Frjáls verslun - 01.05.2006, Page 6
6 F R J Á L S V E R S L U N • 5 . T B L . 2 0 0 6
ÞAÐ VERÐUR AÐ teljast mikið afrek hjá Herdísi Þorgeirsdóttur
lagaprófessor að boða á fjórða hundrað kvenna hvaðanæva að
úr samfélaginu til ráðstefnu á Bifröst og fá þær til að samþykkja
einróma ályktun um að sett verði lög um kynjakvóta í stjórnum
skráðra fyrirtækja.
KONURNAR STÓÐU UPP og samþykktu ályktunina með
dynjandi lófataki og bravóhrópum - en ályktunin gengur út á að
jafna hlut kynjanna í stjórnum skráðra fyrirtækja á Íslandi þannig
að hlutur annars kynsins sé ekki undir 40 prósentum.
EINDRÆGNIN Á BAK við þessa ályktun er athyglisverð
vegna þess að hún er umdeild og mjög skiptar skoðanir eru á með-
al beggja kynja um þörf á því að setja lög um kynja-
kvóta. Hitt vegur þó þyngra að svona lagasetning
getur stangast á við önnur lög og brotið í bága við
lög um einkaeignarréttinn. Fjármagni fylgja völd
og áhrif. Það er grunnurinn í kapítalísku samfélagi.
Út á það gengur leikurinn.
ÞEIR SEM EIGA reiðufé, hlutafé, húsnæði,
lóðir og jarðir hafa þann rétt samkvæmt lögum að
ráða yfir eign sinni. Sá réttur verður aldrei frá þeim
tekinn á meðan hann gengur ekki á rétt annarra.
Mörg dæmi eru auðvitað um að yfirvöld takmarki
eignaréttinn. Ekki er hægt að aka bílnum sínum
hvernig sem er og ekki er hægt að byggja hvernig
sem er á lóðum og jörðum. Menn reisa t.d. ekki 500
fermetra bústað á eignalóð við Þingvallavatn og
leggja bryggju út í vatnið bara vegna þess að þeir
eiga lóðina.
ÞEGAR KEMUR AÐ hlutafjáreign í fyrirtækjum þá hefur það
aldrei vafist fyrir neinum að rétturinn til stjórnarsetu hefur verið
skýlaus hafi hluthafinn nægilegt atkvæðamagn á bak við stjórnar-
sætið. Undanfarin ár hefur umræðan raunar frekar snúist um að
einstakir hluthafar hafi völd og áhrif umfram það sem eignarhlut-
ur þeirra veitir þeim. Sú kvöð fylgir hlutafjáreign í skráðum fyrir-
tækjum að hluthafi, eða tengdir hluthafar, þurfa að gera öðrum
hluthöfum yfirtökutilboð eignist þeir 40% eignarhlut í fyrirtækinu.
Þetta er gert til að vernda rétt smárra hluthafa.
EINRÓMA ÁLYKTUN HÁTT á fjórða hundrað kvenna á
Bifröst um að setja lög til að jafna hlut kynjanna í skráðum fyrir-
tækjum í Kauphöll Íslands er skiljanleg - þó mér finnist hún órök-
rétt. Þær telja einfaldlega að hlutirnir gangi of hægt fyrir sig og að
tilmæli og ábendingar um aukinn hlut kvenna í stjórnum beri lítinn
árangur. Þetta er hins vegar vandmeðfarin lagasetning og ég hefði
frekar haldið að fundurinn gerði kröfu um kynjakvóta í opinberum
fyrirtækjum og stjórnum.
ÞEIRRI SKOÐUN HEF ég margoft lýst yfir í leiðurum
Frjálsrar verslunar að ég sé á móti lögum um kynjakvóta í stjórn-
um fyrirtækja, hvort sem um er að ræða lítil einkafyrirtæki, stór
almenningshlutafélög eða fyrirtæki í eigu ríkisins. Það er rangt
út frá einkaeignaréttinum. Þess utan er samfélag sem setur lög
og reglugerðir um allt frekar óuppörvandi samfélag.
