Morgunblaðið - Sunnudagur - 18.08.2013, Blaðsíða 14
14 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 18.8. 2013
Viðtal
É
g held að enginn geri
ráð fyrir því að það að
eignast barn geti orðið
erfitt eða tekið langan
tíma. Löngunin til þess
er hluti af okkar eðli, ein af frum-
þörfunum, og flestir ganga að því
vísu að þeir geti það. Áfallið getur
því verið mikið þegar í ljós kemur
að utanaðkomandi aðstoðar er þörf
en eitt af hverjum sex pörum á Ís-
landi glímir við ófrjósemi einhvern
tímann á barneignaaldri,“ segir
Tinna Hrafnsdóttir leikkona.
Hún og unnusti hennar, leik-
arinn Sveinn Þórir Geirsson, oftar
en ekki kallaður Dói, voru búin að
vera saman í um þrjú ár þegar þau
ákváðu að reyna að eignast barn
saman. Það var árið 2006. Það tók
Tinnu fimm ár að verða ólétt en í
febrúar 2012 fæddust þeim tví-
buradrengirnir Starkaður Máni og
Jökull Þór.
„Ég kláraði tökur á kvikmynd-
inni Veðramót haustið 2006 og í
framhaldi af því ákváðum við að
eignast barn.“ Eftir að hafa reynt í
ár án árangurs leituðu Tinna og
Dói til Art Medica sem er sú stofn-
un hér á landi sem býður upp á
tæknifrjóvganir. Tinna ber starfs-
fólki Art Medica mjög vel söguna
og segir það hafa skipt miklu máli
að henni þótti alltaf gott að koma
þangað inn.
„Hjá þeim reyndum við þrjár
leiðir; Tæknisæðingu, glasa-
frjóvgun og loks smásjárfrjóvgun
sem er síðasta úrræðið. Við háðum
þessa baráttu í fimm ár og vonin
var orðin ansi vonlítil eftir allan
þennan tíma. Ég var greind með
óútskýrða ófrjósemi sem þýðir að
þeir gátu ekki fundið út úr því
hvað var að. Hömlur sem engin
skýring finnst á setja mann í þá
stöðu að hugsa: „Ég verð að finna
meinið sjálf fyrst þeir geta það
ekki. Skyldi það vera mataræðið?
Stress, streita, eða álag sem veld-
ur? Andlegt ójafnvægi? Vítam-
ínskortur? Dulið ofnæmi fyrir ein-
hverju sem ég veit ekki af og
veldur því að ónæmiskerfið verður
ofvirkt?“
Mótlætið skapaði
meiri nánd
Tinna segir spurningar sem þessar
hafa orðið að hálfgerðri þráhyggju
því svörin gátu legið í öllu. „Og þá
var ekkert annað í boði en að
reyna að lækna sjálfa sig og gera
allt rétt.“ Við tók langt tímabil þar
sem Tinna var með það efst í huga
að borða rétt, hreyfa sig rétt,
halda sér í góðu jafnvægi með
hjálp slökunar, jóga, heilunar og
fleiru til, fór í nálastungur og auk
þess drakk hún öll þau jurtaseyði
sem einhvern tímann höfðu hjálpað
einhverjum í sömu stöðu, hvort
sem það var tilviljun eða ekki.
„Maður gat aldrei vitað það. Og
orsökin gat legið alls staðar. Ég
held að dáleiðsla hafi verið það
eina sem ég átti eftir að prófa af
þessum óhefðbundnu aðferðum.“
Áður en leitað var til Art Medica
vissi Tinna lítið um ófrjósemi. „Ég
gat hins vegar sagt mér sjálf að
það hlyti að reyna mikið á andlega
og líkamlega að geta ekki eignast
barn. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigð-
isstofnuninni er ófrjósemi skil-
greind sem sjúkdómur, sjúkdómur
sem fólk finnur yfirleitt ekki mikið
fyrir fyrr en það fer sjálft að reyna
að eignast barn, en þá getur hann
verið mjög átakanlegur.“
Meðferðum við ófrjósemi fylgir
margt sem reynir á andlega og lík-
amlega. Lyfjagjöf og sprautunálar
verða daglegt brauð og Tinna segir
hlæjandi að það góða í þessu öllu
sé að hún óttist ekki lengur
sprautunálar sem hún hafi áður
verið dauðhrædd við. „Meðan á
meðferðunum stendur líður manni
eins og maður sé óléttur án þess
að vera það. Það er mjög skrýtið
og oft erfitt. Maður er stútfullur af
hormónum, gjörsamlega að
springa, enda lyfin sterk og líðanin
í samræmi við það. Þá reynir mest
á skilning og samstöðu þeirra sem
standa manni næst.“
