á kvilla hins sjúka, meðferð og lækningu hans og hins vegar á fræðirannsóknum, sem gerðar eru í vísindaskyni eingöngu og hafa ekki beint gildi fyrir sjúkdómsgreiningu eða meðferð þess, sem undir rannsóknina gengst (9). Hagnýtt markmið læknisfræðirannsókna á mönnum á þannig að vera, bættar greiningar-, lækninga- og forvarnaaðferðir og aukinn skilningur á orsökum sjúkdóma, uppruna þeirra og þróunarferli (9). ALÞJÓÐLEGAR YFIRLÝSINGAR Til þess að auðvelda mönnum að feta þröngan stíg siðfræði vísinda, hafa verið gefnar út ýmsar alþjóðlegar yfirlýsingar og samþykktir. Fyrstar voru Núrnbergsiðareglumar frá árinu 1947, sem urðu til samhliða réttarhöldum yfir læknum, sem ákærðir voru fyrir að hafa gert grimmdarlegar tilraunir á föngum og herteknu fólki rneðan á síðari heimsstyrjöldinni stóð. Þær leggja sérstaka áherslu á það, að samþykki einstaklingsins sé gefið af frjálsum vilja og því er slegið föstu að það sé algerlega nauðsynlegt (10). Arið 1964 samþykkti þing Alþjóðafélags lækna í Helsinki fyrstu alþjóðlegu yfirlýsinguna um tilraunir á mönnum. Við nýja gerð árið 1975 (Helsinki II) var vflckað það svið, sem hún tekur til, þannig að nú nær hún yfir allar læknisfræðirannsóknir á mönnum (9). Meðal mikilvægra nýrra ákvæða var hugmynd að vísindasiðanefndum. Þetta er undirstöðuskjal og hefir öðlast almenna viðurkenningu. Þannig hefir textinn verið settur sem fylgiskjal við Drög að alþjóðlegim ráðleggingum sem Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) og Ráðið fyrir Alþjóðleg samtök um læknavísindi (CIOMS) gáfu út árið 1982 (10).

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.