Morgunblaðið - 14.12.2013, Blaðsíða 65
MINNINGAR 65
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 14. DESEMBER 2013
stelpur eða strákar, því þú vildir
alltaf mála alla. Þú róaðir líka með
okkur öll á hnjánum þínum og
fórst með þuluna Róum og róum.
Okkur er líka mjög minnisstætt
þegar þú stofnaðir saumaklúbb
fyrir okkur frænkurnar og vin-
konur okkar. Það var ofboðslega
skemmtilegt. Svo ég tali nú ekki
um öll orlofin sem við komum til
þín. Þá fengum við yfirleitt alltaf
prins póló, kók eða appelsín og oft
lakkrísrör.
Þú hafðir líka þínar sterku
skoðanir á hlutunum og lást ekki á
þeim, hvort sem þú hafðir eitthvað
gott eða slæmt um hlutina að
segja. Þér fannst til dæmis alger
óþarfi að við skyldum vera að
hrúga niður öllum þessum börn-
um. En samt sem áður varst það
þú sem sýndir þeim hvað mestan
kærleika, öllum þínum barna-
börnum og barnabarnabörnum.
Og varst með fullar myndahillurn-
ar af okkur öllum og sýndir þær
stolt öllum sem komu í heimsókn.
Þú varst svo mikil vinkona okk-
ar allra og varst alltaf til staðar
fyrir okkur, hvort sem við þurft-
um að spjalla eða bara að fá smá
knús. Þú hlustaðir á okkur, gafst
okkur ráð og deildir þinni reynslu.
Ég held að við öll höfum mjög ung
fengið spurninguna: „Áttu kær-
asta?“ eða: „Áttu kærustu?“
Allir sem minnast þín muna eft-
ir þér í göngutúrum og þá gafstu
þér alltaf tíma til að stoppa og
spjalla við nánast hvern sem á
vegi þínum varð. Þú varst líka
mikil pæja og föt og tíska voru þér
hugleikin. Þú ljómaðir þegar þú
sýndir okkur nýju flíkurnar sem
þú varst að kaupa þér.
Við munum alltaf sakna þín en
minningin lifir í hjörtum okkar
allra.
Elsku afi, við vottum þér og
öðrum aðstandendum okkar
dýpstu samúð og viljum við kveðja
þig, elsku amma okkar, með einni
af þeim bænum sem þú fórst alltaf
yfir með okkur þegar við gistum
hjá þér.
Blíði Jesú, engla þína,
yfir mér lát vaka í nótt.
Breidd þú yfir mig og mína
milda hönd, svo sofni rótt.
Þínar sonardætur,
Elín Katrín, Stefanía Þóra
og fjölskyldur.
„Mikið ertu nú ber í hálsinn, ég
verð nú að lána þér kraga eða
klút.“ Það var í ófá skiptin sem
hún amma mín Stebba sagði þessi
orð við mig sem og önnur barna-
börn þegar henni fannst við hálf-
kuldaleg og segir þessi setning í
rauninni ansi mikið um hana og
hversu vel hún gætti að okkur.
Hvort sem það var fæði eða klæði
þá mátti stóla á að geta komið við
hjá ömmu og afa ef svengd eða
kuldi steðjaði að. Þá var ekki
verra að fá eins og einn hálsklút-
inn eða kragann enn að láni og
setjast niður í mjólk og ömmu
Stebbu-kleinur sem verður ekki
leikið eftir að baka. Ég man
hversu notalegt það var að komast
til ömmu í morgunkaffinu í ung-
lingavinnunni þar sem dekrað var
við mann og færðar kræsingar á
borðið til að fylla á orkuna.
Það varð síðan enn skemmti-
legra að kynnast ömmu sem ung-
lingur og eftir því sem maður full-
orðnaðist og gátum við oft hlegið
saman að hinu og þessu og var
alltaf stutt í hnyttni og kaldhæðni
sem við deildum og höfðum jafn
gaman að.
Hún er okkur frændsystkinum,
mér, Ella og Karen, ætíð eftir-
minnileg ferðin þegar við ætluð-
um heldur betur að gleðja ömmu.
