Stígandi - 01.07.1943, Qupperneq 73
STÍGANDI
BJARNI STÓRHRÍÐ
63
Svo var það einn vetur, að ég las í blöðunum um mannskað-
ann mikla á Bröttuhjöllum. Þá datt mér hefndin í hug. Og nú
fékk ég aftur mitt fyrra þol og þrek. Ég strengdi þess heit, að
í tuttugu skipti skyldi dauðinn og veturinn verða að vægja fyrir
mér, eins og ég hafði einu sinni orðið að vægja fyrir þeim.
Um vorið keypti ég Hemingsstaði, og hér hefi ég oft teflt
djarft. I vetur sem leið vann ég nítjánda taflið og er því sáttur
við forsjónina miklu og vona, að svona hefndir verði mér fremur
reiknaðar til tekna en til gjalda við reikningslokin miklu. Það
er ekki laust við, að komin sé í mig heimþrá, og þegar ég hefi
teflt tuttugasta taflið mitt, mun ég leggja land undir fót á ný,
ég þarf að ná heim undir háttinn, til litla leiðisins undir reyni-
viðnum í útnorðurhorni kirkjugarðsins á Stað.“
Þessi var frásögn Bjarna stórhríðar, sem mér datt þá í hug,
hvort nokkur íslenzk kona hefði hlotið jafn stórbrotin eftir-
mæli og Sólveig frá Hvoli.
En það átti ekki fyrir Bjarna að liggja að ná „heim fyrir hátt-
inn“ eins og hann kallaði það. Veturinn eftir barg hann tuttug-
asta manninum úr Bröttuhjöllum, bar hann hálfdauðan í kaf-
aldsfönn og blindhríð ofan alla Bröttuhjalla. En forsjóninni hef-
ir víst fundizt, að nú hefði Bjarni lokið ætlunarverki sínu hér
á jörð, eða kannske að vetri og veðrum hafi þótt hann gerast
alltof ráðríkur í skiptum. Hver veit? En skömmu seinna varð
snöggt um Bjarna, og eiginlega vissi enginn úr hverju hann dó.
Eyrarsveit hafði Bjarni ánafnað eigur sínar, og skyldi þeim
varið eftir settum fyrirmælum til hjálpar munaðarlausum
stúlkubörnum, en kosta skyldi sveitin útför hans vestur til
Staðar.
En þegar Bjarni lézt, var heldur stirð veðrátta og mikil snjóa-
lög, og einhvernveginn æxlaðist það svo, að aldrei var hann
fluttur vestur. Oddvitinn svaraði mér því, þegar ég ámálgaði
líkflutninginn við hann og bauðst til að fylgja því vestur, að
peningar Bjarna væru betur komnir hjá sveitinni, — þeir voru
í hraki með fé til samkomuhússbyggingar — en í þarflausan
útfararkostnað, dauðum mætti vera sama, hvar hann lægi.