Morgunblaðið - Sunnudagur - 16.06.2013, Blaðsíða 54
54 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 16.6. 2013
Menning
V
íkingur Heiðar gengur inn á
kaffihúsið í Hannesarholti með
taktmæli í höndunum. „Ég á
einn svona að lána þér,“ segir
einn gesturinn strax við píanó-
leikarann, veit að hann hefur auglýst eftir að
fá taktmæla lánaða. Víkingur þarf marga
slíka, eitt hundrað stykki fyrir eitt verkið sem
verður flutt á Reykjavík Midsummer Music-
tónlistarhátíðinni sem hann veitir listræna
stjórn. Hátíðin verður nú haldin í annað sinn,
í Hörpu dagana 19. til 21. júní. Boðið verður
upp á níu afar fjölbreytilegar uppákomur og
tónleika þessa þrjá daga.
„Ástæðan fyrir þessu taktmælastússi er
þema hátíðarinnar í ár, „Anachronism“ eða
„Tímaskekkja“,“ segir Víkingur Heiðar. „Þeg-
ar ég var búinn að ákveða þetta þema, sem
býður upp á marga áhugaverða fleti, þá sá ég
að ekki væri annað hægt en að setja hátíðina
með fyrsta flutningi hér á „Poème symphon-
ique“ eftir Ligeti, verki fyrir 100 gamaldags
upptrekkta taktmæla. Við auglýstum að við
þyrftum að fá slíka lánaða en í ljós hefur
komið að flestir eru komnir með nýja elek-
tróníska og sumir hafa hent þessum gömlu,
sem er algjör glæpur! Við erum komin með
60 mæla og vantar enn 40.“
Þeir sem eiga taktmæla eru beðnir að
koma með þá í Hörpu, þar sem þeir verða
merktir „og farið um þá silkimjúkum hönd-
um, og því fyrr því betra, því það þarf að
kenna þeim að spila fallega saman“, segir
hann. „Eigendurnir geta síðan komið á opn-
unarhátíðina og fylgist stoltir með sínum
taktmæli spila sinn part í þessari sinfóníu-
hljómsveit Midsummer Music-hátíðarinnar.“
Víkingur segir taktmæla koma meira við
sögu, því á fimmtudagskvöld leikur hann
sjálfur verk eftir Mauricio Kagel sem heitir
„MM 51“ og er fyrir píanó og taktmæli sem
er stilltur á 51. „Svo gerast ansi skrýtnir
hlutir, tíminn er settur af sporinu og píanist-
inn eiginlega líka.“
Samtíminn oft ekki dómbær
Víkingur Heiðar ber ábyrgð á hinni listrænu
stjórn hátíðarinnar en segist vera með frá-
bært fólk með sér í öllu öðru sem þarf að
gera. Við sögu á hátíðinni koma margir
þekktustu klassísku hljóðfæraleikarar og
söngvarar landsins.
Víkingur nefnir dæmi um tónlistarlegar
tímaskekkjur sem gestir á hátíðinni fá að
upplifa. Þar á meðal sé flutningur á madrígöl-
um eftir Carlo Gesualdo, mann sem hafi verið
„300 árum á undan sinni samtíð, og var um
aldamótin 1600 að semja madrígala sem voru
jafnframúrstefnulegir og nokkuð sem Wagner
skrifaði 280 árum síðar. Við erum þannig með
framúrstefnutónlist sem passar ekki inn í
samtíma sinn og verk manna sem þóttu gam-
aldags í sínum tónsmíðum, eins og Johann
Sebastian Bach síðustu tuttugu ár lífs síns.
Síðar kom auðvitað í ljós að hann hafði verið
að semja framúrstefnuverk. Samtíminn er oft
ekki dómbær á eigin sköpun. Annað dæmi
um það eru verk Rachmaninoffs, sem var allt
að því hataður af öðrum tónlistarmönnum á
sínum tíma, en fyrsta kvöldið verða meðal
annars flutt sjö sönglög eftir hann. Sumum
þótti tónlist hans of sykursæt á sínum tíma“.
Víkingur hristir höfuðið hneykslaður.
Verk sem skekkir tímann
„Svo langaði mig að skoða hvað tónskáld voru
að gera á tímum heimsstyrjaldanna tveggja.
