Læknablaðið - 15.01.2000, Blaðsíða 7
FRÁ RITSTJÓRN
Nýtt útlit á aldamótaári
Læknablaðið heilsar lesendum sínum á nýju
ári með nýtt útlit í farteskinu. Það er vart við því
að búast að 85 ára gamalt og virðulegt blað
ástundi kollsteypur, hvorki innihalds- né útlits-
lega. Unnið hefur verið að útlitsbreytingunni í
alllangan tíma og reynt að vanda í hvívetna til
verka. Naut Læknablaðið ráðgjafar Guðjóns
Sveinbjömssonar prentara við endurhönnun
blaðsins.
Frá því fyrsta tölublað Læknablaðsins leit
dagsins ljós í janúar 1915 hefur mikið vatn runnið
til sjávar. Blaðið hefur átt sín ris og hnig eins og
við er að búast. Það hefur meira að segja flutt úr
landi tímabundið, en á árunum 1980 til 1994 var
Læknablaðið prentað í Danmörku hjá útgáfu-
fyrirtæki Danska læknafélagsins. Á þeim ámm
varð blaðið einnig tvöfalt að hluta til með útgáfu
Fréttabréfs lækna sem kom út á árunum 1983-
1994, en sameinaðist Læknablaðinu við heim-
flutninginn á miðju ári 1994. Frá árinu 1977 hafa
af og til verið gefin út Fylgirit Læknablaðsins er
varða einstök afmörkuð málefni eða atburði og
eru Fylgiritin orðin alls 38, þá er ógetið ýmissa
minni upplýsingabæklinga sem fylgt hafa Lækna-
blaðinu. Utgáfan er því orðin talsverð að vöxtum.
Megintilgangur Læknablaðsins hefur ætíð
verið tvíþættur: fræðilegur og félagslegur. Báðum
þáttum hefur verið ætlað að styrkja stöðu læknis-
fræðinnar og félagslega og faglega stöðu lækna.
Hröð þróun innan læknisfræðinnar hefur endur-
speglast á síðum blaðsins og ekki síst ýmis sið-
fræðileg vandamál sem siglt hafa í kjölfar tækni-
legrar og fræðilegrar framþróunar.
Vissulega hefur ýmislegt breyst í áranna rás.
Forsíðu fyrsta tölublaðsins, fyrir réttum 85 árum,
skrýddi tóbaksauglýsing og mátti reyndar lesa
tóbaksauglýsingar í Læknablaðinu allt til ársins
1954. Undanfarin 10 ár eða frá október 1989 hafa
myndir af verkum íslenskra listamanna hins veg-
ar prýtt forsíðu blaðsins. Vonandi finnst fleirum
sem mér þetta vera dæmi um breytingu til batn-
aðar.
Formið sem Læknablaðið hefur verið í fram til
þessa var farið að þrengja mjög að innihaldi
blaðsins og gaf lítið sem ekkert færi á útlitslegri
tilbreytingu, en með breytingunni nú gefst færi á
margbreytilegri framsetningu og frágangi en
hingað til. Einstaka nýbreytni er þegar komin á
koppinn svo sem umfjöllun um listamann mánað-
arins og væntanlega fylgir fleira í kjölfarið. Fastir
póstar öðlast meira frelsi í rými svo sem dyggir
pistlahöfundar blaðsins og skal þar fremsta nefna
Árna Björnsson og Jóhann Heiðar Jóhannsson,
sá síðarnefndi á hér sinn 118. íðorðapistil.
Með útlitsbreytingunni sem nú lítur dagsins
ljós mun Læknablaöinu vonandi takast það ætl-
unarverk að verða betra, aðgengilegra og fallegra
blað en hingað til og er þá átt við altæka merk-
ingu þessara orða.
Það er á hinn bóginn öllum hollt að hafa í huga
að ekkert blað verður betra en þau sem í það
skrifa.
Birna Þórðardóttir
Frágangur
fræðilegra greina
Höfundar sendi tvair gerðir
handrita lil ritstjórnar
Læknablaðsins, Hlíðasmára
8, 200 Kópavogi. Annað án
nafna höfunda, stofnana og
án þakka sé um þær að
ræða. Greininni fylgi
yfirlýsing þess efnis að allir
höfundar séu lokaformi
greinar samþykkir og þeir
afsali sér birtingarrétti til
blaðsins.
Handriti skal skilað með
tvöföldu línubili á A-4
blöðum. Hver hluti skal
byrja á nýrri blaðsíðu í
eftirtalinni röð:
• Titilsíða, höfundar, stofn-
anir, lykilorð
• Ágrip og heiti greinar á
ensku
• Ágrip á íslensku
• Meginmál
• Þakkir
• Heimildir
Töflur og myndir skulu vera
á ensku eða íslensku, að
vali höfunda.
Tölvuunnar mvndir og gröf
komi á disklingi ásamt út-
prenti. Tölvugögn (data) að
baki gröfum fylgi með.
Sérstaklega þarf að semja
um birtingu litmynda.
Eftir lokafrágang berist allar
greinar á tölvutæku formi
með útprenti. Taka skal
fram vinnsluumhverfi.
Sjá upplýsingar um frágang
fræðilegra greina:
http://www.icemed.is/laekna
bladid
Umræðuhluti
Skilafrestur er 20. undan-
farandi mánaðar, nema
annað sé tekið fram.
Læknablaðið 2000/86 7