Við tíndum fjöldann allan af stein-
um sem okkur þótti fallegir og fór-
um með til ömmu en hún var ekki
heima og skildum við hann því eft-
ir. Við merktum kassann óljóslega
þannig að amma sá ekki hvað stóð
á honum og endaði hann því í rusl-
inu. Þegar við rifjuðum þetta svo
upp með ömmu þegar við vorum
orðin aðeins eldri gátum við hlegið
mikið að þessu saman og rifjum
við þrjú þetta atvik oft upp með
hlátur í huga.
Hennar elskulegu ömmu minn-
ar verður ekki minnst án þess að
ræða dverginn og bláu skálina
sem líklega öll barnabörnin kann-
ast við. Amma laumaði að okkur
kók í dverginn og það sem hægt
var að rífast um bláu skálina. Það
fór síðan svo að litla frekjan ég
fékk skálina á endanum þó svo að
einhver annar væri byrjaður að
borða úr henni því hún amma vildi
allt fyrir alla gera.
Að lokum verð ég að minnast á
orlofin hjá ömmu og afa þar sem
við gistum inni í „bláa“. Orlofin
þar sem stjanað var við okkur all-
an tímann og glöddum við á móti
með því að setja á svið hvert leik-
ritið á fætur öðru. Það var nú ekki
langt fyrir okkur að fara, mig,
Karen og Ella, búandi nánast í
næsta húsi, en tilhlökkunin og
gleðin í kringum það að fara í orlof
til þeirra eru hluti af þeim ynd-
islegu minningum sem munu
gleðja okkur og hugga þegar við
hugsum til ömmu Stebbu.
Elsku amma mín.
Ég kveð þig með þeim orðum
sem við sögðum oft okkar á milli
„vorum við búnar að kyssast?“ og
svarið var jafnan: „Við kyssumst
aldrei nógu oft“ og sendi þér koss
og knús.
Elsku afi minn og stórfjölskyld-
an öll. Kossar og knús til okkar
allra.
Helga Þórey.
Ég trúi því vart að þú hafir nú
kvatt okkur, elsku besta amma
mín. Það er þyngra en tárum taki
að hugsa til þess að fá ekki að eyða
með þér gæðastund aftur eins og
ég fékk á hverjum einasta degi
síðustu ár. Fyrir þær stundir er
ég óendanlega þakklát.
Amma var dugnaðarforkur og
henni féll sjaldan verk úr hendi.
Hún sagði mér oft frá fortíðinni og
hvernig þurfti að hafa fyrir hlut-
unum þá. Hvernig hún og afi byrj-
uðu að búa, kolaeldavélin í
Bræðraborg, barnavagninn sem
bundinn var saman, þetta var hún
allt svo ánægð með. Hún var alltaf
í verkunum eins og hún kallaði
jafnan heimilisstörfin og allt var
jafn myndarlegt hjá henni. Hún
bakaði og eldaði af list og prjónaði
í förmum. Amma tók aldrei bílpróf
og gekk því allra sinna ferða,
sama hvernig viðraði.
Hún fór í göngu upp á hvern
einasta dag bróðurpart ævi sinnar
og lofaði það mjög, fullyrti að það
væri vegna heilsubótargöngunnar
sem hún væri svo heilsuhraust.
Við amma vorum miklar vin-
konur og samband okkar var
mjög náið alla tíð. Ég var fasta-
gestur á Vesturbrún, kom stund-
um oft á dag. Þar eyddum við
ófáum stundum saman og spjöll-
uðum um alla heima og geima. Ég
gat sagt ömmu allt og fékk jafnan
ráð hjá henni. Að fá að taka þátt í
daglegum störfum með ömmu
þóttu mér forréttindi.
Við frændsystkinin fengum
ósjaldan að vera í orlofi, eins og
við kölluðum það, hjá ömmu og
afa. Orlofin voru bestu stundir
okkar krakkanna og þeim þótti
ekki síður gaman að hafa okkur.
Þá fengum við að gista hjá þeim
inni í Bláa, vaka fram eftir og
borða eins og við gátum í okkur
látið. Frostpinnar, mjólk og biti
fyrir svefninn og Cocoa puffs í
morgunmat þótti okkur þvílíkur
munaður. Minnisstæðir eru líka
ófáir bíltúrarnir með þeim. Þá
fékk maður „nammi í stampinn“,
suðusúkkulaði og brjóstsykur
sem amma hafði sett í stamp fyrir
ferðalagið. Hlýjar minningar
þjóta í gegnum hugann þessa dag-
ana. Það var margt brallað með
ömmu og afa.
