Árbók skálda - 01.12.1956, Page 26
24
speglar samsuðu monts og forvitni. Hún er ekki fríð, nokkuð rasssíð, en lag-
lega iimuð, fín og smurð.
„Þetta er spennandi," segi ég þaðan sem ég stend á keisnum.
Konan horfir á mig með hroka í auga; hún talar ekki við pikkaló eins og
mig. Hún er kona hins mikla bassa. Brosið stirðnaði á andlit mínu. Hvað
vildi ég líka vera að ávarpa fólk, ég sem var ekki yfir neitt settur nema skips-
rotturnar — og við þær var ég hræddur.
En nú eru allir komnir á sinn stað og Grímsi grípur stýrisstöngina, kippir
í húfuskyggnið, kallar snjallt:
„Sleppal"
„Þóftubandið klárt?!"
„Fulla ferð!"
Þá róta skrúfurnar upp sjónum og Grímsi leggur hart og knálega á stýrið,
stendur gleiður, og löðrið frussast yfir hann og bátana, sem þeysa í samfloti
yfir hafflötinn. Stafnbúarnir stíga ölduna taktbundið hofmannlega, með árarn-
ar í kross, tilbúnir að ýta sundur þegar bassinn kallar. Og nú sleppir Grímsi
annarri hendinni af stýrisstönginni og bregður fyrir auga til að athuga allar
aðstæður, stefnu torfunnar og stærð ... En hvað er þetta? Hinn skörulegi
maður og mikli bassi verður allt í einu að 99 útlimum, líkist vindmyllu í lausu
lofti og fellur aftur fyrir sig — í hafið.
Ég leit á konuna. Neðri parturinn á andliti hennar varð slappur. Svo missti
hún kikinn, síðan vitið — og byrjaði að æpa. Kíkirinn féll ofan á dekk og
glerin úr honum brotnuðu í mél.
„Jesús María," flissaði Nikolja matsveinn og sló á læri sér. Hann stóð á
dekkinu horaður eins og engispretta og skjálfandi eins og störin í landi feðra
hans.
Konan pataði mállaus í áttina til hans, fékk svo málið og sagði í fáti:
„Viljið þér ekki stinga yður? Maðurinn minn er nefnilega að drukkna."
„Það eru hákarlar," hló Nikolja og tók undir sig stökk, ekki fyrir borð,
heldur að loftventlunum yfir vélarúminu. Inn í þá tróð hann sér og hrópaði:
„Vélalið! Komið upp fljótt, hann Grímsi er að drukkna!" Vélamennirnir komu,
allir komu, og Nikolja útskýrði fyrir þeim aðdragandann í stuttu máli. Karl-
arnir göptu og horfðu hugfangnir á það sem fram fór á hafinu.
Konan vissi ekki sitt rjúkandi ráð og veifaði manni sínum eins og vitstola
manneskja. „Grímsi minn, ég er hér!" Að svo mæltu renndi hún beittum rauð-
máluðum nöglunum svo harkalega eftir hársverðinum, að augun glenntust
upp á gátt — og hvíslaði eitthvað ráðþrota. Síðan ávarpar hún hópinn á
dekkinu:
„Ég er aumingi. Vill ekki einhver bjarga manninum mínum, hann er að
drukkna."
„Hann fær ábyggilega slag," hló Nikolja og dúaði í hnjáliðunum.
Konan henti þetta á lofti og hrópaði: „Hæ, Grímsi minn! Passaðu að fá
ekki slag!"
„Haltu kjafti kona," kveður við frá Grímsa.
Nikolja hló eins og fáviti, og nú fór að færast líf í tuskurnar. Grímsi sýpur