Tímarit Máls og menningar - 01.10.1981, Blaðsíða 6
Tímarit Máls og menningar
náinn samstarfsmaður hans frá þessum árum. En margt fleira var á
döfinni. Sjúkrastofnanir risu af grunni, og þar var stórhugur að verki. Ný
heilbrigðislög voru sett og skyldu þau tryggja landsmönnum jafnrétti um
heilsugæslu.
Þetta voru breytingatímar í iðnaðar- og orkumálum. Dreifing raforku
um landsbyggðina var aðkallandi, og nýting hennar til stærri átaka í
iðnaði en þekkst höfðu áður á landi hér var komin til sögunnar. Stefna
Magnúsar í þeim málum var í hans augum þáttur í sjálfstæðisbaráttu
þjóðarinnar. Að íslendingar hefðu þar tögl og hagldir var honum jafn-
sjálfsagt og yfirráðin yfir fiskimiðunum umhverfis ströndina og sér-
hverjum bletti þess lands, sem við nefnum fósturjörð.
A kveðjustund er margs að minnast. Hvernig maður var Magnús
Kjartansson? Hann var ljóngáfaður, víðlesinn, vel menntaður, með af-
brigðum fljótur að átta sig á mönnum og málefnum, ljúfur maður í
umgengni, en átti það líka til að vera hörkutól, þegar þess þurfti með, gat
jafnvel verið óbilgjarn, en einlægt hreinskiptinn, sagði hug sinn allan
hver sem í hlut átti, og virtist aldrei bera kala til þeirra, sem hann átti í
hörðustum deilum við. Hann var fullur metnaðar fyrir hönd þeirra, sem
báru skarðan hlut frá borði eða fóru á mis við það jafnrétti sem honum
þótti eðlilegt hlutskipti allra manna, en hann sóttist aldrei eftir auði,
völdum eða metorðum fyrir sjálfan sig. Hann bað hvorki um ritstjóratitil,
þingsæti né ráðherrastól; það voru samherjar hans og samstarfsmenn sem
réttilega ályktuðu að hann væri sjálfkjörinn til þeirra starfa. Hann var
óttalaus maður og tók því sem að höndum bar eins og sjálfsögðum hlut,
gróf sig í fönn ásamt félaga sínum þegar þeir lentu í ófærð og myrkri í
fjallgöngu á íslandi, ferðaðist vítt og breitt um Víetnam meðan sprengj-
urnar féllu og arkaði ótrauður inn i frumskóginn. Það var þessi óbilandi
kjarkur sem alltaf einkenndi afstöðuna til þeirra sjúkdóma sem hann átti
í höggi við seinustu æviárin. Aldrei heyrðist hann mæla æðruorð eða
harma vanmátt sinn. En trúlegt er að skert þrek hans sjálfs hafi enn betur
opnað augu hans fýrir böli annarra sem bjuggu við fötlun vegna slysa eða
sjúkdóma og þörf þeirra fyrir liðveislu dugandi stuðningsmanna. Hann
barðist í ræðu og riti fyrir bættri aðstöðu og endurhæfingu fatlaðra og
ekki síður fyrir breyttum viðhorfum ráðamanna og almennings til þessara
252