Ömmu minnist ég sem afar
smekklegrar konu. Varaliturinn
var aldrei langt undan, reyndar
held ég að það væri hann sem hún
hefði tekið með sér á eyðieyju.
Hún sagði oft við mig að þegar
hætt væri að hugsa um sjálfan sig
þá væri það nú orðið lítilfjörlegt.
Fyrir þær sakir og aðrar þótti
mér afar leiðinlegt að horfa upp á
ömmu í veikindum sínum sem
tóku sinn toll. Hún hafði tapað
færni til daglegra verka.
„Þeir eldast sem fá að eldast“
sagðir þú alltaf. Þó að þú hafir
glímt við veikindi undanfarin ár
bar þetta brátt að. En þannig vildir
þú hafa það og sagðir alltaf að þeir
væru heppnir sem fengju að fara
svona. Ég veit að nú hefur þú feng-
ið hvíldina. Ég er hjartanlega
þakklát fyrir að Katla mín fékk að
kynnast þér, læra að róa við þig
eins og við hin og fyrir það að þú
náðir að vera í hennar lífi þó stutt
væri. Einnig fyrir það að Nonni
minn fékk að kynnast þér og vera
samferða þér í næstum 10 ár. Það
sem þér þótti hann sætur.
Þakka þér, amma mín, fyrir allt.
Þú hefur mótað mig og hefur alltaf
verið mér fyrirmynd. Ég minnist
þín með söknuði en umfram allt
þakklæti.
Hvíl í friði, elsku amma mín.
Læt fylgja með íslenskt ljóð við
uppáhaldslagið þitt, Amazing
grace.
Ég trúi á ljós sem lýsir mér,
á líf og sannleika
og sigur þess sem sannast er
og sættir mannanna,
á afl sem stendur ætíð vörð
um allt sem fagurt er,
á Guð á himni, Guð á jörð
og Guð í sjálfum mér.
(Ólafur Gaukur)
Þín
Karen Dröfn Hafþórsdóttir.
Elsku besta amma Stebba er
fallin frá. Söknuðurinn er mikill en
minningarnar um þessa einstöku
og fallegu konu ylja mér. Margs er
að minnast.
Ég hef alltaf verið svolítil
strákastelpa og á fyrstu árum
grunnskólans átti ég marga vini en
ég átti eina vinkonu og það var
amma Stebba. Það leið vart sá dag-
ur að ég kæmi ekki við hjá henni,
annað hvort heim til hennar eða í
Kaupfélagið ef hún var að vinna,
bara til að fá smá knús og spjall.
Við hjálpuðumst að í „verkun-
um“ heima hjá henni, hlustuðum á
tónlist á meðan og spjölluðum.
Seinna þegar ég var sjálf farin að
búa og hún heimsótti mig með afa
byrjaði hún alltaf á því að spyrja:
„Ertu í verkunum“ og svo hlógum
við saman að þessu.
Ég minnist allra ferðalaganna
sem ég fór í með ömmu og afa. Í
sumarbústað í viku í Munaðarnesi,
í hjólhýsið í Þjórsárdal, dagsferðir
til Reykjavíkur í heimsókn til
Stellu frænku eða bara til að slæp-
ast. Amma hafði þá alltaf nammi í
stórri dollu sem hún geymdi undir
sætinu hjá sér og bauð manni „got-
terí“ þegar við vorum lögð af stað.
„Nammi í stampnum“ kölluðum
við þetta. Alltaf var jafn gaman hjá
okkur.
Að koma til ömmu og afa á Vest-
urbrún var alltaf gott. Svo vel tekið
á móti manni, alltaf boðið upp á
hennar einstöku kleinu eða flat-
köku sem hún bakaði reglulega og
spjallað saman við eldhúsborðið.
Við barnabörnin fengum oft að
vera í orlofi hjá ömmu og afa og þá
yfirleitt tvö og tvö saman. Þá
mættum við heim til þeirra í kring-
um kvöldmat, lékum okkur inni í
bláa, fengum nammi eða kvöld-
kaffi. En toppurinn á öllu, að mér
fannst, var að við fengum alltaf Co-
coa puffs í morgunmat. Þetta voru
einstakar samverustundir og á
örugglega stóran þátt í því hversu
samrýmd og miklir vinir við barna-
börnin erum enn í dag.