Að ganga í gegnum þetta ferli
getur reynt mikið á. „Þegar lífið
gengur ekki eins og hjá flestum í
kringum þig, þegar þú skerð þig
úr og þú fylgir ekki því sem þykir
eðlilegt verður til spenna og ótti
við þetta óþekkta ástand. Þá reynir
líka á sambandið og á hvers konar
grunni það er byggt. Ef vilji
beggja aðila er skýr og sá sami og
vinátta byggð á ást og virðingu er
til staðar þá getur mótlæti sem
þetta skapað meiri nánd hjá pör-
um. Í okkar tilfelli var það svo.“
Tilfinningar sem
reyndust eðlilegar
Aðspurð hvað hafi reynt mest á
andlega á þessum árum segir
Tinna að erfiðast hafi verið að ein-
angrast félagslega. „Allar vinkonur
mínar, systir og bróðir voru komin
með börn og þó að maður sam-
gleðjist innilega öllum sem manni
þykir vænt um með sitt barnalán
þá eru ýmsar skrítnar tilfinningar
sem á vondum degi fara að láta á
sér kræla, tilfinningar sem maður
á jafnvel erfitt með að horfast í
augu við og viðurkenna fyrir sjálf-
um sér. Þá er miklu betra að vera
einn í sínu horni svo enginn sjái í
gegnum mann og dæmi mann og
haldi að maður sé afbrýðisamur út
í lán annarra. Því það er ekki
raunin, þrátt fyrir að það myndi
kannski líta þannig út fyrir ein-
hverjum. Það eina sem gerist er að
staða manns sjálfs verður aldrei
skýrari en þegar maður finnur og
upplifir í gegnum aðra hve dásam-
legt það er að eiga barn og óttinn
við að það muni kannski aldrei tak-
ast verður enn óbærilegri. Ég held
samt að fólk þurfi að hafa upplifað
þennan skort, þessa vöntun til að
skilja til fullnustu um hvaða tilfinn-
ingu ég er að tala. Staðreyndin er
sú að allir þeir sem ég hef talað
við, og hafa verið í sömu stöðu og
við, hafa upplifað þessa tilfinn-
ingu.“
Það var ekki fyrr en Tinna fór
og hitti Helgu Sól Ólafsdóttur fé-
lagsráðgjafa, sem vinnur mikið
með fólki í þessari sömu stöðu
bæði hér heima og erlendis, sem
hún fékk að heyra að allar þessar
skrítnu tilfinningar væru full-
komlega eðlilegar. Þær væru jafn-
vel ekkert skrítnar. Það reyndist
Tinnu mikil hjálp. „Helga Sól
hjálpaði mér að setja hlutina í rétt
samhengi og fyrir það verð ég
henni ævinlega þakklát.“
Barnlaus pör upplifa oft einhvers
konar pressu frá samfélaginu og til
eru þeir sem hika ekki við að
spyrja beint út af hverju það séu
ekki komin börn. Og hvenær það
eigi að gerast. „Þá finnur maður
einhverja hentuga skýringu. Og
brosir. Maðurinn minn á þrjú börn
fyrir og sumir hafa kannski gefið
sér það að sá fjöldi hefði þau áhrif
að við værum ekkert að flýta okk-
ur að eignast börn saman. En svo
var alls ekki.“
Á ekki að vera feimnismál
Það er ýmislegt annað sem fólk
sem er í sömu stöðu og Tinna og
Dói heyra nokkuð oft. „Börnin
koma þegar þau eiga að koma,“ og
„Reyndu bara að slaka á, þetta
kemur þegar þú hættir að hugsa
um þetta,“ svo eitthvað sé nefnt.
„Fólk meinar vel og vill eflaust
miðla bjartsýni en þetta getur
stundum virkað þveröfugt. Svolítið
Vil opna
um-
ræðuna
Á SÍÐASTA ÁRI EIGNAÐIST LEIKARAPARIÐ TINNA HRAFNS-
DÓTTIR OG SVEINN ÞÓRIR GEIRSSON TVÍBURA EFTIR AÐ
HAFA Í UM FIMM ÁR REYNT AÐ EIGNAST BÖRN EN TINNA
VAR GREIND MEÐ ÓÚTSKÝRÐA ÓFRJÓSEMI. TINNA SEGIR
MIKILVÆGT AÐ OPNA UMRÆÐUNA.
Þegar maður raunverulega stendur frammi fyrir því að það sem flestir líta á sem sjálfgefið er orðið þinn langstærsti
draumur og dýpsta þrá þá ferðu að hugsa hlutina upp á nýtt,“ segir Tinna Hrafnsdóttir.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
* „Að einangra sig alveg gerir hlutinabara helmingi erfiðari. Við þurfum öllá öðrum að halda. Sjálf fann ég hvað mér
leið miklu betur þegar ég ákvað að segja
fjölskyldu og vinum frá þessu.“