Ég gróf upp „Strengjakvartett nr. 2“ eftir
Saint-Saëns, verk sem ég hafði aldrei heyrt
áður. Hann fæddist 1835 og samdi þetta verk
1918, þá á níræðisaldri og búinn að lifa tím-
ana tvenna. Það er ótrúlegt fallegt ákall til
veraldar sem var.
Hitt dæmið er Richard Strauss. Árið 1948
semur hann verk sem er í uppáhaldi hjá
mörgum, „Vier Lezte Lieder“. Það er einhver
fallegasta tónlist sem hefur verið saman, fyrir
sópran og hljómsveit, en ég leik það með
Þóru Einarsdóttur í stórskemmtilegri píanó-
útsetningu. Þessi tvö áköll í tengslum við
heimsstyrjaldirnar eru mjög á skjön við ann-
að sem var að gerast á þeim tíma.“
Fjölbreytileiki verkanna er því mikill og
sem dæmi nefnir Víkingur verk sem takast
beint á við tímann sjálfan, eins og „Piano and
String Quartet“ eftir Morton Feldman. „Það
er verk sem skekkir tímann mjög fallega. Er
80 mínútur í einum kafla en þegar maður
leikur það hættir maður eftir tuttugustu mín-
útu að skynja hvar maður er staddur og sigl-
ir inn í einhverja eilífð,“ segir Víkingur.
„Svo er gjörningur eftir Kakel frá 1970
sem nefnist „Ludwig Van“. Pétur Grétarsson
er að skapa hann með mér. Þá erum við með
kvikmyndasýningar; sýnum myndir eftir vest-
ur-íslenska leikstjórann Guy Madden, mynd
Kagels sem ber sama heiti og gjörningurinn
en er óskylt verk um arfleifð Beethovens, og
heimildamynd Werners Herzogs um fyrr-
nefndan Gesualdo, sem var endurreisnarprins
og morðingi, og tónskáld í hjáverkum!
Heillandi heildarmynd
Hugmyndin er að þetta sé ekki beint hefð-
bundin tónlistarhátíð og að áherslurnar
breytist frá ári til árs. Nú tökum við kvik-
myndir inn, það passar svo fallega í tíma-
skekkjuþemað. Myndir Maddens fönguðu
strax athygli mína og við sýnum þær á sér-
viðburðum en vefum þeim líka milli tónlistar-
atriða á opnunartónleikunum. Eitt af mörgu
góðu við Hörpu er hvað hægt er að gera fjöl-
breytilega hluti þar inni.“
Víkingur hlær þegar hann er spurður hvort
ekki sé lengur nóg að boða fólk á tónleika, að
horfa á flytjendur leika tónlistina eins vel og
þeir geta.
„Jú, það er nóg,“ segir hann. „Ég vona að
fólk hlusti líka. En mig langar að gera eitt-
hvað annað og meira núna. Það er mikilvægt
að hátíðin sé ólík frá einu ári til annars, upp-
lifunin sé ný og fersk. Mér finnst spennandi
að fólk fái tilfinningu fyrir heild; það hlýði á
tónlist, sjái kvikmyndir og upplifi gjörninga,
og að allt sé það huti af heillandi heild-
armynd.“
Morgunblaðið/Einar Falur
METNAÐARFULL TÓNLISTARHÁTÍÐ MEÐ „TÍMASKEKKJUM“, KVIKMYNDUM OG GJÖRNINGUM
Tíminn settur af sporinu
„MIG LANGAR AÐ GERA EITTHVAÐ ANNAÐ OG MEIRA MEÐ ÞESSA HÁTÍÐ,“ SEGIR VÍKINGUR HEIÐAR ÓLAFSSON PÍANÓLEIKARI. HANN ER LISTRÆNN
STJÓRNANDI REYKJAVÍK MIDSUMMER MUSIC-HÁTÍÐARINNAR SEM HALDIN VERÐUR Í HÖRPU DAGANA 19. TIL 21. JÚNÍ.
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is
Víkingur Heiðar og taktmælirinn í
fullkominni hrynjandi í verki eftir
„hinn gamaldags“ J.S. Bach. Hundrað
slíkir mælar munu hljóma við setn-
ingu Reykjavík Midsummer Music-
hátíðarinnar á miðvikudag.