ÞAÐ ER ENNFREMUR hægt að velta því fyrir sér að í lang-
flestum tilvikum eru hjón eigendur fjármagnsins. Þar af leiðir að
þau eiga hlutaféð saman - þótt annað þeirra kunni að forminu til
vera skráð sem eigandi þess. Hvernig væri að næsta koddahjal
snerist um hvort þeirra ætti að sitja í stjórn fyrirtækisins? Það
er stundum sagt að fordæmið sé ekki aðeins venju-
lega leiðin til þess að hafa áhrif á aðra, heldur sé
það eina leiðin. Það er í anda þessarar hugsunar
um fyrirmyndir og fordæmi sem júníblað Frjálsrar
verslunar hefur verið helgað konum í viðskiptalífinu
þrjú ár í röð. Þetta hefur blaðið gert þrátt fyrir að
það líti fyrst og fremst á stjórnendur í fyrirtækjum
sem einstaklinga - sem manneskjur - án kynferðis,
kynþáttar og litarháttar. Það hefur hvatt til þess að
til fyrirtækja séu ráðnir þeir einstaklingar sem hafa
mesta hæfileika og áhuga.
JAFNRÉTTISUMRÆÐAN ER ORÐIN stór
hluti af umræðunni um viðskiptalífið - og færist
augljóslega í aukana. Það er vel. Þess vegna er þetta
blað um áhrifamestu konurnar í viðskiptalífinu hluti
af stöðugri umræðu en ekki bara eitt skot og síðan
ekki söguna meir. Allir fjölmiðlar fjalla reglulega
og miklu oftar en nokkru sinni áður um konur í viðskiptalífinu.
Ekki endilega vegna þess að um meðvitaða ritstjórnarstefnu sé að
ræða heldur vegna þess að aukin þátttaka kvenna í atvinnulífinu
þýðir að þær koma oftar við sögu í viðtölum og fréttaskýringum
í hverju blaðinu af öðru - sem einstaklingar sem eru að gera eitt-
hvað spennandi.
JAFNRÉTTISBARÁTTAN ER EILÍFT ferðalag án enda-
stöðvar. Það er auðvitað hægt að taka undir að langt sé í land í
fullkomið jafnrétti. En við lestur þessa blaðs dylst samt engum að
mikill árangur hefur náðst á undanförnum árum innan viðskipta-
lífsins þótt árangurinn mætti auðvitað vera meiri.
KONURNAR Í ÞESSU blaði eru fyrirmyndir, þær eru bæði
konum og körlum hvatning til að láta að sér kveða í viðskipta-
lífinu, hafa sig í frammi og beita sér. Fyrirmyndir og fordæmi eru
betri en lög.
Jón G. Hauksson
RITSTJÓRNARGREIN
LAGASETNING Á HLUT KYNJA Í STJÓRNUM STÓRFYRIRTÆKJA:
Þær klöppuðu á Bifröst
Konurnar í þessu
blaði eru fyrir-
myndir, þær eru
bæði konum og
körlum hvatning
til að láta að sér
kveða í viðskipta-
lífinu, hafa sig í
frammi og beita
sér. Fyrirmyndir
og fordæmi eru
betri en lög.
ÁTTU VON Á 975 GESTUM?
Ráðstefnuskrifstofa Íslandsferða hefur víðtæka reynslu af skipulagningu á öllu því sem við-
kemur ráðstefnu- , sýninga- og fundahaldi. Láttu það vera okkar verkefni að sjá um skipu-
lagið, hvort sem þú átt von á 10 gestum eða 1000. Við bókum fundastað, gistingu, ráðum
starfsfólk og pöntum skoðunarferðir og veitingar. Við hlökkum til að starfa með þér.
Lágmúla 4 · 108 Reykjavík · Sími 585 4300 · Fax 585 4390 · conferences@icelandtravel.is · www.icelandtravel.is
VIÐ GERUM ÞIG AÐ GÓÐUM GESTGJAFA