Morgunblaðið - 28.06.2013, Qupperneq 46
46 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 28. JÚNÍ 2013
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
„Ég er að undirbúa Everest-verkefnið, mynd-
in á að fara í tökur í október, samkvæmt nýj-
ustu fréttum […] grænt ljós á það ætti að
koma í lok þessarar viku eða byrjun þeirrar
næstu,“ segir leikstjórinn Baltasar Kormákur,
spurður að því hvað sé framundan hjá honum.
Á hann þar við kvikmynd byggða á sannsögu-
legum atburðum, þegar átta fjallgöngumenn
fórust í aftakaveðri á hæsta fjalli jarðar þann
11. maí 1996, mannskæðasta slys sem orðið
hefur á fjallinu. Baltasar er vægast sagt önn-
um kafinn, með mörg járn í eldinum og helst
þyrfti að hringja í hann á tveggja vikna fresti
til að fá nýjustu fréttir. Þrátt fyrir annríkið
gefur hann sér þó góðan tíma til að ræða við
blaðamann í leit að fréttum.
Baltasar segir aldrei hægt að ganga að
neinu vísu í kvikmyndageiranum en er þó
bjartsýnn á að tökur á Everest hefjist á fyrr-
nefndum tíma. Hann segist ekkert mega segja
um val á leikurum í myndina nema það að ein-
hverjir þekktir verði þeirra á meðal. Síðasta
myndin sem hann leikstýrði í Hollywood, 2
Guns, var með Hollywood-stjörnunum Mark
Wahlberg og Denzel Washington í aðal-
hlutverkum og það verður því forvitnilegt að
sjá hverjir klífa Everest. „Það verða stór nöfn
þarna, alla vega tveir sem eru mjög þekktir.
Ég er að fá réttu karakterana í hlutverkin,
ekki að elta stjörnur,“ segir Baltasar um leik-
araleitina. Tökurnar muni hefjast í Nepal, á
Everestfjalli og næsti tökustaður hugsanlega í
Dólómítunum á Ítalíu.
Þetta verða líklega erfiðar tökur?
„Þetta verður rosalegt. En ég hugsa að
þetta verði ekkert erfiðara en Djúpið,“ svarar
Baltasar og hlær.
Byggð á sönnum atburðum
Ég sá á vefnum Deadline að þú ert að fara
að framleiða og leikstýra þriller á ensku.
Hvaða mynd er átt við þar?
„Það komu til mín strákar frá XYZ Films,
fyrir um ári, með hugmynd eða blaðagrein
réttara sagt um að á Filippseyjum og í Mexíkó
hefði föngum verið hleypt út til að myrða með
fjarvistarsönnun. Gengin eru komin með þetta
mikla stjórn á fangelsunum og þetta komst
upp, á báðum stöðum,“ svarar Baltasar. Hann
hafi í kjölfarið mótað grunnhugmynd að kvik-
mynd sem hann hafi spunnið út frá þessum at-
burðum. XYZ Films hafi komið að dreifingu
filippseyskrar kvikmyndar, On the Job, sem
frumsýnd var á síðustu kvikmyndahátíð í Can-
nes og byggð er á sömu atburðum. „Pitch-ið
mitt [grunnhugmynd að kvikmynd] var búið
að fara á stúdíóin og nú eru stúdíóin öll æst í
að kaupa það af mér og munu sjálfsagt kaupa
endurgerðarréttinn að hinni myndinni líka svo
að það verði engir árekstrar. En þetta er ekki
endurgerð á þeirri mynd, ég var búinn að
semja söguna og svo sá ég þessa mynd tveim-
ur vikum síðar, þegar hún var búin að vera í
Cannes,“ segir Baltasar og á við þá filipps-
eysku. Hans hugmynd og filippseyska myndin
séu ekki lík að neinu leyti nema því að vera
byggð á sömu atburðum. „Þetta er alls ekki
endurgerð,“ ítrekar Baltasar. „Ég á nú í
samningaviðræðum og það eru reyndar öll
stúdíóin: Sony, Fox, Warner Bros., Paramo-
unt og Universal búin að reyna að komast í
þetta, hafa öll sýnt þessu áhuga. Ég er á loka-
sprettinum í viðræðum við eitt af þeim og
stóran framleiðanda sem vinnur hjá því stúd-
íói sem ég mun framleiða myndina með. Síðan
mun ég skrifa handrit að þessu með ein-
hverjum Ameríkana, hugsanlega, sem ég get
valið sjálfur.“
Hafnaði Fast and the Furious 7
Baltasar segir stúdíóin vilja að hann leik-
stýri myndinni og segir stöðu sína hafa breyst
heilmikið í Hollywood, nú fái hann nánast dag-
lega leikstjórnartilboð. „Ég hafnaði m.a. því
stórvirki Fast and the Furious 7, mér var boð-
in hún. Það er 240 milljóna dollara mynd,“
segir Baltasar kíminn, engin smáupphæð lögð
í þá hasarmynd. „Þetta er ekki sú leið sem ég
hef áhuga á að fara,“ segir Baltasar um mynd-
ina, þá sjöundu í vinsælli syrpu. Hann segir þó
ákveðinn heiður fólginn í því að vera boðið að
leikstýra mynd af þessari stærðargráðu.
