Tímarit Máls og menningar - 01.12.1962, Blaðsíða 28
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
fjölda sérþjálfaðra vísindamanna. En þrátt fyrir fjárhagslegar takmarkanir,
og enda þótt sérhver þjóð geti fært sér í nyt margs konar tækninýj ungar er
orðið hafa i öðrum löndum, er það eigi að síður nauðsyn hverju þjóðfélagi
að halda uppi nokkurri sjálfstæðri rannsóknarstarfsemi. Tvær meginástæður
bera uppi þessa nauðsyn og eru þær lítillega raktar hér á eftir undir liðunum
a) og b).
a) . Fjölmörg atriði er varða þjóðarbúskap sérhvers lands verða ekki leyst
á viðhlítandi hátt án rannsókna í landinu sjálfu. Þetta er augljóst t. d. að því
er varðar auðlindir íslands — jarðveg þess og gróður, hagnýt jarðefni, svo
sem byggingarefni, orkulindir vatnsfalla og jarðhita, að ógleymdu hafinu í
kringum landið. Víðtæk þekking á náttúrlegum auðlindum, hverjar sem þær
eru, er undantekningarlaust mikilvæg fyrir skynsamlega hagnýtingu þeirra, og
því eru rannsóknir á náttúru íslands annað og meira en dund grúskara. Þær
eru sá grundvöllur sem búskapur okkar í nútíð og framtíð hvílir á að verulegu
leyti. Sem framhald almennra náttúrurannsókna koma síðan svokallaðar hag-
nýtar rannsóknir, er fjalla m. a. um það á hvern hátt maðurinn getur haft
áhrif á umhverfið til aukningar á verðmætum sem fengin eru úr skauti náttúr-
unnar, og síðast mætti svo nefna tæknilegar rannsóknir er hafa það markmið
að leiðbeina um framleiðslu nytjavarnings eða um nýtingu þeirra hráefna er
landið og hafið gefa af sér, eða kunna að vera flutt að.
Hvert þjóðfélag hefur sérstöðu um þaim efnivið er það hefur úr að vinna
og það hefur einnig sérstöðu varðandi samfélagshætti og þjóðfélagsvandamál,
þar með talin fjárhagsleg atriði svo sem fjárfestingar- og markaðsmál. Til úr-
lausna á þessum margslungnu, staðbundnu vandamálum eru innlendar rann-
sóknir nauðsynlegar. En það liggur í hlutarins eðli að við rannsóknir af þessu
tagi er sjálfsagt að notfæra sér þá aðstoð og leiðsögn er rannsóknaraðferðir
og niðurstöður annarra þjóða geta veitt.
b) . Það er menningarleg skylda hverrar sjálfstæðrar þjóðar að sinna
grundvallarrannsóknum á náttúru landsins, jafnframt því sem hún rækir sögu
sína, tungu, bókmenntir og aðrar fagrar listir. Störf á þessum sviðum eru snar
þáttur þjóðlegrar menningar og eru ásamt ráðdeildarsemi og myndarlegum
þjóðarbúskap ef til vill öruggasta tryggingin fyrir því að lítil þjóð fái að
halda sjálfstæði sínu, jafnt á borði sem í orði. Þessar staðhæfingar verða að
vísu ekki rökstuddar hér. Það gæti verið efni í grein eða greinar handa þeim
sem kunna glögg skil á sögu og fögrum listum.
298