Tímarit Máls og menningar - 01.06.1960, Page 89
FLETT TVEIM NÝJUM BÓKUM
geta sjálfsagt flest eða öll yngri skáldin
tekið. En unnendur eldri Ijóðhefðar eru
fastheldnir á sína arfleifð og tortryggnir
gagnvart aðfalli heimsstraumanna, enda
ekki ætíð að ófyrirsynju. Vissulega er varð-
veizla fyrri menningarverðmæta og varúð
andspænis staðlausu tízkutildri meðal
þeirra fornu dyggða sem ekki mega glatast.
Hinsvegar má fólk vara sig á að krjúpa ekki
of fast við „hásæti kúgarans Vana“. Ljóð-
stafir og endarím, kommur, punktar, upp-
hafsstafir — allt á þetta að vísu sinn af-
markaða rétt í þróunarsögunni. En það hef-
ur aldrei verið hinn eiginlegi skáldskapur
— ljóðið sjálft. Hið sanna ljóð hefur ævin-
lega verið innsta lífshræring samtímans:
andinn bak við formið.
íslendingar miklast af því að hafa átt Eg-
il og Snorra, Eystein og Hallgrím, Bjama
og Jónas, Davíð og Tómas. Þeir segja að
það hafi verið sitt líf. En því aðeins halda
þeir þá áfram að lifa að stórmerki líðandi
stundar eignist sffellt sína lúðurþeytara og
að þeir opni brjóst sín fyrir kalli þeirra,
hversu annarlegt og hjáróma sem þeim kann
að virðast það í fyrstu.
Gott er þegar bókstafurinn blífur, en ný-
sköpunin er þó frumskilyrði alls lífs.
231