Tímarit Máls og menningar - 01.05.1944, Page 32
SVERRIR KRISTJÁNSSON :
Styrjöld og stefnumið
Fáar styrjaldir 19. aldar munu hafa verið ríkari að glappaskot-
um og afglöpum en Krímstríðið 1853—1856. Þá gerðist sá atburð-
ur, að fámenn brezk hersveit var send fram á vígvöllinn, en fyrir
mistök og klaufadóm herstjórnarinnar, beindu Bretar sjálfir skot-
hríðinni að hersveitinni. Hún sótti þó fram engu að síður, eins og
lagt hafði verið fyrir hana, og stráféll.
Það var ekki laust við, að mönnum brygði nokkuð við heima á
Englandi, er þeir spurðu þessi tíðindi. Hin brezka þjóð kaupmanna
og iðjuhölda var orðin óvön vopnaburði. Menn græddu fé að kristn-
um hætti um veröld alla, en ornuðu sér heima við arineld og Ijúf-
ar blekkingar Viktoríutímabilsins. En þessi átakanlegi atburður varð
Tennyson, hinu vinsæla hirðskáldi Englands, að yrkisefni, og hann
orti hið fræga kvæði sitt: Tlie Charge of tlie Light Brigade. Ljóð
hans var brátt kveðið um allt England, og viðlagið hefur alla stund
síðan verið sungið inn í brjóst hvers skólapilts á Bretlandi:
Their’s not to reason why,
Theirs hut to do and die!
Þannig ortu lárviðarskáld þeirra thna um hinar nafnlausu hetj-
ur samtíðarinnar. Að gera skyldu sína, deyja, án íhugunar, án
spurnar, það var æðsta inntak borgaralegra dyggða á vígvellinum.
Síðan hefur mikið blóð runnið í móðu sögunnar, blóð Breta og
Frakka, blóð Rússa og Þjóðverja, blóð allra kynkvísla jarðarinnar.
Síðan þetta var hafa ótaldar hetjudáðir verið drýgðar á þeim blóð-
velli, sem kenndur er við sæmdina. 1 höfuðborgum allra landa vnr
ókunna hermanninum reist leghöll úr marmara. Þegar háttsettir
stjórnmálamenn fóru í heimsókn til nágrannaríkjanna, var það
þeirra fyrsta verk að leggja sveig á gröf ókunna hermannsins. Þá,
og ekki fyrr, var með góðri samvizku hægt að semja um undirbún-
ing næstu styrjaldar.