Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2008, Page 59
SAGNASAMBÖND í ÞJÓNUSTU TALMÁLSTILBRIGÐA
Neitunin þarf reyndar ekki að liggja í öðru en samhenginu:
(15) Hvað ert þú að skipta þér af því, ha?
Hvemig sem neituninni er háttað á þessi merking sagnasambandsins helst
að tákna það sem ekki er gert, ekki stendur til eða ekki ætti að vera. Eins er
mögulegt að nota það til að mótmæla þess háttar neitun, svara t.d. dæmi
(15) með:
(16) Eg er að skipta mér af þessu af því að mér er annt um strákinn.
Reyndar getur dæmi (16) verið í lagi þó að (15) hafi aldrei verið sagt, en
þá felst í því réttlæting gegn hugsanlegri athugasemd í þá veru. Þess háttar
skýring verður víst líka að gilda um dæmi eins og:
(17) Eg er ekki að segja að þú sért farin á hausinn. En illa stödd, já, ég er að meina það.
Hversu langt má seilast í þessa átt, það veit ég ekki gjörla, enda líklegt að
málnotendur hafi nokkuð ólíka tilfinningu fyrir því. Eitt klassískt ritmáls-
dæmi fer a.m.k. vel út fyrir mörk mínnar málkenndar, líklega einkum af
því að þar örlar ekki á neins konar neitun:
(18) Við skulum ekki gefa um það. Við skulum vera að tátla hrosshárið okkar.
Þetta tilsvar (örlítið breytt, ritað Viskum ...) gerði Halldór Laxness firægt
í lnnansveitarkroniku 1970 en hafði sjálfur lært það af sagnasafhi Brynjólfs
Jónssonar frá Minnanúpi (d. 1914), Framlag til alþýðlegra fomfræða (útg.
1953).11
Nú má varlega álykta af stöku dæmi, ekki víst að þetta hafi nokkurn
tíma verið algeng málnotkun eða með öllu eðlileg, jafnvel hugsanlegt að
Brynjólfur hafi einmitt veitt sögunni athygli fyrir þessa sérkennilegu beit-
ingu sagnasambandsins. Þó bendir sagan tdl þess að þegar hún varð til,
væntanlega á 19. öld, hafi notkunarsvið orðalagsins vera að gera e-ð verið
teygjanlegra í þessa tilteknu átt en það er nú. Sókn þess sé með öðrum
orðum ekki óstöðvandi á öllum vígstöðvum.
11 Þetta samhengi er rakið í samtalsbók þeirra Halldórs og Matthíasar Johannessen,
Skeggræðurgegnum tt'ðina 1972, sem t.d. má finna á vef Gljúfrasteins (www.gljufra-
steiim.is) > Halldór Laxness > Greinar (skoðað 29. október 2008). Eg á Kristjáni
Eiríkssjmi að þakka að minna mig á þetta dæmi.
57