Amma var alltaf svo vel til höfð
og glæsileg kona. Þegar hún fór út
úr húsi hafði hún alltaf varalit með-
ferðis, hvort sem hún var að fara í
einn af sínum daglegu göngu-
túrum eða eitthvað annað. Hún
sagði oft við okkur stelpurnar:
„Eigum við að mála okkur“ og þá
fékk maður varalit líka. Amma
gekk mikið um götur bæjarins og
fór ég ósjaldan með henni og fékk
þá alltaf að leiða hana undir arm-
inn.
Það er lýsandi fyrir þessa ynd-
islegu konu að ef hún mætti fólki á
göngum sínum heilsuðu henni allir
og hún stoppaði alltaf og spjallaði
við fólk og skipti þá engu á hvaða
aldri það var.
Æskuminningarnar eru marg-
ar þó hér sé eingöngu stiklað á
stóru. Þegar ég varð eldri, fór að
búa sjálf og eignaðist fjölskyldu
voru amma og afi dugleg að taka
bíltúr til mín og þiggja einn kaffi-
sopa. Aldrei minnkaði vinskapur
okkar ömmu. Ég man síðustu
heimsóknina þeirra til mín í lok
nóvember þegar hún sagði við mig
hvað hún væri þakklát fyrir að
eiga mig, svona góða vinkonu.
Þetta er mér ómetanlegt. Mér
þykir óendanlega vænt um öll
þeirra innlit og hversu vel þau
hafa reynst minni litlu fjölskyldu.
Elsku besta amma mín. Ég
kveð þig nú með mikla sorg í
hjarta en ylja mér við minningar
um okkar góðu stundir saman. Þú
varst mér fyrirmynd og einstak-
lega góð.
Minning þín lifir um ókomna
tíð, þín.
Eyrún.
Elsku besta langamma.
Þú varst rosa góð við mig og
Daníel Þór og okkur þótti mjög
vænt um þig. Það var mjög gaman
með þér í Vestmannaeyjum í
fyrra, þá fórum við á kaffihúsið
Vinaminni og þú sýndir okkur
Sléttaból þar sem þú áttir heima
þegar þú varst lítil stelpa. Við fór-
um líka í kirkjugarðinn þar sem
mamma þín og pabbi voru. Í sum-
ar fórum við á Hellu og Hvolsvöll
með þér og langafa og það var líka
gaman, þá fórum við á kaffihús og
fengum köku og heitt kakó. Það
var líka gaman þegar þú komst í
matarboð til okkar og sagðir að
það væri mjög góður matur að
borða. Mér fannst líka skemmti-
legt að koma í heimsókn til þín og
langafa á elliheimilið. Þá fékk ég
alltaf súkkulaðikúlur með kara-
mellu inni í. Stundum fór ég í bíl-
túr með langafa, þér og Tinnu,
hundinum hans langafa. Mér
finnst sorglegt að þú sért dáin.
Mamma er búin að setja mynd í
ramma af mér og þér og ég er bú-
in að setja hana á skrifborðið mitt.
Svo setti ég aðrar myndir í albúm-
ið mitt. Það var rosa gaman að
eiga þig sem langömmu. Ég vona
að þér líði betur núna og sért hætt
að gleyma. Ég, Daníel, pabbi og
mamma ætlum að hugsa vel um
leiðið þitt í kirkjugarðinum.
Guð geymi þig.
Þín besta,
Sunna Bryndís.
Elsku besta langamma.
Það var rosa gaman að eiga þig
sem langömmu. Það var gaman
þegar við fórum til Vestmanna-
eyja og þú sýndir okkur leiðið hjá
mömmu þinni og pabba í kirkju-
garðinum. Þá sýndir þú okkur líka
húsið sem þú áttir heima í þegar
þú varst lítil stelpa. Það var líka
gaman í ferðinni okkar í sumar
þegar við fórum á Hellu og Hvols-
völl.
Ég man líka þegar þú og
langafi áttuð heima á Vesturbrún,
þá fórstu stundum með mér í
kirkjugarðinn að kíkja á leiðin og
svo varstu alltaf að róa við okkur.
