Tímarit Máls og menningar - 01.12.1962, Blaðsíða 85
TRAUSTIR SKULU HORNSTEINAR
Meðalmaður á hæð, skrifa ég, nokkuð gildvaxinn, fullur að vöngum, nefið
breitt, varirnar þykkar, augnaráðið góðlegt, svipurinn jafnan hæglátur og
virðulegur, eins og sómir mikilsháttar embættismanni hjá því Opinbera, fing-
urnir á honum stuttir, hvítir og feitir. Hann hafði lokið stúdentsprófi eftir
smávegis áföll og tafir, en velt því síðan fyrir sér alllengi hvort hann ætti að
leggja á sig frekara erfiði á menntabrautinni, flögrað milli föðurhúsa og höf-
uðstaðarins, notið þess eftir föngum að vera ungur sýslumannssonur og stúd-
ent. Þó fór svo, að hann sigldi til Kaupmannahafnar og hóf þar háskólanám.
Hann var búinn að vera nokkur ár í Höfn og slá mörgum prófum á frest, þeg-
ar tápmikil stúlka frá Akureyri kynntist honum á landamóti og batt skjótan
enda á slugs þetta, hristi af honum vafasama lagsbræður, tók hann heim með
sér til ættjarðarinnar, giftist honum, dreif hann í stjórnmálaflokk og útvegaði
honum bókarastöðu. Fimm árum síðar var Bjarni Magnússon ekki einungis
orðinn skrifstofustjóri hjá því Opinbera, heldur svo velmetinn afturhalds-
maður og traustur góðborgari, að frænka hans gömul, sterkefnuð og siða-
vönd, afréð á banasænginni að ánafna honum allar eigur sínar, nema hvað
kaupa skyldi nýja altaristöflu fyrir eitt þúsund krónur í kirkjuna heima í
bemskusveit hennar. Hann fór víst að finna fyrir gigt í spjaldhryggnum
skömmu eftir að þessi ágæta frænka hans var komin undir græna torfu.
Oj á. Blessaður karlinn!
Ég kynntist smám saman háttum hans á virkum dögum, enda voru þeir
ekki flóknir og hnikuðust því aðeins til, að gigtin hlypi í hann, faraldur legði
hann í bólið, svo sem flensa og kveisa, ellegar kosningabarátta væri hafin og
flokkurinn hans tekinn að skipuleggja smölun. Að öðru jöfnu reis Bjarni
Magnússon úr rekkju á virkum dögum svona hálfri stundu fyrir dagmál, eða
nokkrum mínútum síðar en kona hans, sem brá ævinlega blundi samkvæmt
áætlun og gerði vekjaraldukku óþarfa á heimilinu. Hann rakaði sig, greiddi
löng hár yfir þveran hvirfilinn, klæddi sig með lágu púi og mjúkum ræsking-
um, fór í mjallhvíta skyrtu og vönduð föt, dökk á veturna, en gráleit á sumrin.
Síðan át hann óumbreytanlegan litla skatt, hafragraut, linsoðið egg og hveiti-
brauðssneið með osti, drakk tevatn og leit á fyrirsagnir í Morgunblaðinu, ef
það var þá komið. Klukkan hálftíu lagði hann af stað í vinnuna, hringdi ekki
í stöðvarbíl nema í ofsaveðri, heldur gekk niður í miðbæ, oftast nær á gljá-
andi skóhlífum, í svörtum frakka á vetuma, en gráum á sumrin. Þegar hann
sá einhvern tilsýndar sem hann þekkti, þó ekki væri nema rétt í sjón, varð
hann ávallt fyrri til að heilsa, kinkaði kolli mjög alúðlega og tók ofan enska
framleiðslu, úrvalshatt, svartan eða gráan, með uppbrettum börðum.
355