Morgunblaðið - Sunnudagur - 30.12.2012, Side 46

Morgunblaðið - Sunnudagur - 30.12.2012, Side 46
46 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 30.12. 2012 Í́ myndum H ann kjagaði geðvonskulega um fjöruna, hafði allt á hornum sér. Bölvaði skúmunum í sand og ösku og leit þá hornauga. Foreldrarnir komu þó í veg fyrir að hann hjólaði í þá enda hefði það getað farið illa. Þegar almenn aðvör- unarorð voru látin sem vindur um eyru þjóta var skotið á fjöl- skyldufundi, þar sem unglingurinn var tekinn til bæna. Það er ekki síður flókið að vera belgfullur af gelgju í fjörunni á Suð- ur-Georgíu en í Kringlunni í Reykjavík. Tvö ár eru liðin frá því Ragnar Axelsson, ljósmyndari Morg- unblaðsins, myndaði litla mörgæsarhnoðrann, sem hlaut nafnið Bölvar á síðum þessa blaðs, og fjölskyldu hans á ferð sinni um Suður-Georgíu og Suðurskautslandið. Samskipti þeirra heilluðu Ragnar og minntu hann á samskiptin í mannheimum. Hvað ungur nemur, gamall temur. Það gildir greinilega jafnt meðal dýra sem manna. Sé engu tauti við ungviðið komið getur hreinlega þurft að taka í hnakkadrambið á því. Ella gæti það farið sér að voða. Hafi Bölvar tekið tali er hann væntanlega orðinn að tígu- legri kóngamörgæs í dag. Kóngamörgæsir eru næststærsta tegund mörgæsa í heiminum, næst á eftir keisaramörgæsum. Þær eru um 90 cm á hæð fullvaxnar og vega á bilinu 11 til 16 kg. Lítill sem enginn munur er á fjöðrum karl- og kvendýra en þau síðarnefndu eru örlítið lágvaxnari. Þess má til gamans geta að minnsta mörgæsategundin er dvergmörgæs, þær vega aðeins 1 til 1,8 kg og eru minni en sumar endur. Kóngamörgæsarungar eru brúnir og hnoðralegir fram til eins árs aldurs, eins og Bölvar á myndunum hér til hliðar, en hamurinn tekur ekki á sig endanlega mynd fyrr en um tveggja ára aldurinn. Villtar kóngamörgæsir ná að meðaltali fimmtán til tuttugu ára aldri. Algengast er að kóngamörgæsir byrji að para sig um sex ára aldurinn og þær líta ekki við öðrum maka meðan á æxl- unarferlinu stendur en það getur tekið allt að sextán mánuði. Einungis 29% halda sig þó við sama makann milli ára. Mör- gæs verpir yfirleitt ekki eggjum árlega, ýmist annað hvert ár eða tvö ár af hverjum þremur. Pör eru mjög samheldin meðan þess er beðið að unginn líti dagsins ljós og skiptast foreldr- arnir á að halda hita á egginu og afla fæðu. Stærsta varpland kóngamörgæsa Suður-Georgía er stærsta varpland kóngamörgæsa en áætlað er að um eitt hundrað þúsund pör komi þangað árlega í þeim tilgangi. Ungarnir eru alfarið háðir foreldrum sínum um hlýju og fæðu fyrsta mánuðinn eða svo en eftir það geta þeir farið að halda sjálfir á sér hita og verja sig fyrir flestum rándýrum, ekki síst skúmnum. Hamurinn verður þó ekki sjótækur fyrr en að fjórtán til sextán mánuðum liðnum. James Cook skipstjóri steig fyrstur manna á land á Suður- Georgíu árið 1775 og nefndi eyna í höfuðið á Georg konungi þriðja. Suður-Georgía og smærri nærliggjandi eyjur hafa til- heyrt Bretlandi allar götur síðan. Frá Suður-Georgíu lá leið Ragnars og félaga hans í leiðangr- inum til Suðurskautslandsins. Ísinn þar er í senn yfirþyrmandi og ægifagur. Ein lítil mörgæs á vappi má sín lítils gagnvart sköp- unarverkinu, svo sem sjá má á stóru myndinni hér að ofan. Ætli þetta sé Bölvar litli, kominn út í hinn stóra heim, bölvandi og ragnandi? Nema hann hafi tekið upp nýja og betri siði með vexti og þroska. Jöklarnir eru að hopa á Suðurskautslandinu eins og annars staðar á jörðinni og ísinn hér að ofan er í raun jaki sem molnað hefur frá breiðunni. Jakinn er eins og hvert annað abstrakt lista- verk, hrjúfur og skorinn. Hver dráttur virðist hafa sinn tilgang. Um 98% Suðurskautslandsins eru þakin ís sem er að minnsta kosti 1,6 km að þykkt og dæmi eru um að frost hafi farið niður í 89°C. Enginn maður hefur fasta búsetu á Suðurskautslandinu en hópar vísindamanna eru á víð og dreif við rannsóknir, jafnan á bilinu eitt til fimm þúsund manns. Einu dýrin sem þrífast á Suð- urskautslandinu eru dýr sem geta lagað sig að miklum kulda, svo sem mörgæsir og selir. Á þessari opnu og þeirri næstu getur að líta úrval ljósmynda Ragnars Axelssonar úr téðum leiðangri og eru mörgæsir leiddar til öndvegis í syrpunni, enda dálæti okkar flestra, ásamt sjálfum ísnum. Tvö ár eru liðin og brennur Ragnar þegar í skinninu að kom- ast aftur þangað suður. Þá yrðu þeir félagar mögulega samein- aðir á ný, Bölvar og Ragnar. Gangi Vilborg Arna Gissurardóttir fram á Bölvar í millitíðinni skilar hún kveðju. Iðandi líf á ísnum SUÐURSKAUTSLANDIÐ OG SUÐUR-GEORGÍA ERU FLESTUM OKKAR FJARLÆGUR HEIMUR. FYRIR TVEIMUR ÁRUM VARÐ RAGNAR AXELSSON, LJÓSMYNDARI MORGUNBLAÐSINS, ÞEIRRAR GÆFU AÐNJÓTANDI AÐ STINGA ÞAR VIÐ STAFNI. MYNDAÐI HANN BÆÐI STAÐHÆTTI OG DÝRALÍF, ÞAR SEM MÖRGÆSIN, DÁLÆTI OKKAR ALLRA, ER ATKVÆÐAMIKIL. Myndir: Ragnar Axelsson rax@mbl.is Texti: Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.