Tímarit Máls og menningar - 01.06.1960, Blaðsíða 21
ARNI KRISTJANSSON
Á Cliopinliátíð í Varsjá
Árna Kristjánssyni tónlistarstjóra Ríkisútvarpsins var í febrúarmánuði sJ.
boðið ásamt konu sinni til Chopinhátíðar í Varsjá. Hátíðahöld þessi fóru
frarn í tilefni 150 ára afmælis tónskáldsins. Fryderyk-Chopin-nefndin stóð
fyrir boðinu, en sú nefnd var skipuð af pólska ríkisráðinu til að annast
skipulagningu margvíslegra framkvæmda á þessu hátíðarári Chopins. Menn-
ingarráð Sameinuðu þjóðanna, Unesco, tók að sér vernd þessara hátíða-
halda, og að tilstuðlan þess voru skipaðar heiðursnefndir í mörgum löndum
m. a. á Islandi. Beztu píanóleikarar Pólverja og jafnvel hljómsveitarstjórar
voru sendir til tónleikahalds í mörgum höfuðborgum heimsins, en frægasti
píaiipsnillingur nútímans af pólskum uppruna, Arthur Rubinstein, kom hins-
vegar til Póllands og lék fyrir landa sína þar. — Frásögnin sem hér er birt
var upphaflega flutt á kynningarfundi Pólsk-íslenzka menningarfélagsins.
Það var ekki amalegt fyrir íslenzk-
an tónlistarmann og Chopinað-
dáanda að eiga kost á því að heim-
sækja Pólland, kynnast landi Chopins
og þjóð af eigin raun, sjá allt það og
heyra, sem tengir okkur nútímamenn
við þenna pólska meistara og tíð hans
— mega „ganga á hans vegum“ — ef
svo má segja.
Eftirvæntingin var mikil, þegar við
loksins, einn góðan veðurdag á hall-
andi vetri, sitjum í flugvél yfir Eystra-
salti og stefnum til suðurs — til Pól-
lands-stranda. Dagurinn var fagur,
með hvítum skýjabólstrum yfir bláu
hafi og gaf fyrirheit um vor og vakn-
andi líf handan við hafið. Loks sjá-
um við hvar aldan brotnar á lágri
strönd. Við fljúgum inn yfir að því
er virðist óendanlega, mjúkt dregna,
bugðótta strandlengju Póllands.
Sandrif teygja trjónur sínar hér og
þar út úr strandlengjunni og umlykja
smá lón.
„Pólland," segi ég við konu mína,
og hef upp frá því ekki augun af rúð-
unni. — Sléttumannaland kölluðu
Fjölnismenn Pólland, og lágt er það
hér norðan til. A jörðu sjást smá þorp
og byggðalög. Snjór liggur á auðum
svæðum milli svartra skógarþykkna.
Þarna lítum við virkisborg á fljóts-
hakka — vígin mynda stjörnu.
Grudziadz heitir borgin (sumir
160