Tímarit Máls og menningar - 01.10.1981, Blaðsíða 4
Tímarit Máls og menningar
brunni þekkingar sinnar og kunnugleika á fyrrverandi höfuðborg íslands,
og sagan kemur hlaupandi á hverju götuhorni upp í fangið á ókunnugum
af vörum góðs leiðsögumanns.
Alls þessa er gott að minnast og svo margs og margs. En á þessum degi
hljótum við líka að rekja æviferil Magnúsar, skipti hans við starfsbræður
og systur, baráttufélaga og kunningja úti i iðandi lífi samfélagsins, einnig
þá sem ekki voru honum alltaf sammála, en munu eigi að síður hafa
kunnað að meta það sem vel er gert og stórt er í sniðum í fari andstæð-
ings.
Magnús var fæddur á Stokkseyri 25. febrúar 1919, sonur Sigrúnar
Guðmundsdóttur og Kjartans Ólafssonar. Hann tók stúdentspróf 19 ára
gamall, en sigldi þá til Hafnar og las verkfræði, en áttaði sig fljótlega á
því, eins og hann sagði síðar, að þar hafði hann valið hlutskipd sem
honum hentaði ekki. Hann hóf þá norrænunám undir handleiðslu Jóns
Helgasonar og taldi sig æ síðan standa í mikilli þakkarskuld við hann.
Þetta var á stríðsárunum, Danmörk var hernumið land og einangrað og
fyrir áeggjan Jóns og með aðstoð hans og fleiri góðra manna fékk Magnús
leyfi til þess að fara yfir sundið og halda norrænunáminu áfram í Svíþjóð.
Um þetta leyti staðfesti hann ráð sitt, og þegar þau hjónin komu heim til
Islands að stríðinu loknu, mun hann hafa verið óráðinn í hvað gera
skyldi, eða eins og hann orðaði það eitt sinn „var um skeið eins og milli
vita. Þá gerðust þau tíðindi haustið 1945 að Bandaríkjamenn báru fram
kröfur sínar um herstöðvar á íslandi í 99 ár. Ég held,“ segir hann „að
enginn atburður hafi haft eins mikil áhrif á mig um dagana, og ég einsetti
mér að beita því afli sem ég kynni að eiga til þess að koma í veg fyrir
erlend yfirráð. Um sömu mundir kynntist ég Kristni E. Andréssyni, við
urðum miklir vinir og hann varð ámóta áhrifavaldur í lífi mínu og Jón
Helgason áður. Og Kristinn var ekki á milli vita eins og ég.“
Þannig fórust Magnúsi orð i blaðaviðtali rúmum þrjátíu árum eftir að
þessi saga gerðist. Og hann bætti við: „Ætli sagan sýni ekki helst að ég
hafi verið áhrifagjarn unglingur, sem varð fyrir þeirri reynslu að kynnast
óvenjulega mikilhæfum mönnum.“
Magnús varð samverkamaður Kristins við Mál og menningu, en síðar
við Þjóðviljann, og 1947 var hann ráðinn ritstjóri blaðsins. Segja má, að
250