Talandi um peninga, veistu hvað Everest
mun kosta í framleiðslu?
„Já, það er talað um tæpar 60 milljónir doll-
ara nettó, svona 80 milljónir með skattaaf-
sláttum og slíku. Þú hefur 80 milljónir dollara
til ráðstöfunar en hún kostar framleiðendurna
svona 20% minna. Þetta er allt frá 20-40% sem
þú getur fengið endurgreitt á þessum stöðum
sem þú tekur á. Þetta er ekkert svo hátt á Ís-
landi miðað við víða,“ segir Baltasar. „Þetta
eru sömu aðilarnir sem gerðu með mér
Contraband og gerðu Les Misérables og þetta
er gert fyrir svipaða upphæð og Les Miséra-
bles.“
Byggt á sögum úr leiknum
Og svo er það EVE Online …
„Já, EVE Online, það er sjónvarpssería sem
við ætlum okkur að gera og vonandi fyrir al-
þjóðamarkað, við gerum hana þannig eða ekki.
Í haust förum við sennilega að þreifa á sjón-
varpsstöðvum og fleiri aðilum með það,“ segir
Baltasar.
Nú er heimur tölvuleiksins ansi stór, hvern-
ig í ósköpunum á að búa til þætti úr honum?
Verður þetta teiknað?
„Nei, þetta verður leikið efni, bara eins og
Star Trek, nútímaútgáfa. Það sem mér finnst
svo flott við þetta er að þetta er byggt á sög-
um sem hafa gerst inni í leiknum þannig að
þetta er að einhverju leyti gagnvirkt. Ef þetta
gengur þá getur það sem gerist í leiknum, í
framhaldi af þessu, haft áhrif á hvert sjón-
varpsserían fer og öfugt. Þannig að þetta er
stór pæling, við erum að vinna þetta með CCP
[framleiðanda leiksins] og það munu hugs-
anlega 500 milljónir manna horfa á sjónvarps-
þáttinn og svo er ákveðinn fjöldi sem kemur
til með að fara inn í leikinn. Þeir [hjá CCP] sjá
þetta sem möguleika á að efla leikinn en ég sé
möguleika á að gera eitthvað spennandi,“ seg-
ir Baltasar. „Þetta er eins og Game of Thro-
nes í geimnum. Sögurnar geta farið hvert sem
er, þú ert með heim sem er búið að búa til í
leiknum og svo eru karakterar sem lifa í hon-
um og geta farið út um víðan völl.“
Þetta virðist vera risavaxið verkefni. Er
stefnt að því að gera þetta á Íslandi?
„Já, það er það og það er planið. Þú færð
bara það fólk sem þú þarft. Eins og Fram-
estore, sem er reyndar að breyta nafninu í
Reykjavík Visual Effects, gerði brellur fyrir 2
Guns og fólk var mjög hrifið af því hvað þau
gátu gert,“ segir Baltasar. Vissulega komi fólk
erlendis frá til að vinna í verkefninu. „Draum-
ur minn er að byggja upp bransa hérna sem
getur tekið þátt í og unnið svona verkefni frá a
til z.“
Hvatning til stjórnvalda
„Oblivion og Prometheus voru teknar hérna
út af landslaginu en stúdíótökurnar fóru ekki
fram hérna. Við þurfum að koma þessu á það
stig að menn taki líka stúdíóið hérna. Þetta
gæti verið frábær staður, bæði fyrir okkur og
fyrir aðra til að koma á og vinna,“ segir Balt-
asar. Hann sé að einhverju leyti að gera þetta
sjálfur og vonandi sé hægt að telja stjórnvöld-
um trú um að þetta sé málið. „Þetta er brillj-
ant iðnaður sem gengur ekki á neina náttúru-
afurð, skilur engin sár eftir sig, ef rétt er á
málum haldið og þá er þetta bara brilljant.
Fullt af vinnu, skemmtilegri og áhugaverðri
og það kemur afurð út úr því.“
Erum við þá að tala um að 200 manns, svo
einhver tala sé nefnd, komi að EVE Online-
þáttunum?
