Tímarit Máls og menningar - 01.05.1944, Side 42
32
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
í Þýzkalandi hefur hin grimma og átfreka yfirstétt í stóriðnaði,
fjármálum, landbúnaði og her svarizt í slíkt fóstbræðralag við naz-
ismann, að hún hlýtur að bíða sömu örlög og hann. Það er blátt
áfram skilyrði fyrir friði í Evrópu, að þessari stétt verði stevpt úr
þeim valdastóli, er hún hefur skipað um svo langan aldur. í hönd-
um þýzku þjóðarinnar verður framleiðslubákn Þýzkalands, tækni
þess og skipulagssnilli, til blessunar öllum heimi. í höndum hinnar
þýzku yfirstéttar verður Þýzkaland það voðaskeyti, sem jafnan er
beint að hjarta menningarinnar.
En framtíðarskipan innanríkismála Evrópu verður að vera verk
þeirra þjóða, sem byggja lönd Evrópu. Lýðræði og sósíalisma verð-
ur ekki komið á með valdboði erlendra herja. I neðanjarðarsam-
tökum undirokaðra stétta og þjóða, í skæruliðahópunum og í verk-
smiðjuráðunum munu upp vaxa hin nýju skapandi öfl Evrópu, sem
reisa við svívirta, eldforna menningu hennar og veita henni ný
þroskaskilyrði, sem hæfa okkar öld.
Frjálslyndir amerískir stjórnmálamenn hafa kallað þessa öld
alþýðumannsins öld. Hún er það enn sem komið er aðeins að stefnu-
skrá. Til þessa hefur hlutur alþýðumannsins, hlutur hins vinnandi
manns, verið fyrir borð borinn. Alþýðan hefur orðið að bera ógnir
stríðsáranna og sult hinna svokölluðu friðarára. Svo hefur það
verið um allan hinn borgaralega heim. Þegar einn kunnasti mat-
vælafræðingur Breta, Sir John Orr, lýsir því yfir í bók sinni:
What are we fighting for?, að þriðjungur íbúa Bretlandseyja fái
aldrei fullan kvið, þá geta menn ímyndað sér, hvernig vera muni
hagur alþýðumannsins í þeim löndum, sem fátækari eru. Eða þeg-
ar Henry Wallace, varaforseti Bandaríkjanna, segir frá því 1939, að
helmingur íbúa Bandaríkjanna fái ekki nóg af mjólkurafurðum,
grænmeti né ávöxtum, þá birtist eyðilegging Ameríkumanna á mat-
vælum í nýju ljósi.
Friðarárin og styrjöldin, sem á eftir fór, hafa ljóstrað meiru upp
um eðli þess þjóðfélagsskipulags, sem hvílir á einkaeignarrétti fram-
leiðslutækja og lífsuppsprettulinda, en allar bækur og allur áróður
sósíalista frá upphafi og fram á þennan dag. Sú reynsla hefur fært
mönnum heim sanninn um það, að framleiðsla gróðans er ósam-
rýmanleg framleiðslumætti og framleiðsluþörfum mannanna. Þetta