Stígandi - 01.07.1943, Síða 59
STÍGANDI
KRISTÍN SIGFÚSDÓTTIR:
FRÚIN Á GRUND
Frá barnæsku hefi ég haft mikla ánægju af því að heyra
gamalt fólk segja frá liðnum dögum. Einkum sóttist ég eftir því
að hlusta á sagnir um þá, er þóttu skara fram úr öðrum á ein-
hvern hátt. Eg var svo lánsöm, að á heimili foreldra minna voru
alltaf gamalmenni, meðan ég var í föðurgarði. Voru þau fædd
snemma á síðastliðinni öld og kunnu því frá mörgu að segja.
Síðar á ævinni hefi ég kynnzt nokkrum, sem bættu við þenn-
an fróðleik, einkum var það ein háöldruð kona, sem ég þekkti
fyrir rúmum 30 árum. Var hún minnug og margfróð, hafði ver-
ið vinnukona á ýmsum stórbýlum sveitarinnar, þar á meðal var
Grund í Eyjafirði.
Þessum sundurlausu sagnamolum er ég nú að reyna að safna
í smáþætti. Eg sleppi að mestu ættfærslu og ártölum, sem finna
má í annálum og árbókum frá þeim tímum, en reyni að láta frá-
sögurnar halda þeim búningi, sem þær höfðu, þegar þær komu
frá vörum gamla fólksins.
Sú kona, er ég heyrði alla minnast með mestri aðdáun, var
frúin á Grund. Þannig nefndi alþýða manna frú Valgerði Árna-
dóttur Briem, konu Gunnlaugs Briem, sem um nokkurt skeið
var sýslumaður Eyfirðinga og bjó rausnarbúi á höfuðbólinu
Grund í Eyjafirði. Oft heyrði ég talað um gáfur hennar og glæsi-
leik, en þó oftar um líknarhug hennar og lítillæti við hvern
smælingja, sem leitaði hjálpar hennar og ásjár. Svo frábær þótti
frúin á Grund á þeim tímum, þegar bilið var margfalt breiðara
en nú milli örbirgra kotunga og umrenninga og þeirra, sem hæst
voru settir í mannfélaginu. Þess vegna entist sú minning mörg-
um til æviloka, að frúin á Grund hafði talað við þá eins og jafn-
ingja sína, glatt börn þeirra eða sent gjafir á heimili þeirra, þeg-
ar þörfin var mest.
Að því er ég veit, hefir lítið verið skrifað um þessa merku og
kyngöfgu konu. Aðeins tvisvar hefi ég lesið stuttar frásagnir, þar