Það var líka gott að heimsækja
þig á Sólvelli. Þá sátum við inni í
herbergi hjá langafa að spjalla
saman og ég fylgdi þér stundum
niður stigann í kaffi og var alltaf
góður við þig. Ég er mjög sorg-
mæddur að þú sért dáin og sakna
þín mikið. Ég ætla alltaf að koma
og heimsækja þig í kirkjugarðinn
og hugsa vel um leiðið þitt. Takk
fyrir allar góðu stundirnar með
mér og þér, elsku besta
langamma. Ég vona að þér líði vel
hjá Guði.
Kær kveðja,
Daníel Þór.
HJARTAVERND
Minningarkort
535 1825
www.hjarta.is 5351800
✝
Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma
og langamma,
MARGRÉT PÉTURSDÓTTIR,
Hjúkrunarheimilinu Skjóli,
áður Miðtúni 60,
Reykjavík,
lést þriðjudaginn 10. desember.
Útför hennar fer fram frá Áskirkju
miðvikudaginn 18. desember kl. 15.00.
Helgi H. Jónsson,
Pétur Már Jónsson, Hugrún Jónsdóttir,
Sturla Jónsson, Helga Harðardóttir,
ömmubörn og langömmubörn.
✝
Ástkær eiginkona mín, móðir okkar, tengda-
móðir og amma,
MARGRÉT S. GUNNARSDÓTTIR
hjúkrunarfræðingur,
áður til heimilis að Mýrarási 10,
verður jarðsungin frá Árbæjarkirkju
mánudaginn 16. desember kl. 13.00.
Þeim sem vilja minnast hennar er bent á Parkinsonfélagið.
Halldór K. Kjartansson,
Daði Már Kristófersson, Ásta Hlín Ólafsdóttir,
Ágústa Kristófersdóttir, Óli Jón Jónsson,
Gísli Kort Kristófersson, Auðbjörg Björnsdóttir,
Gunnar Tómas Kristófersson, Katharina Schumacher
og barnabörn.
✝
Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir og amma,
ANNA EINARSDÓTTIR
frá Ekru í Stöðvarfirði,
sem andaðist 9. desember, verður jarðsungin
í Kópavogskirkju föstudaginn 20. desember
kl. 11.00.
Ásbjörn Baldursson, Sjöfn Tryggvadóttir,
Helgi Baldursson, Stella Benediktsdóttir
og barnabörn.
✝
Eiginmaður minn,
SIGVALDI JÓNSSON.
Iðavöllum 8,
Húsavík,
lést sunnudaginn 8. desember á Heilbrigðis-
stofnun Þingeyinga, Húsavík.
Útförin fer fram frá Húsavíkurkirkju laugar-
daginn 21. desember kl. 14.00.
Blóm og kransar afþakkaðir en þeim sem vilja minnast hans er
bent á Krabbameinsfélag Suður-Þingeyinga.
Fyrir hönd aðstandenda,
Ásthildur Guðmundsdóttir.
✝
Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, tengda-
faðir, afi og langafi,
JÓHANN R. SÍMONARSON
skipstjóri,
lést á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Ísafirði,
fimmtudaginn 12. desember.
Helga Þórdís Gunnarsdóttir,
Björn Jóhannsson, Kristín Á. Bjarnadóttir,
María Björk Jóhannsdóttir, Benedikt Jónasson,
Guðmundur Friðrik Jóhannsson, Dagný Rósa Pétursdóttir,
Sigríður Erla Jóhannsdóttir, Stefán Þ. Tómasson,
barnabörn og barnabarnabörn.
✝
Ástkær faðir okkar, unnusti, sonur og bróðir,
BIRGIR GUÐNASON,
Laugateigi 6,
lést sunnudaginn 8. desember.
Jarðsett verður frá Laugarneskirkju
þriðjudaginn 17. desember kl. 13.00.
Blóm og kransar afþakkaðir en þeim sem
vildu minnast hans er bent á styrktarsjóð Umhyggju.
Rúnar Örn Birgisson,
Guðný Sara Birgisdóttir, Friðrik Björn Árnason,
Hrund Jónsdóttir,
Bára Þorsteinsdóttir, Guðni Magnússon,
Guðni Guðnason, Sigurbjörg Hauksdóttir,
Bryndís Guðnadóttir, Þorsteinn Marinósson.