Tímarit Máls og menningar - 01.09.1973, Blaðsíða 33
Bréf til Kristínar Guðmundardóttur
aö innræta löndum mínum þau sannindi, sem mér hefir misheppnast að koma
þehn í skilning um. Og hún hefir tök á að kenna lexíur sínar svo eftirminnan-
lega, að þær gleymast ógjarnan aftur. Og ísland á nógu marga rithöfunda,
sem eru albúnir og mér færari um að segja fólkinu sannleikann. Og guð hefir
gert þá svo úr garði, að fólkið tekur meira mark á þeim en mér aumum manni.
Ástarþakkir Kristín mín fyrir ótal velgjörðir.
Þórhergur Þórðarson
Viðbót.
Bréfið hefir nú legið nokkra daga niðri í póleraðri kommóðu. Þessa daga
fekk minn verri maður vald á sjálfstjórn minni og narraði mig til að þýða
grein um verkfall í Ameríku. Þessa grein sendi eg hér með Alþýðublaðinu til
birtingar, ef því þóknast svo. En ósk mín er það, að greinin sé ekki bútuð
niður í parta, heldur birt í heilu lagi. Stuttgreinamórallinn, sem blaðamenn-
irnir í Reykjavík eru að drepa með andlegt úthald íslendinga, þekkist ekki
hér í landi. Social-demokraten flytur t. d. iðulega greinar, sem taka yfir tvær
síður í blaðinu. Það samsvarar hér um bil tveimur Alþýðublöðum. Undan
þessu heyrist enginn kvarta, og eru þessar greinar þó sízt af öllu betur eða
skemtilegar skrifaðar en greinar mínar.
En í einlægni að spyrja: Hvenær á Alþýðublaðið að fara að stækka? Mikla
önn er eg búinn að þola fyrir seinlæti þeirra. Þvílíkt sveita-sinnumók gæti
hvergi átt sér stað í víðri veröld nema á Islandi. Ætla þeir ekkert að gera
fyrir landskjörið í sumar?
Eg er að þýða aðra grein um framgang jafnaðarstefnunnar í Englandi:
Læt hana í póstinn eftir þrjá daga. En þetta bréf má ekki bíða lengur, ef það
á að komast með þessari ferð Lyru.
Nú hefi eg fengið Alþýðublaðið. Verkamenn hafa orðið greinilega undir
í kaupdeilunni. Segðu Erlendi, að bókaverzlun Þórarins Þorlákssonar hafi
fengið nokkur eintök af Bréfi til Láru til útsölu í fyrra vor. Andvirði þeirra
ætti hann nú að geta fengiö upp í víxlaskrattana. Einnig hafði Guðmundur
Davíðsson þá nokkur eintök óseld.
Lokakveöja með aðdáun og lotningu.
Þ. Þ.
Preferensaktier á 3. síðu í þýðingunni verður Hallbjörn að finna íslenzkt
orð yfir. Einnig grunar mig að orðatiltækið að úthluta arði á hlutabréf sé
ekki tekniskt úttrukk á íslenzku, því mega þeir breyta. Ensku félagsheitin á 7.
síðu mega þeir og íslenzka, ef þeir vilja.
143