„Já, það er svakaleg vinna sem fylgir svona
verkefni, miklu meira. Ef við náum að búa til
stúdíóaðstöðu hérna, ef EVE Online er orðin
meiriháttar sjónvarpssería. Þetta er ekki svo
fjarlægt […] ég var að gera pilot [prufuþátt,
fyrsti þáttur mögulegrar sjónvarpssyrpu] fyr-
ir HBO í síðasta mánuði, það er stærsta sjón-
varpsstöð í heimi. Þetta er ekki eins fjarri lagi
og menn halda. Ef fjármagn fæst til má alveg
eins gera þetta hérna,“ segir Baltasar. HBO-
þátturinn var fyrir þættina Missionary en
sögusvið þeirra er Berlín árið 1969 og segja
þeir af bandarískum trúboða sem gengur til
liðs við neðanjarðarhreyfingu sem er að reyna
að hjálpa fólki að komast yfir Berlínarmúrinn.
Tökur á þeim fóru fram í Ungverjalandi og
Þýskalandi. „Þetta var eins og að gera ís-
lenska mynd, bara aðeins stærra „budget“,“
segir Baltasar og hlær.
Áhugi á að endurgera Ófærð
Svo ertu líka að framleiða sjónvarpsþætti
sem verða teknir upp á Seyðisfirði …
„Já, það er planið að gera það, þeir heita
Ófærð, Trapped á ensku. Trapped er eiginlega
betra heiti af því það nær utan um karakter-
inn líka. Það eru sakamálaþættir sem við Sig-
urjón Kjartansson byrjuðum að skálda sam-
an,“ svarar Baltasar en fleiri komu að
handritsskrifum, m.a. Ólafur Egilsson. Baltas-
ar stofnaði í fyrra fyrirtækið RVK Studios
með Sigurjóni og Magnúsi Viðari Sigurðssyni
og framleiðir það þættina. „Við erum í sam-
starfi núna við Þýskaland, það er mikill áhugi í
Frakklandi og áhugi á að endurgera þetta þó
ekki sé farið að sýna þættina, ekki einu sinni
búið að taka þá. Það er annað sem er áhuga-
vert, þetta hefur opnast miklu meira, alla vega
fyrir mig. Ef ég er að gera eitthvað svona er
strax farið að sýna því áhuga erlendis. Svo er-
um við með fleiri seríur í gangi, erum að þróa
þær. Við erum líka að gera teiknimyndaseríu
með Hugleiki Dagssyni, Hulli, sem á að sýna í
haust á RÚV. Fyrirtækið er komið á fullt og
við vorum að kaupa kvikmyndaréttinn á Hús-
inu eftir Stefán Mána. Þannig að RVK Studios
er framtíðarfyrirtæki sem ég er að byggja
upp.“ Baltasar nefnir að auki kvikmynd Dags
Kára Péturssonar, Rocketman, sem fyrirtæki
hans Blueeyes framleiðir.
Útvarpsþáttur BBC um Djúpið
Hvað borðarðu eiginlega í morgunmat?
Hvernig hefurðu orku í þetta allt saman?
Baltasar hlær. „Það er ommeletta. Það eru
hænur hérna fyrir utan hjá mér. Þar er náð í
eggin og svo er búin til spænsk ommeletta.
Þetta er algjör töfraformúla. Íslenskar hænur
og spænsk ommeletta.“
Og hún er ekkert verri köld …
„Nei, alls ekki. Þá er þetta orðinn spænskur
tapas,“ segir Baltasar. Og ekki eru öll verk-
efni talin upp enn því hann stefnir að því að
kvikmynda skáldsögu Arnalds Indriðasonar,
Grafarþögn, við fyrsta tækifæri og segist
mjög spenntur fyrir því. Að lokum getur Balt-
asar þess að kvikmyndin Djúpið verði frum-
sýnd í Englandi eftir tvær vikur og mun
breska ríkisútvarpið, BBC, fjalla um hana sér-
staklega í klukkustundar löngum útvarps-
þætti og þá út frá þeim merkilega atburði sem
hún er byggð á, þegar Guðlaugur Friðþórsson
synti í land eftir að vélbáturinn Hellisey sökk
við Vestmannaeyjar árið 1984. „Það á að taka
hann upp 10. júlí og ég held að hann verði í út-
varpinu 12. júlí. Það er verið að reyna að fá
mig til að koma til Bretlands í stúdíó með ein-
hverjum vísindamönnum,“ segir Baltasar að
lokum, fullur orku úr spænskri eggjaköku.
„Þetta er alls ekki endurgerð,“ segir Baltasar Kormákur um kvikmynd sem hann mun leikstýra og
stúdíóin í Hollywood bítast um Mörg hundruð manns gætu komið að gerð EVE Online-þátta
Ljósmynd/Patti Perret. Birt með leyfi Universal Pictures
Í tökum Baltasar Kormákur við tökur á kvikmyndinni 2 Guns sem verður opnunarmynd kvik-
myndahátíðarinnar í Locarno í Sviss 8. ágúst og verður sýnd á torgi sem rúmar 8.000 manns.
Vígalegir Mark Wahlberg og Denzel Wash-
ington vopnaðir á veggspjaldi 2 Guns sem
verður frumsýnd 2. ágúst í Bandaríkjunum.
Baltasar klífur tindinn