Tímarit Máls og menningar - 01.12.1962, Blaðsíða 35
RAUNVÍSINDI OG ÍSLENZKUR ÞJ ÓÐARBÚSKAPUR
margar greinar vísinda og tækni eiga hér hlut að máli. En nærtækasta og aug-
ljósasta almenna svarið við spurningunni gæti verið á þessa leið: Við skulum
fara að líkt og nágrannaþjóðir okkar eða þau lönd önnur sem sækja ört fram
á sviði raunvísinda og tækni. Þessar þjóðir sækja ótrauðar fram að sameigin-
legu marki: að auka þekkingu og tækni. En við förum okkur ofurhægt.
Þó að það falli þannig utan ramma þessara hugleiðinga að setja fram til-
lögur til úrbóta að því er varðar stöðu, íslenzkra raunvísinda, skal eigi að
síður drepið á þrjú atriði, er ég tel skipta meginmáli í þessu sambandi.
a) . Fyrsta óhjákvæmilega skrefið er að bæta launakjör íslenzkra vísinda-
manna almennt. Jafnframt verður að gera það kleift að greiða sérstaklega
fyrir menntun og hæfni, að hætti annarra þjóða, þ. e. það verður að vera
heimilt að greiða vel menntuðum vísindamanni, sem í verki hefur sýnt hæfni
og dugnað, meira en miðlungsmanninum, þótt háskólapróf hafi. Verði slíkar
stefnubreytingar ekki upp teknar, mun reynast æ torveldara að ráða vel hæfa
vísindamenn til starfa á íslandi; og valda hér um að nokkru leyti stór yfir-
boð er slíkum mönnum munu berast frá öðrum þjóðum og alþjóðastofnun-
um. í þessu sambandi skiptir það einnig máli, að réttmætt og eðlilegt er að
gera meiri kröfur um ástundun og afköst til manns sem fær greidd lífvænleg
laun en til hins sem nauðugur-viljugur verður að sinna „aukastörfum“ í
venjulegum vinnutíma, svo sem nú er títt um mikinn hluta þeirra manna er
kallast hafa rannsóknir að aðalstarfi á íslandi.
b) . Eins og vikið var að hér að framan (í kafla III, 4) hefur sá takmarkaði
hópur er nú sinnir raunvísindum á íslandi í flestum tilfellum nægilegt vinnu-
rými. En í þessu efni má þó segja að tjaldað sé til einnar nætur, þegar frá eru
taldar rannsóknastofnunin á Keldum og hús sjávarútvegsins við Skúlagötu í
Reykjavík. Það er alkunna að unnið er að því að búa íslenzkum raunvísindum
frambúðar samastað á Keldnaholti, en vegna þess að undanfarið hefur verið
lágskýjað yfir vötnum andans að því er raunvísindi varðar, hefur lítið þokazt
áleiðis í þessu efni. Þó að íslenzkri rannsóknastarfsemi sé haldið í nokkrum
öldudal í svipinn, er lítt hugsandi að svo fari fram til lengdar. Eftir fimmtíu
ár munu þarfir íslenzkra raunvísinda um vinnurými og starfsaðstöðu verða
margfaldar á við það sem gerist nú. Vegna þessarar augljósu framtíðarþarf-
ar tel ég það annað veigamesta skrefið sem stíga verður nú að tryggja að
fullu þá framtíðaraðstöðu sem stendur til boða á Keldnaholti og hefjast þar
handa um framkvæmdir sem fyrst, í framhaldi af þeirri starfsemi Raforku-
málaskrifstofunnar sem þegar hefur verið til stofnað. Mér sýnist það goðgá að
gera ráð fyrir því að lóðarblettir sem kunna að vera fáanlegir í nágrenni há-
TÍMARIT máls oc menningar
305
20